Skoðun

Hafnarfjörður er kranafjörður

Orri Björnsson skrifar

Það er spennandi og gaman að fylgjast með þeim gríðarlega krafti sem er í uppbyggingu Hafnarfjarðar þessi misserin. Nýjar íbúðir þjóta upp og íbúum fjölgar dag frá degi. Í dag eru á annað þúsund íbúðir í byggingu og búið að úthluta lóðum undir meira en tvö þúsund til viðbótar. Spennandi þróunarsvæði fara fljótlega í gang á Hrauni vestur og á hafnarsvæðinu.

Byggingarkrönum fjölgar stöðugt og í dag eru meira en 15% af öllum skráðum krönum landsins staðsettir í Hafnarfirði.

Það skiptir máli hverjir stjórna

Þegar mesta uppbyggingarskeið í sögu bæjarins stendur yfir er gríðarlega mikilvægt að vel sé haldið á spilunum og góð stjórn sé jafnt á framkvæmdum sem fjármálum bæjarfélagsins. Síðustu tvö kjörtímabil hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í meirihluta og okkur hefur gengið vel. Skuldir hafa lækkað, framkvæmdir hafa verið miklar og markvissar og hið mikla uppbyggingarskeið, sem nú er hafið, hefur verið undirbúið gaumgæfilega. Við Sjálfstæðismenn sækjumst nú eftir umboði til að sitja áfram við stjórnvölinn og sigla þessari miklu stækkun bæjarfélagsins í örugga höfn. Það er mikið undir og óumræðilega mikilvægt að vel takist til.

Fögnum nýjum Hafnfirðingum

Á næstu 4-5 árum mun Hafnfirðingum fjölga um fjórðung og þá skiptir máli að þjónusta og umhverfi fylgi með og að okkar nýju samborgurum líði vel frá fyrsta degi. Sjálfstæðisflokkurinn er reiðubúinn og mun beita sér af alefli til að svo megi verða. Góðir skólar, snyrtilegt umhverfi, greiðar samgöngur og öflugt samfélag er það sem fólk sækir í. Allt þetta er til staðar og við viljum halda áfram með bæjarbúum að gera það besta fyrir Hafnarfjörð.

Höfundur skipar 2. sæti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×