Formúla 1

Formúlu 1-keppni verður haldin á Las Vegas Strip

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd af Lewis Hamilton varpað upp á stóran skjá í Las Vegas í tilefni af kynningarfundi fyirr nýju formúlu keppnina í borginni.
Mynd af Lewis Hamilton varpað upp á stóran skjá í Las Vegas í tilefni af kynningarfundi fyirr nýju formúlu keppnina í borginni. AP/John Locher

Bandaríska borgin Las Vegas er að breytast í mikla íþróttaborg og enn berast fréttir af nýjum íþróttum í spilavítaborginni í eyðimörkinni.

Fyrst kom íshokkíliðið  Las Vegas Golden Knights, þá WNBA-liðið Las Vegas Aces og loks NFL-liðið Las Vegas Raiders. Þá er mikið talað um að borgin fái líka NBA-lið í næstu framtíð.

Nýjustu fréttirnar úr íþróttalífi borgarinnar snúast hins vegar um formúlu 1-kappaksturinn.

Það verður nefnilega haldin formúlu 1 keppni á hinni frægu Las Vegas Strip í nóvember 2023.

Keppnin mun fara fram um kvöld og undir hinum þekktu ljósum næturlífsins í Las Vegas.

Keppnin fer fram á laugardagskvöldi en ekki á sunnudegi eins og vaninn er.

Brautin verður 6,2 kílómetrar og munu bílarnir fara fram hjá þekktum kennileitum borgarinnar eins og Caesars Palace, Bellagio-gosbrunninum og Mandalay Bay.

Las Vegas mun því bætast í hópinn með Austin og Miami sem eru líka bandarískar keppnisborgir í Formúlu 1. Það hefur verið keppt í Austin í mörg ár en Miami hýsir keppni í fyrsta sinn í ár.

Áhugi Bandaríkjamanna á formúlu eitt hefur aukist gríðarlega og þakka menn Netflix þáttunum „Drive to Survive“ mikið fyrir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×