Golf

Sung-Jae Im í forystu eftir fyrsta dag Masters

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sung-Jae Im lék hringinn á 67 höggum.
Sung-Jae Im lék hringinn á 67 höggum. Jamie Squire/Getty Images

Suður-kóreski kylfingurinn Sung-Jae Im er í forystu eftir fyrsta dag Masters-mótsins í golfi. Sung-Jae Im lék fyrsta hringinn á 67 höggum, eða fimm höggum undir pari Augusta National-vallarins.

Á eftir Im er Cameron Smith í öðru sæti á fjórum höggum undir pari og jafnir í þriðja sæti eru þeir Danny Willett, Joaquin Niemann, Scottie Scheffler og Dustin Johnson.

Flest augu voru þó á endurkomu Tiger Woods sem snéri til baka eftir að hafa lent í bílslysi í fyrra. Tiger lenti í slysinu í febrúar í fyrra og hefur af þeim völdum verið fjarverandi frá keppni í golfi síðan.

Tiger átti þó fínasta hring og lék á 71 höggi, einu höggi undir pari vallarins. Hann situr í 11. sæti ásamt sex öðrum kylfingum.

Þá eru stór nöfn á listanum sem áttu kannski ekki sinn besta dag. Justin Rose, Bryson DeChambeau, Louis Oosthuizen og Justin Thomas léku allir á 76 höggum í dag, eða á fjórum höggum yfir pari, og eru því jafnir þremur öðrum kylfingum í 70. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×