Skoðun

Er ekki kominn tími á sam­vinnu í borginni?

Árelía Eydís Guðmundsdóttir skrifar

Er til eitthvað leiðigjarnara en að vera settur í teymi með samstarfsfélaga sem er svo fastheldinn á sína sýn á málunum að ekkert kemst í verk nema það sé gert eftir hans nefi? Samvinna er nauðsynleg til að leiða mál til lykta, þroskast, ná árangri og uppfylla það sem vinnuveitandinn réði okkur í vinnu til að gera. Eru stjórnmálin eitthvað öðruvísi?

Borgararnir ráða þau sem bjóða sig fram til þjónustu til þess að viðhalda rammanum um samfélag okkar og leiða það til velsældar. Hver og ein stjórnmálamanneskja er ráðin til þjónustu við alla borgara, ekki bara þá sem kusu hana. Hvort sem okkur stjórnmálafólki líkar það betur eða verr hafa borgarar ráðið fulltrúa fleiri flokka en okkar eigin í vinnu og það er skylda okkar að vinna með þeim, miðla málum og finna lausnir, borgarbúum öllum til heilla.

Dyggðin liggur mitt á milli öfganna

Aristóteles sagði dyggðina liggja mitt á milli tveggja öfga. Hugrekkið er hvorki heigulshátturinn né fífldirfskan - það er ígrundaða áhættan í miðjunni, heilbrigð skynsemi. Það sama á við hér. Ofangreint er síður en svo ætlað sem meðmæli með því að stjórnmálafólk verði samdauna hvert öðru. En einhver hlýtur millivegurinn að vera á milli þess að staðna vegna sífelldra illdeilna og þess að samþykkja allt skilyrðislaust – ekki satt?

Það sem einkennt hefur samræður mínar við samborgara mína undanfarið hafa verið áhyggjur af því hversu mikið átakapólitíkinni hefur tekist að ryðja sér rúms hér í borginni. Það er þetta sífellda annað hvort eða. Þéttum byggð eða fjölgum uppbyggingasvæðum, einkabíllinn eða almenningssamgöngur, mín leið eða bara alls ekki neitt. Þetta rýrir traust til alls kerfisins eins og kemur fram í nýlegri könnun á trausti til stofnana þar sem borgarstjórn Reykjavíkur er í neðsta sæti með 23%.

Framsókn í Reykjavík vill efla samvinnu í borgarpólitíkinni og leita leiða til þess að leysa vandamálin sem blasa við okkur þannig að sem flestir borgarbúar geti blómstrað í nærandi og manneskjulegu umhverfi.

Er ekki kominn tími á breytingar í borginni?

Höfundur skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×