Skoðun

Hug­vitsam­legar kjara­við­ræður?

Einar Mäntylä skrifar

„Allir vinna“ er markmið þar sem hagsmunir aðila fara saman og eru líklegir til að leiða til samninga sem halda til lengri tíma. Þá gildir að koma auga á tækfærin sem skila verðmætasköpun til beggja aðila. Tilgangur þessarar greinar er að benda aðilum vinnumarkaðarins á einmitt slíkt tækifæri sem gagnast báðum aðilum en hefur ekki verið hluti af kjarasamningum hingað til, svo undirrituðum sé kunnugt.

Við lifum í þekkingarsamfélagi þar sem þekking og hugvit eru auðlind sem jafna má við kvótaeign innan sjávarútvegsins. Enn á það við að þeir fiska sem róa. Fyrirtæki sem meta hugvit til verðmæta og meðhöndla það sem slíkt vernda hugverkin og standa betur í samkeppni við fyrirtæki sem ekki sinna hugverkavernd. Atvinnurekendur sem hvetja starfsmenn sína til nýsköpunar efla og styrkja grundvöll fyrirtækisins í leiðinni. Samkvæmt landslögum ( nr. 72/2004) á vinnuveitandi, hvort sem um er að ræða ríkisstofnun eða einkafyrirtæki, rétt á uppfinningu starfsmanns og getur varið hana með einkaleyfisumsókn og tekur á sig kostnaðinn við einkaleyfaferlið en umbunar starfsmanninum.

Í nútíma þekkingarsamfélagi er þetta fyrirkomulag sem ætti að gagnast bæði atvinnuveitandanum og starfsmanninum/uppfinningamanninum og bæta samkeppnishæfni fyrirtækisins, sem sagt, „allir vinna“. Virk hugverkavernd verður stöðugt mikilvægari fyrir verðmætasköpun í samfélaginu. Nýlega komu fram gögn sem sýna með sláandi skýrum hætti mikilvægi hugverkaverndar og hvernig það gagnast öllum, atvinnurekendum, eigendum, launþegum og samfélaginu.

Evrópska einkaleyfastofan EPO birti skýrslu á síðasta ári þar sem könnuð voru yfir 127 þúsund fyrirtæki í öllum 28 meðlimalöndum EB. Þar voru fyrirtæki sem höfðu hugverk vernduð (einkaleyfi, vörumerki, hönnun) borin saman við fyrirtæki sem ekki áttu nein varin hugverk. Leiðrétt var fyrir þáttum eins og stærð, atvinnugrein og landi til þess að samanburðurinn gæfi sem réttasta mynd.

Fyrrirtæki sem vernda hugverkin sín eru stærri, arðbærari og borga betri laun

Munurinn var athyglisverður: Fyrirtæki sem eiga einhver hugverk eru að meðaltali 164% stærri (13,5 starfsmenn) en fyrirtæki í sama geira sem ekki eiga nein hugverk (5,1 starfsmaður) og fyrirtæki sem eiga einkaleyfi eða verndaða hönnun í viðkomandi geira eru áberandi stærri (um 465% stærri og með 29 starfsmenn).

Tekjur fyrirtækis per starfsmann eru að meðaltali um 20% hærri hjá fyrirtækjum með einhver vernduð hugverk, tekjur fyrirtækis með einkaleyfi eru 36% hærri og með hönnunarvernd 32% hærri en fyrirtækja í sama geira sem ekki eiga slík vernduð hugverk.

Laun starfsmanna fyrirtækja sem ekki hafa verndað hugverk eru 17,4% lægri en hjá fyrirtækjum sem eiga vörumerki, 29,7% lægri en hjá fyrirtækjum sem eiga skráða hönnun og heilum 52% lægri en hjá þeim fyrirtækjum sem eiga einkaleyfi.

Í stuttu máli, fyrirtæki sem virða hugvit og vernda hugverkin sín með vörumerki, einkaleyfi, eða hönnunarvernd, eru einfaldlega stærri, arðbærari og borga betri laun. Hugverkavernd borgar sig ef marka má 127.199 fyrirtæki í Evrópu.

Það ætti að vera sameiginlegt hagsmunamál aðila vinnumarkaðarins í komandi kjarasamningum að samningar hvetji sérstaklega til hugverkaverndar og nýsköpunar. Því þannig vinna allir, bæði atvinnurekendur og launþegar í þekkingarsamfélagi sem við viljum tilheyra.

Höfundur er framkvæmdastjóri Auðnu tæknitorgs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×