Skoðun

Ungt fólk til á­hrifa í Múla­þingi

Hópur frambjóðenda Sjálfstæðisflokks í Múlaþingi skrifar

Í Já eða nei í Kastljósi síðastliðinn mánudag kom afdráttarlaust fram hjá öllum framboðum að ekki er gert nóg fyrir unga fólkið í Múlaþingi. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að gera betur fyrir unga fólkið. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að koma til móts við ungt fólk í Múlaþingi meðal annars með því að beita sér fyrir því að háskólasetur verði stofnað á Austurlandi, ljúka við innleiðingu barnvæns sveitarfélags, tryggja börnum dagvistun frá 12 mánaða aldri og bjóða upp á hvata til húsnæðisbygginga. Þessi upptalning er einungis brot af því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ætlar koma til móts við ungt fólk í Múlaþingi. Til viðbótar er til dæmis hægt að nefna þróun frístundastyrkjar og fleira og fleira.

Við vitum öll að það er nauðsynlegt að hafa reynslu í bland við nýtt fólk á lista sem er fullt af eldmóði. Með fullri virðingu fyrir reynslumeira fólki en hvernig veit það hvað við unga fólkið viljum og okkar þarfir? Það er ekkert stórmál að lista upp stefnumál sem höfða til ungs fólks og lítur vel út á blaði. Það er hins vegar á ábyrgð frambjóðendanna sjálfra að sjá til þess að byggja upp stefnuskrá og sjá til þess að henni sé framfylgt. Hverjir eru betri að framfylgja málefnum ungs fólks en það sjálft?

Fulltrúar unga fólksins í Sjálfstæðisflokknum í Múlaþingi eru með sterka rödd og hafa fundið að á það er hlustað. Það kemur því ekki á óvart að í samantekt sem Ungt Austurland gerði á dögunum að Sjálfstæðisflokkurinn í Múlaþingi stendur sig langbest þegar horft er til ungs fólks í framboði. Af 22 frambjóðendum eru tólf 40 ára eða yngri. Ungt Austurland eru félagasamtök einstaklinga á aldrinum 18-40 ára. Tilgangur félagsins er að gera Austurland að vænlegum búsetukosti fyrir ungt fólk, auðga umræðu um byggðarþróun á Austurlandi og vera öflugur málsvari ungs fólks á Austurlandi. Frambjóðendurnir tólf, sex karlar og sex konur, koma frá öllum byggðakjörnum og eru með fjölbreyttan bakgrunn.

Stefnumál Sjálfstæðisflokksins eru því ekki bara í orði heldur líka á borði og erum við fulltrúar unga fólksins stoltir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi. Við erum tilbúin að láta rödd okkar heyrast og tryggja að stefnumálum okkar sé framfylgt fyrir okkur öll. Það verður best tryggt með því að setja X við D á kjördag og tryggja formanni ungmennaráðs Múlaþings, Einari Frey Guðmundssyni, sæti í sveitarstjórn.

Höfundar eru:

  • Guðný Lára Guðrúnardóttir, 3. sæti.
  • Einar Freyr Guðmundsson, 5. sæti.
  • Sunna Dögg Markvad Guðjónsdóttir, 6. sæti.
  • Sylvía Ösp Jónsdóttir, 8. sæti.
  • Claudia Trinidad Gomez Vides, 9. sæti
  • Björgvin Stefán Pétursson, 10. sæti.
  • Bjarki Sólon Daníelsson, 11. sæti.
  • Davíð Þór Sigurðarson, 12. sæti.
  • Kristófer Dan Stefánsson, 13. sæti.
  • Herdís Magna Gunnarsdóttir, 14. sæti.
  • Oddný Björk Daníelsdóttir, 16. sæti.
  • Vignir Freyr Magnússon, 21. sæti.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×