Handbolti

Seinni bylgjan: „Umgjörðin er svo sannarlega til staðar á Selfossi“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Svavar Vignisson tók við kvennaliði Selfoss fyrir tímabilið og kom liðinu upp í Olís-deildina í fyrstu tilraun.
Svavar Vignisson tók við kvennaliði Selfoss fyrir tímabilið og kom liðinu upp í Olís-deildina í fyrstu tilraun. Stöð 2 Sport

Selfyssingar munu leika í Olís-deild kvenna í handbolta á næstu leiktíð eftir að liðið tryggði sér deildarmeistaratitilinn í Grill66-deild kvenna á dögunum. Svavar Vignisson, þjálfari liðsins, viðurkennir að markmiðið hafi ekki endilega verið að vinna deildina.

„Markmiðið var svo sem ekki endilega að fara upp, heldur að kannski bara byggja upp liðið og byggja umgjörð og svo kannski bara að halda áfram að gera vel á Selfossi,“ sagði Svavar í samtali við Seinni bylgjuna.

„Það að hafa farið upp er bara mjög jákvæður bónus sem fylgir þessu.“

Lið sem koma úr Grill66-deildinni og upp í Olís-deild kvenna hafa á seinustu árum oft átt mjög erfitt uppdráttar í deild þeirra bestu. Svavar segir að liðið þurfi að styrkja sig fyrir komandi átök og bendir á allar þær stelpur sem Selfyssingar hafa alið af sér og eru að spila annarsstaðar.

„Þið komuð svo sem ágætlega inn á þetta í þættinum hjá ykkur og þar talaði Anna Úrsúla einmitt um að ekkert þessara liða ætti erindi upp nema með því að styrkja sig. Og það er bara alveg rétt.“

„Það er mikill munur á milli þessara deilda, en hún bendir einnig á að umgjörðin hjá þessum liðum sé bara alls ekki nógu góð og ég veit að þetta stakk marga á Selfossi. Við eigum örugglega tíu eða ellefu stelpur sem eru að spila fyrir Val, Stjörnuna, Fram og annarsstaðar. Þannig að umgjörðin á Selfossi er sannarlega til staðar og það væri voða gaman að fá Selfossstelpurnar heim og búa til alvöru Selfosslið.“

En geta Selfyssingar sótt þessar stelpur aftur heim?

„Ég vona það. Ég vona það svo sannarlega að þeim þyki það spennandi að koma og gera Selfoss að samkeppnishæfu liði. Þar liggur þetta svolítið. Ef þær koma ekki þá þurfum við væntanlega að leita eitthvað annað og það er erfitt. Það er stundum eins og að biðja stelpur að koma á Egilsstaði þeim finnst svo langt að fara á Selfoss á æfingar. En auðvitað væri lang skemmtilegast að gera þetta með heimastelpum,“ sagði Svavar að lokum.

Klippa: Viðtal við Svavar og umræða um Selfoss í Olís

„Ég þarf ekki að svara fyrir neitt“

Anna Úrsúla var í setti Seinni bylgjunnar þegar viðtalið við Svavar var spilað og Svava Kristín, stjórnandi þáttarins, spurði strax hvort Anna þyrfti að svara fyrir eitthvað.

„Nei, ég þarf ekki að svara fyrir neitt vegna þess að ég talaði við hann þegar ég hitti hann daginn eftir þegar U-lið Vals var að spila við Selfoss,“ sagði Anna.

„Hann minntist á að hann hafi verið ósáttur við það að ég sagði að aðstöðurnar væru ekki nógu góðar. Það var bara því miður ekki rétt hjá honum. Ég talaði um að leikmennirnir - sama hvort það væri í Grillinu eða efstu deild eða hvað það er - ættu ekki að vera að líta til peninga eða inneigna, heldur að líta til aðstæðna félaga, þjálfara sem er verið að bjóða upp á, aðstöðu og annað.“

Snúa Selfyssingarnir aftur heim?

Eins og Svavar talaði um í viðtalinu þá eiga Selfyssingar helling af stelpum sem hafa verið að spila með öðrum liðum í Olís-deildinni á síðustu árum.

Systurnar Hrafnhildur Hanna og Hulda Dís Þrastardætur leika með ÍBV og Val, og mágkona þeirra, Perla Ruth Albertsdóttir, leikur með Fram. Kristrún Steinþórsdóttir er liðsfélagi Perlu hjá Fram og þær Elena Elísabet Birgisdóttir og Katla María Magnúsdóttir leika með Stjörnunni. Þá er Katrín Ósk Magnúsdóttir einnig Selfyssingur, en ekki er alveg vitað með stöðu hennar.

Allt eru þetta leikmenn sem léku með yngri flokkum Selfoss og hófu sinn meistaraflokksferil þar.

„Pælið í þessum nöfnum,“ sagði Svava þegar sérfræðingar Seinni bylgjunnar fóru yfir uppalda Selfyssinga sem leika annarsstaðar. „Það þarf ekki nema að Svavar myndi ná tveimur eða þremur.“

Anna Úrsúla greip boltann á lofti og sagði það í raun ótrúlegt að Selfyssingar hafi fallið á sínum tíma.

„Það er í raun ótrúlegt - því miður að ég skuli koma með þessi leiðindi - að þær hafi yfir höfuð fallið með liðið sem þær voru með. Það var ótrúlegt.“

Stelpurnar tóku sér svo góðan tíma í að ræða um þessa leikmenn sem Selfyssingar eiga í Olís-deildinni, sem og möguleika liðsins á að halda sér uppi með og án þeirra, en innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×