Körfubolti

Lovísa: Viljum að sjálfsögðu halda titlinum en engin aukapressa

Sindri Sverrisson skrifar
Lovísa Björt Henningsdóttir er klár í slaginn í VÍS-bikarnum en undanúrslitin eru í dag og úrslitaleikur á laugardaginn.
Lovísa Björt Henningsdóttir er klár í slaginn í VÍS-bikarnum en undanúrslitin eru í dag og úrslitaleikur á laugardaginn. vísir/Sigurjón

„Ég held að ég geti lofað virkilega flottum leik,“ segir Lovísa Björt Henningsdóttir um stórleik Njarðvíkur og Hauka í undanúrslitum VÍS-bikarsins í körfubolta sem fram fer í Smáranum í kvöld.

Snæfell og Breiðablik mætast klukkan 17.15 og klukkan 20 mætast svo Njarðvík og Haukar sem eru ríkjandi bikarmeistarar. Sigurliðin mætast í úrslitaleik á laugardaginn.

Lovísa segir að því fylgi engin aukapressa að vera handhafi bikarmeistaratitilsins:

„Við setjum bara þá pressu á okkur sem við viljum. Við erum auðvitað ríkjandi meistarar núna og að sjálfsögðu viljum við halda titlinum, en það er engin aukapressa. Við spilum bara okkar leik og gerum okkar besta.“

Klippa: Viðtal við Lovísu úr Haukum

„Þetta leggst ótrúlega vel í okkur. Við erum búnar að eiga marga góða leiki við Njarðvík í vetur, virkilega góða leiki á báða bóga,“ segir Lovísa.

Liðin hafa skipst á að vinna í Subway-deildinni í vetur, unnið tvo leiki hvort í innbyrðis viðureignum liðanna, og eru bæði í toppbaráttunni.

„Þær eru með ótrúlega flotta Kana og ég held að þetta snúist fyrst og fremst um að við spilum virkilega góðan varnarleik. Við erum með mjög gott sóknarlið og varnarlið. Það er alltaf hægt að setja boltann í körfuna en við þurfum að ná „stoppum“ líka til að vinna leiki,“ segir Lovísa sem þrátt fyrir að vera bara 26 ára er ein af nokkrum reynsluboltum í liði Hauka. Gæti reynsla Hauka ráðið úrslitum í kvöld?

„Vonandi en Njarðvík er líka með góða reynslu í góðum Könum. Þær eru með þrjá góða útlendinga og svo flottar, íslenskar stelpur. Ég held því að þetta verði mjög spennandi leikur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×