Skoðun

Þingið blekkt vegna sölu Íslandsbanka

Björn Leví Gunnarsson skrifar

Nokkur atriði vegna ummæla Bryndísar Haraldsdóttur í Silfrinu vegna aðkomu Fjárlaganefndar og þingsins að sölu Íslandsbanka.

Til að byrja með þá setti ráðherra Alþingi tímatakmörk til þess að klára umsögn sína. Sá tími var allt of lítill og tilfinningin sem maður fékk vegna umræðna á gögnum þingsins var vegna þess að það væri búið að ákveða að selja áður en glugginn eftir birtingu ársuppgjörs lokaði, eða eins og segir í minnisblaði ráðuneytisins: „Samkvæmt Bankasýslu ríkisins eru bestu gluggar fyrir söluáfanga stuttu eftir birtingu uppgjöra bankans og falla áform um sölu ágætlega að uppgjörsáætlun Íslandsbanka.“

Það þýðir einfaldlega að þingið hafði ekki tíma til þess að fara yfir forsendur málsins á viðunandi hátt.

Ég skilaði umsögn eftir settann tímafrest af því að ég taldi þann tímafrest sem mér var settur vera gersamlega óásættanlegan til þess að skrifa álit um þær litlu upplýsingar sem við þó fengum. Þar fjalla ég um sölufyrirkomulagið:

„Bankasýslan mælir með að Íslandsbanki verði seldur með tvenns konar fyrirkomulagi í bland. Annars vegar utan markaðar og og hins vegar samkvæmt miðlunaráætlun. Utan markaðar sala (e. over the counter) er sala til ákveðinna fjárfesta sem mæta einhverjum kröfum seljanda.“

Þetta þarf að endurtaka: „sala til ákveðinna fjárfesta sem mæta einhverjum kröfum seljenda.“

Krafan sem var gerð voru „hæfir fjárfestar“ og ég fullyrði að kynningin á því hverjir væru "hæfir fjárfestar" var algerlega óviðunandi. Umsagnaraðilar settu alltaf slíkt í samhengi við lífeyrissjóðina og aðila sem stunduðu stór og mikil viðskipti. Ekki að það væru aðilar eins og Hafsilfur, Lyf og heilsa og Bananalýðveldið. Í lifandis alvöru, hverjum dettur í hug að þessir aðilar séu hæfir fagfjárfestar. Sérstaklega þegar litið er til þess að fjárfestar eigi að „mæta einhverjum kröfum seljenda.“

Þegar minnisblað ráðuneytis vegna seinni sölunnar er skoðað þá eru þar mikilvægar vísbendingar um hvað fór úrskeiðis, til að byrja með lýsing ráðuneytis á tilboðsfyrirkomulaginu:

„Sala með tilboðsfyrirkomulagi fer fram með þeim hætti að söluráðgjafar kanna áhuga hæfra fjárfesta á einum eða tveimur dögum og afla þannig upplýsinga um vilja þeirra til að taka þátt í útboði, með svipuðu fyrirkomulagi og var gert í frumútboðinu. Á grundvelli þessara upplýsinga er svo tekin ákvörðun um hvort að ráðist verði í útboð og hversu stór hlutur verði seldur. Sú ákvörðun yrði tekin eftir lokun markaða og ákvarðast útboðsverð af lokaverði þess dags. Niðurstöður úthlutunar þurfa að liggja fyrir áður en markaðir opna daginn eftir og því gefst lítill tími til að ákveða nákvæma úthlutun. Verð er ákveðið með hliðsjón af lokaverði útboðsdags. Um er að ræða lang algengustu aðferðina sem ráðandi hluthafar nýta sér við sölu á stórum hlutum í skráðum félögum á evrópskum hlutabréfamarkaði.“

Afstaðan sem ráðuneytið tekur er svo áhugaverð miðað við hvernig fór:

„Með tilboðsfyrirkomulagi, líkt og því er almennt beitt, er verð seldra hluta ákveðið með hliðsjón af síðasta dagslokagengi hlutabréfa og er þá veittur lítilsháttar afsláttur frá því. Ástæða þess er sú að verið er að auka framboð bréfa á markaði og óska eftir því að hæfir fagfjárfestar kaupi stærri hlut, þar sem óvissa er um nákvæma þróun dagslokagengis næstu vikur á eftir.“

