Handbolti

Siggi Braga: Hanna skuldar enn sjötíu mörk miðað við samninginn hennar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði 15 mörk í oddaleiknum og skaut ÍBV áfram í undanúrslitin.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði 15 mörk í oddaleiknum og skaut ÍBV áfram í undanúrslitin. Vísir/Hulda Margrét

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir fékk stórt faðmlag frá þjálfara sínum Sigurði Bragasyni í lok oddaleiks ÍBV og Stjörnunnar í Vestmannaeyjum í gær og ekki af ástæðulausu. Hanna skoraði fimmtán af þrjátíu mörkum Eyjaliðsins í leiknum.

Seinni bylgjan gerði upp leikinn í gær og frammistaða Eyjakonunnar var að sjálfsögðu fyrirferðamikil í uppgjörinu enda stórbrotin frammistaða í jafnstórum leik og þessum.

Sigurður Bragason var auðvitað kátur með sína konu í viðtali eftir leikinn en hann leyfði sér líka aðeins að skjóta á hana í sigurvímunni eftir leikinn.

„Hún skuldar samt miðað við samninginn hennar held ég sjötíu mörk þannig að þetta var nú bara upp í skuld. Ég er ekki að fagna neitt of mikið,“ sagði Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV-liðsins, um fimmtán marka konuna Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur, en gat síðan ekki haldið svona áfram.

„Nei, núna er ég að grínast. Hún var stórkostleg og þetta er frábært fyrir alla, fyrir Adda Pé og fyrir kvennaboltann að sjá að hún er að ná vopnum sínum aftur,“ sagði Sigurður.

„Hún var í alvarlegum meiðslum. Hún var með nagla í hendinni í fimm mánuði og gat ekkert æft og annað. Að fá hana inn núna er frábært. Fyrir okkur er það geðveikt,“ sagði Sigurður.

Það má sjá brot af frammistöðu Hönnu og viðtalið við Sigurð í myndbandinu hér fyrir neðan.

Klippa: Umræða um fimmtán marka leik Hrafnhildar Hönnu í oddaleiknum í Eyjum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×