Viðskipti innlent

Auðkýfingur ætlar að reisa fimm stjörnu hótel við Skálafell

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vincent Tan, stofnandi Berjaya Corporation og eigandi Cardiff City
Vincent Tan, stofnandi Berjaya Corporation og eigandi Cardiff City

Malasíski auðkýfingurinn Vincent Tan hefur í hyggju að reisa fimm stjörnu hótel í nágrenni skíðasvæðisins í Skálafelli. Borgarstjóri lagði fram viljayfirlýsingu um byggingu hótelsins á fundi borgarráðs í gær og var hún samþykkt.

Í greinargerð með tillögu borgarstjóra kemur fram að uppbygging á ferðaþjónustu á svæðinu sé í samræmi við aðalskipulag, ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar og áform Reykjavíkurborgar í Græna planinu um styrkingu á svæðum í námunda við græna trefilinn og helstu útivistarsvæði borgarinnar.

Berjaya Land Berhad, fyrirtæki í eigu Vincent Tan, á og rekur í gegnum dótturfélög sín fasteignaþróunar- og fasteignafélög, hótel og aðra gistitengdaþjónustu. Berjaya hefur í hyggju að byggja upp fimm stjörnu hótel við Kýrhólaflóa, sem er hluti af eyðibýlinu Stardalur undir merkjum Four Seasons.

Gert er ráð fyrir að á hótelinu verði heilsulind, baðlón og öllu því sem tilheyrir fimm stjörnu ferðaþjónustu. Áhersla yrði lögð á kyrrð, heilsu og útivist. Um yrði að ræða mikla fjárfestingu og fjölmennan vinnustað, segir í greinargerð borgarstjóra.

Í bréfi frá Berjaya segir að um 250 herbergi verði á hótelinu en einnig lítil hús fyrir einkagesti. Þarna verði einblínt á ferðamennsku að vetri til í samstarfi við skíðasvæðið í Skálafelli.

Alex Tan Ghee Keong, fulltrúi Berjaya Land Berhard í verkefninu, skrifar undir yfirlýsinguna ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Vincent Tan er eigandi knattspyrnufélagsins Cardiff City sem um tíma spilaði í ensku úrvalsdeildinni þegar Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði lék með liðinu.

Berjaya hefur þegar fjárfest töluvert hér á landi en í fyrra gekk fyrirtækið frá kaupum á Icelandair Hotels.


Tengdar fréttir

Icelandair selur restina af hlut sínum í Icelandair Hotels

Icelandair Group hefur gert samning við Berjaya um sölu félagsins á 25% eftirstandandi hlut í hótelfélaginu. Berjaya á fyrir 75% hlut í Icelandair Hotels. Söluverðið er um 440 milljónir króna eða 3,4 milljónir Bandaríkjadala og kemur til greiðslu við afhendingu hlutarins og þegar skilmálar samningsins hafa verið uppfylltir.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×