Á þessum stutta tíma sem þingið fékk tækifæri til þess að skoða málið og veita umsögn þá var alltaf gert ráð fyrir því hjá öllum gestum og ekkert gert til þess að leiðrétta þann skilning - að hér væri um að ræða söluferli til þess að finna líklega framtíðareigendur að bankanum. Fjárfestar sem ætluðu að kaupa stóran hlut. Því kom það skiljanlega öllum á óvart þegar listinn yfir þá sem keyptu var birtur.

En hvað þá?

Það er algerlega skýrt, lagalega og samkvæmt öllu meginreglum, að ráðherra ber ábyrgð á þessu ferli. Það er algerlega augljóst að Bankasýslan og ráðuneytið klúðraði málum hérna. Þó það liggi fyrir greinargerð þá er hún augljóslega villandi og stenst engar kröfur um gagnsæi. Það er nefnilega ekki nóg að birta greinargerð og segja „gagnsæi“ ef upplýsingarnar sem eru í greinargerðinni eru ekki skýrar. Lögin segja að ráðherra taki ákvörðun, að ráðherra beri ábyrgð. Vissulega er það Bankasýslan sem fer með framkvæmdina en ráðherra ber ábyrgð á því að framkvæmdin sé samkvæmt þeim markmiðum sem ráðherra setur. Þar eru tveir möguleikar í stöðunni, af því að ráðherra hefur sagt að hann hafi ekki lagt mat á þau tilboð sem Bankasýslan skilaði til hans, að (1) tilboðið hafi verið afurð þeirra skilmála sem ráðherra setti - og skilaði þá meðal annars þeirri niðurstöðu að vafasöm innherjaviðskipti gætu átt sér stað eða að fjölskyldumeðlimir ráðherra gætu tekið þátt. Eða (2) að ráðherra hafi ekki sinnt sinni skyldu og skoðað hvort ferlið hafi verið samkvæmt þeim skilyrðum sem sett voru.

Hvort tveggja er alvarlegt. Annað hvort eru skilmálarnir það lélegir að innherjar gátu keypt eða þá að ráðherra sinnti ekki þeirri skyldu að skoða hvort ekki var staðið rétt að málum.

Man einhver eftir Landsréttarmálinu til dæmis? Það er að vísu slæmt dæmi almennt séð um hvernig ráðherra sinnir sinni skyldu. En það sem það mál á að kenna okkur er að ráðherra getur skipt sér af. Ráðherra þarf bara að gera það rétt. Ekki nóg með það, þá samkvæmt lögum á ráðherra sérstaklega að „taka ákvörðun.“ Þannig ber ráðherra ábyrgð. Ef ráðherra stimplar tilboðið bara óséð - treystir því að allt hafi verið rétt gert - þá getur það varðað vanrækslu því ef ráðherra hefði skoðað tilboðið betur hefði hann væntanlega séð að þar hefði ekki allt farið fram með réttum hætti.

Það er mikilvægt að þetta sé skýrt. Þingið fékk ekki nægan tíma til þess að gera góða umsögn vegna þess að ráðherra krafðist þess að fá umsögnina innan ákveðins tíma. Þingið er hins vegar sjálfstætt í sínum störfum og ráðherra starfar í umboði þess, þó ríkisstjórnarflokkarnir snúi þessu alltaf við og búi þannig til ráðherraræði. Í kjölfarið klúðraði ráðherra málinu svo annað hvort með því að gefa Bankasýslunni óljósar leiðbeiningar (ef ráðherra vildi ekki að þetta væri niðurstaða seinni sölunnar) eða klúðrað málum þegar niðurstaðan var sett í hendur hans. Nema auðvitað þetta hafi allt farið fram samkvæmt væntingum ráðherra. Ef svo, þá er það alvarlegt á allt öðrum skala - fjármálaráðherra seldi föður sínum hlut í almannaeign að yfirlögðu ráði.

Höfundur er þingmaður Pírata.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×