Skoðun

Hver erum við?

Sandra B. Franks skrifar

Við sinnum nærhjúkrun. Við aðstoðum ykkur. Stundum erum við á hlaupum við að aðstoða ykkur og hvetja. Þegar við getum þá eigið þið allan okkar tíma. Við erum með ykkur á ykkar viðkvæmustu tímum. Við vökum á nóttunni og erum hjá ykkur allan sólahringinn alla daga ársins, á jólunum, páskunum og á bestu dögum sumarsins, og við vinnum mikið.

Við erum á vaktinni í heimsfaraldri, og við förum líka heim til ykkar. Við sinnum kjarnastarfi heimahjúkrunar. Við erum ekki ein. Við vinnum af fagmennsku í teymum með öðru frábæru starfsfólki. Þið munið ekki komast hjá því að kynnast okkur. Sérstaklega þegar þið eldist eða missið þrek og heilsu. Þá þurfið þið á okkur að halda. Um 98% af okkur eru konur. - Við erum sjúkraliðar!

Við vitum að þið vitið

Starf sjúkraliðans er ótrúlega gefandi. Verkefnin eru fjölbreytileg og hver dagur er ólíkur þeim fyrri. Vinnan getur verið krefjandi og erfið en þetta er gott starf. Mikið væri heimur okkar betri ef sjúkraliðastarfið væri metið að verðleikum til hærri launa, því starfið okkar er mjög svo mikilvægt. Við vitum það og við vitum að þið vitið það. Ráðherrar vita það.

Stundum er talað um að jafna kynbundinn launamun, ekki síst í ljósi hins kynskipta vinnumarkaðs. Munið að 98% sjúkraliðar eru konur. Og munið líka hvað við sjúkraliðar gerum og hvenær við gerum það.

Kæri ráðherra

Kæri forsætisráðherra, fjármálaráðherra, heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra. Nú er lag að framkvæma ykkar góðu orð um jafnréttismál. Framundan eru kjarasamningar, en núna standa þó yfir viðræður um marga stofnanasamninga sem heyra undir ykkur. - Nú er lag.

Þið eru tímabundið í ykkar störfum en raunverulegt kjaraframlag í jafnréttisátt mun lifa ótímabundið áfram. Þið munið þurfa á aðstoð sjúkraliða að halda áður en þið vitið af. Og við munum sinna ykkur af fagmennsku og alúð. Nú biðjum við ykkur um að hugsa aðeins um okkur.

Höfundur er formaður Sjúkraliðafélags Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×