Viðskipti erlent

Olíu­verð lækkar vegna Co­vid-tak­markana í Sjang­hæ

Atli Ísleifsson skrifar
Útgöngubannið er til að reyna að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar.
Útgöngubannið er til að reyna að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. AP

Töluverðar lækkanir urðu á olíuverði á Asíumörkuðum við opnun þeirra í nótt og er lækkunin rakin til þeirrar ákvörðunar kínverskra stjórnvalda að setja útgöngubann í stórborginni Sjanghæ.

Útgöngubannið er til að reyna að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar og hófst það í morgun með því að austurhluta borgarinnar var lokað.

Á föstudaginn kemur svo röðin að vesturhluta borgarinnar en alls búa um 25 milljónir manna í borginni, sem er viðskiptamiðstöð Kína.

Kórónuveiran hefur verið í uppsveiflu í borginni síðustu vikur en hingað til hafa yfirvöld þráast við að beita jafn hörðum aðgerðum þar eins og þau hafa gert annarsstaðar í landinu, í ljósi mikilvægis borgarinnar fyrir viðskiptalífið.

Brent-hráolían lækkaði um fjóra dollara á tunnuna við opnun markaða en þrátt fyrir þá skörpu lækkun er olíuverð þó enn í hæstu hæðum, eða um áttatíu prósent hærra en það var fyrir ári, sem rekja má að miklu leyti til stríðsins í Úkraínu.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.