Handbolti

Aron eftir þriðja heilahristinginn: Þessi búinn að vera sérstaklega slæmur

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Rafn Eðvarðsson fékk heilahristing árið 2017 og 2020, og í þriðja sinn fyrir sex vikum.
Aron Rafn Eðvarðsson fékk heilahristing árið 2017 og 2020, og í þriðja sinn fyrir sex vikum. vísir/vilhelm

Handboltamarkvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson fékk heilahristing fyrir sex vikum, þegar bolta var skotið í höfuð hans á æfingu. Hann var rúmliggjandi í 3-4 vikur og glímir enn við eftirköst.

Aron Rafn hefur ekki spilað með Haukum frá því að hann fékk höfuðhöggið og er því ekki með Haukum í undanúrslitaeinvíginu við ÍBV, sem heldur áfram í Eyjum klukkan 18 í dag.

Aron ræddi um meiðsli sín við RÚV en þau hafa ekki bara áhrif á þátttöku hans með Haukum heldur hefur allt daglegt líf.

„Staðan er alls ekkert frábær hjá mér. En það koma dagar sem eru þokkalegir. Þetta er þriðji heilahristingurinn minn, og þessi er búinn að vera alveg sérstaklega slæmur,“ segir Aron í viðtali við RÚV.

Rúmliggjandi í 3-4 vikur

Aron fékk fyrsta heilahristinginn árið 2017, sem að hans sögn var mjög slæmur, og svo annan árið 2020 sem var ekki eins slæmur.

Hann hefur verið í meðhöndlun hjá Elís Þór Rafnssyni sjúkraþjálfara en þegar um höfuðmeiðsli er að ræða þá er það tíminn sem er helsta lækningin.

„Það er lítið sem ég hef getað gert. Fyrstu 3–4 vikurnar var ég í raun bara rúmliggjandi og gat í raun bara ekki gert neitt. Svo er ég rosalega ljósfælinn og með mikinn svima,“ segir Aron.

Aron viðurkennir að framtíð sín í handboltanum sé í óvissu en segir að hann vilji ekki taka neinar ákvarðanir að svo stöddu.

Leikur ÍBV og Hauka hefst klukkan 18 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.