Formúla 1

Hamilton vill sjá breytingar í Sádi-Arabíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lewis Hamilton tjáði sig um stöðu mála í Sádi-Arabíu á blaðamannafundi.
Lewis Hamilton tjáði sig um stöðu mála í Sádi-Arabíu á blaðamannafundi. AP Photo/Kamran Jebreili

Lewis Hamilton, einn besti ökumaður Formúlu 1 frá upphafi, hefur tjáð sig um stöðu mála í Sádi-Arabíu en keppni helgarinnar í F1 mun fara þar fram. Verður það annar kappakstur Formúlunnar í landinu.

Dauðarefsingin er enn við lýði i Sádi-Arabíu og fyrir aðeins nokkrum vikum var metfjöldi tekinn af lífi. Hamilton, sem hefur verið duglegur við að nýta rödd sína og tjá sig um málefni líðandi stundar, vill sjá breytingar á stöðu mála í Sádi-Arabíu.

„Við ákveðum ekki hvar við keppum en ég tel það skyldu okkar að reyna gera það sem í valdi okkar stendur,“ sagði Hamilton á blaðamannafundi á föstudag. Þá segist hann tilbúinn að hitta þá sem ráða til að ræða breytingar.

Mannréttindasamtökin Reprieve hafa gagnrýnt forráðamenn Formúlu 1 fyrir að gera langtíma samning við Sádi-Arabíu vitandi hvernig málum væri háttað þar í landi. Það breytir því ekki að um helgina verður keppt í Formúlu 1 í borginni Jeddah í Sádi-Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×