Körfubolti

Pétur Rúnar var farinn að ógna meti Jóns Arnórs í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétur Rúnar Birgisson stýrði sóknarleik Stólanna frábærlega í gær.
Pétur Rúnar Birgisson stýrði sóknarleik Stólanna frábærlega í gær. Vísir/Bára

Jón Arnór Stefánsson á enn metið yfir fullkomnasta stoðsendingaleikinn í lokaúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn en það met var í hættu í Síkinu í gærkvöldi.

Pétur Rúnar Birgisson átti sannkallaðan stórleik þegar Tindastóll rúllaði upp Valsliðinu í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvíginu í Subway-deild karla í körfubolta.

Pétur endaði með leikinn með 11 stoðsendingar, 9 stig, 6 fráköst og alls 24 framlagsstig. Stólarnir unnu með átján stigum þegar hann var inn á vellinum.

Pétur passaði líka svo vel upp á boltann að hann var farinn að gæla við að komast í hóp með Jóni Arnóri Stefánssyni í einum tölfræðiþætti í sögu úrslitakeppninnar.

Jón Arnór var fyrir leikinn í gær sá sem hefur gefið flestar stoðsendingar í leik í úrslitaeinvígi án þess að tapa boltanum.

Jón Arnór gaf 11 stoðsendingar án þess að tapa bolta í fyrsta leik KR og Grindavíkur í úrslitaeinvíginu 2009.

Pétur Rúnar hafði reyndar komist nálægt þessu meti fyrir sjö árum þegar hann gaf 10 stoðsendingar án þess að tapa bolta í leik þrjú í úrslitaeinvíginu á móti KR 2015.

Í gærkvöldi var Pétur kominn með 11 stoðsendingar án þess að tapa bolta í fyrstu þremur leikhlutunum og met Jóns því í hættu.

Pétur tapaði sínum fyrsta bolta snemma í fjórða leikhlutanum og metið rann honum því úr greipum.

Aðeins þrír leikmenn hafa þó náð því að gefa ellefu stoðsendingar í lokaúrslitum án þess að tapa fleiri en einum bolta. Þeir sem hafa náð því eins og Pétur í gær eru þeir Tyson Patterson (13:1 með KR 2007), Jón Kr. Gíslason (12:1 með Keflavík 1991), Jón Kr. Gíslason (12:1 með Grindavík 1997) og Jeb Ivey (11:1 með Snæfelli 2010).

  • Flestar stoðsendingar í einum leik í lokaúrslitum án þess að tapa bolta:
  • 11 - Jón Arnór Stefánsson með KR á móti Grindavík 2009
  • 10 - Pétur Rúnar Birgisson með Tindastól á móti KR 2015
  • 8 - Brynjar Þór Björnsson með KR á móti Haukum 2016
  • 8 - Jón Arnór Stefánsson með KR á móti Grindavík 2017
  • 7 - Sigtryggur Arnar Björnsson með Tindastól á móti KR 2018Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.