Handbolti

Fóru ummæli þjálfarans illa í Hönnu?: Úr fimmtán mörkum í núll mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði fimmtán mörkum færra í síðasta leik en í leiknum á undan.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði fimmtán mörkum færra í síðasta leik en í leiknum á undan. Vísir/Hulda Margrét

Það vakti athygli þegar Sigurður Bragason, þjálfari kvennaliðs ÍBV, grínaðist með það eftir stórleik Hrafnhildar Hönnu Þrastardóttur í oddaleik í fyrstu umferð úrslitakeppni Olís deildar kvenna í handbolta að hún skuldaði ÍBV enn sjötíu mörk.

Hrafnhildur Hanna hafði skorað fimmtán af þrjátíu mörkum ÍBV liðsins í þessum mikilvæga leik á móti Stjörnunni eftir að hafa skorað sex mörk samanlagt í fyrstu tveimur leikjunum.

Ekki er ljóst hvort þessi ummæli þjálfarans hafi farið eitthvað illa í Hönnu eða hvort að Framkonur hafi lagt slíkt ofurkapp á að stöðva hana í næsta leik á eftir.

Í fyrsta leik Fram og ÍBV í undanúrslitum kvenna þá skoraði Hanna ekki eitt einasta mark. Öll ellefu skotin hennar klikkuðu þar af voru fimm þeirra varin.

Hún fékk meðal annars vítaskot til að reyna að brjóta ísinn en það var varið. Af þessum ellefu misheppnuðu skotum komu níu þeirra í fyrri hálfleiknum sem ÍBV liðið tapaði 6-15.

Hrafnhildur Hanna var einnig með tvo tapaða bolta og endaði 3,5 í einkunn hjá HB Statz.

Nú fær Hanna og Eyjakonur tækifæri í kvöld til að bæta fyrir slakan leik í Safamýrinni á föstudagskvöldið en leikur tvö er í Eyjum í kvöld.

Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4 og hefst útsending klukkan 19.30. Á undan verður sýnt beint frá öðrum leik KA/Þórs og Vals en báðir leikirnir verða síðan gerðir upp í Seinni bylgjunni strax á eftir leiknum í Eyjum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.