Skoðun

Engar lóðir í Hafnarfirði?

Stefán Már Gunnlaugsson skrifar

Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Hafnarfirði og alþingismaður, fullyrti í umræðum á Alþingi, að engar nýjar byggingalóðir væru til í Hafnarfirði. Þetta er uppskera Framsóknarflokksins í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn við stjórn bæjarins í lok kjörtímabils. Hafnarfjörður hefur engar nýjar byggingalóðir að bjóða. Þetta er þó í algjörri andstöðu við málflutning meirihlutans síðustu misseri, að bjart sé framundan í Hafnarfirði í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, nóg af lóðum. Nú kveður skyndilega við allt annan tón. Útlitið hjá meirihlutanum er hætt að vera bjart. Það er orðið kolsvart. Engar nýjar lóðir til í Hafnarfirði samkvæmt yfirlýsingu bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins.

Staðan í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði er alvarleg, en íbúum fækkaði á kjörtímabilinu í fyrsta skiptið í 80 ár og er íbúaþróunin langt undir áætlunum. Þetta gerist í góðæri og meðan íbúum í nágrannasveitarfélögunum fjölgar hratt. Einnig sýnir húsnæðisáætlun Hafnarfjarðarbæjar að aðeins er gert ráð fyrir um 150 nýjum íbúðum á árinu sem mætir engan veginn uppsafnaðri þörf eftir húsnæði.

Að fullyrða nú að engar nýjar lóðir séu í boði tveimur mánuðum fyrir kosningar opinberar uppgjöf og ráðleysi meirihluta Sjálfstæðis-og Framsóknarflokks, algjöran skort á framtíðarsýn og táknrænt um þreytuna sem hefur ríkt við stjórn bæjarins á kjörtímabilinu. Og bitnar á fólkinu og annarri uppbyggingu í bænum. Svo rýkur íbúðaverð upp, verðbólgan eykst og vextir hækka og það verður æ erfiðara fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur að fjárfesta í húsnæði.

Þegar við jafnaðarmenn tökum við stjórn bæjarins, þá munum við setja allt í gang og tryggja að svo verði hjá verktökum varðandi lóðaúthlutanir og uppbyggingu íbúða, t.d. í Vatnshlíð, á Slippsvæði og við Óseyrarbraut, Hraun-vestur og víðar. Það þarf að byggja upp, tími endalausra vangaveltna og áforma er liðinn; nú er komið að því að sjá verkin tala. Jafnaðarmenn við stjórn bæjarins eftir kosningarnar í vor munu tryggja að svo verði.

Höfundur er varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×