Handbolti

Arnór og félagar unnu stórsigur í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnór Þór Gunnarsson og félagar í Bergischer unnu öruggan sigur í dag.
Arnór Þór Gunnarsson og félagar í Bergischer unnu öruggan sigur í dag. vísir/Getty

Það voru Íslendingar í eldlínunni í fjórum af þeim fimm leikjum sem fram fóru í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Arnór Þór Gunnarsson og félagar hans í Bergischer unnu öruggan átta marka sigur er liðið tók á móti Daníel Þór Ingasyni og félögum hans í HBW Balingen-Weilstetten, 29-21.

Arnór og félagar settu tóninn snemma og skoruðu níu af fyrstu tíu mörkum leiksins. Í raun var brekkan orðin of brött fyrir gestina í Balingen strax um miðjan fyrri hálfleikinn, en staðan var 15-7 þegar gengið var til búningsherbergja.

Meira jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik, en heimamenn í Bergischer hleyptu gestunum aldrei nálægt sér og niðurstaðan varð átta marka sigur heimamanna, 29-21.

Arnór Þór skoraði tvö mörk fyrir Bergischer sem situr nú í 12. sæti deildarinnar með 21 stig eftir 27 leiki. Daníel var atkvæðamikill fyrir Balingen og skoraði sex mörk, en liðið er enn tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Þá unnu Janus Daði Smárason og félagar hans í Göppingen öruggan 11 marka sigur gegn Minden á heimavelli, 33-22, en Janus Daði skoraði eitt mark fyrir heimamenn.

Yýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen unnu þá einnig góðan þriggja marka sigur gegn Leipzig á útivelli, 28-31, en Íslendingalið MT Melsungen með þá Arnar Frey Arnarson og Alexander Peterson innaborðs þurfti að sætta sig við eins marks tep gegn Erlangen 32-31.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×