Viðskipti innlent

Leitar eftir aðilum til að reisa, fjármagna og reka Ölfusárbrú

Kristján Már Unnarsson skrifar
Brúin verður eitt tignarlegasta mannvirki landsins, með brúarstöpli sem slagar upp í hæð Hallgrímskirkjuturns.
Brúin verður eitt tignarlegasta mannvirki landsins, með brúarstöpli sem slagar upp í hæð Hallgrímskirkjuturns. Vegagerðin

Vegagerðin hefur hafið útboðsferli nýrrar Ölfusárbrúar í einkaframkvæmd með auglýsingu eftir upplýsingum um áhugasama bjóðendur. Leitað er eftir aðilum sem hafa áhuga á að semja við Vegagerðina, í kjölfar útboðs, um hönnun, framkvæmd, fjármögnun, rekstur og viðhald mannvirkjanna til allt að þrjátíu ára.

Gert ráð fyrir að mótframlag ríkisins verði um það bil helmingur kostnaðar. Hinn helminginn greiða vegfarendur með brúartolli. Vegamálastjóri nefndi á kynningarfundi á Selfossi í febrúar að gjaldið gæti orðið í kringum 400 krónur fyrir hverja ferð en einnig hafa birst tölur upp í 500 til 700 krónur. Bæjarstjóri Árborgar óskar þess hins vegar að gjaldið verði í kringum 100 krónur, ef hann ætti að nota brúna í sínu daglega lífi.

Nýja brúin yfir Ölfusárbrú verður á Efri Laugdælaeyju sem sést hér fyrir miðri mynd og nemur land við golfvöllinn á Selfossi. Handan við ána sést hvar verktakar eru byrjaðir að keyra efni í vegtenginguna frá Biskupstungnabraut.Arnar Halldórsson

Brúarsmíðin gæti hafist á fyrri hluta næsta árs. Færa á hringveginn norður fyrir þéttbýlið á Selfossi með smíði 330 metra langrar brúar á Ölfusá um Efri-Laugardælaeyju ásamt gerð nýs 3,7 kílómetra langs vegar. Ennfremur verður um einn kílómetri lagður af öðrum tveggja akreina vegum, vegamót gerð austan Selfoss og þrenn undirgöng verða undir hringveginn, ein fyrir bíla og gangandi og tvenn undirgöng fyrir gangandi, hjólandi og hestamenn.

Tekið er fram í auglýsingunni að væntanleg útboð geta verið fyrir verkefnið í heild sinni eða sem útboð um einstaka þætti, svo sem alútboð með hönnun og framkvæmd, útboð um fjármögnun og útboð um rekstur og viðhald. Athygli er vakin á því að einungis er um að ræða beiðni um upplýsingar sem Vegagerðin mun nýta til undirbúnings útboðs og gerðar útboðsgagna.

Svona mun brúin líta út, séð frá golfvelli Selfyssinga að Laugardælum. Brúarstöpullinn verður um sextíu metra hár.Vegagerðin

Þannig felur skráning ekki í sér skuldbindingu um þátttöku í útboði á síðari stigum. Ákvörðun um að skila ekki inn upplýsingum á þessu stigi útilokar heldur ekki þátttöku í útboði þegar það verður auglýst. Áhugasamir eru beðnir um að skrá sig í síðasta lagi þriðjudaginn 3.maí næstkomandi.

Þetta er þriðja verkið sem auglýst er á grundvelli nýlegra laga um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir en áður voru Hornafjarðarfljót og Axarvegur komin í útboðsferli. Útboð nýs hringvegar um Hornafjörð gekk hins vegar ekki betur en svo að Vegagerðin hefur neyðst til endurtaka útboðið með breyttu sniði þar sem tilboð sem bárust í upphaflegu útboði reyndust hátt yfir kostnaðaráætlun.

Frétt Stöðvar 2 um verkefnin frá því í febrúar má sjá hér:

Frétt Stöðvar 2 um höfnun tilboða í Hornafjarðarfljót má sjá hér:


Tengdar fréttir

Auglýsir nýtt útboð vegar um Hornafjörð í einkafjármögnun

Vegagerðin hefur auglýst í annað sinn útboð nýs kafla hringvegarins um Hornafjörð eftir að hafa í síðasta mánuði hafnað báðum tilboðum sem bárust í upphaflegu útboði. Þessi fyrsta tilraun til einkafjármögnunar í vegagerð á grundvelli nýlegra laga um samvinnuverkefni fer þannig brösuglega af stað en lögin heimila ríkinu að heimta vegtolla og semja við einkaaðila um fjármögnun samgönguframkvæmda.

100 eða 400 króna gjald yfir nýja Ölfus­ár­brú?

Ef allt gengur upp verður hægt að aka yfir nýja brú yfir Ölfusá við Selfossi 2025. Brúin verður 330 metra löng stagbrú með turni í Efri-Laugardælaeyju. Gjaldtaka verður yfir brúnna. Bæjarstjóri Árborgar sér fyrir sér hundrað krónu gjald en forstjóri Vegagerðarinnar fjögur hundruð krónur.

Sigurður Ingi lofar nýrri Ölfusárbrú í lok árs 2023 eða 2024

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra lofar nýrri brú yfir Ölfusá við Selfoss í lok ársins 2023 eða árið 2024 en framkvæmdir við brúna verða boðnar út um næstu áramót. Brúin mun kosta um sex og hálfan milljarða króna og innheimtur verður vegatollur yfir hana.

Ölfusárbrú og Axarvegur á leið í einkaframkvæmd

Smíði nýrrar Ölfusárbrúar og lagning Axarvegar eru að fara í útboðsferli sem einkaframkvæmd og mun Vegagerðin í þessum og næsta mánuði óska eftir áhugasömum bjóðendum. Ný brú á Hornafjarðarfljót er þó komin lengst slíkra verkefna en tilboð verða opnuð síðar í þessari viku.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×