Innherji

Skattaskjól í boði rússneskra stjórnvalda: Refsiaðgerðir sniðgengnar

Í eftirfarandi umfjöllun verður ekki fjallað um að með samkomulaginu kennt við Búdapest árið 1994 viðurkenna Rússar að Úkraína sé sjálfstætt fullvalda ríki með sín eigin landamæri.

Margrét Ágústa Sigurðardóttir skrifar
Vladimír Pútín Rússlandsforseti en árið 2018 fóru ráðamenn í Kreml að kanna hvað væri í reynd unnt að gera svo landið yrði ónæmara fyrir refsiaðgerðunum ásamt því að skoða hvernig væri hægt að laða eignir auðmanna aftur heim til Rússlands. Andrei Gorshkov/AP

Í eftirfarandi umfjöllun verður ekki fjallað um að með samkomulaginu kennt við Búdapest árið 1994 viðurkenna Rússar að Úkraína sé sjálfstætt fullvalda ríki með sín eigin landamæri.

Ég ætla heldur ekki að fjalla um að Úkraínumenn stóðu við sínar skyldur á grundvelli samkomulagsins með því að flytja alla sína kjarnorkuodda yfir til Rússlands til förgunar. Ég ætla alls ekki að ræða um brot á alþjóðalögum og allra síst að slík brot séu með einhverjum hætti réttlætanleg af hálfu Rússa sem sjálfsvarnaraðgerð eða mannúðaríhlutun.

Hins vegar ætla ég að fjalla um rússneska auðjöfra og það hvernig rússnesk stjórnvöld hafa nú þegar komið félögum í eigu auðjöfranna í skjól undan efnahagslegum refsiaðgerðum Vesturlanda.

Eftir Jeltsín og „samkomulagið“ við olígarkana

Í forsetatíð Borís Jeltsíns höfðu olígarkarnir getað ráðskast með stjórnvöld, komist upp með að virða ekki reglur og í raun fengið frelsi til að leika lausum hala eins og ribbaldar, rænandi og ruplandi. Skömmu eftir kosningarnar árið 2000 kallaði Vladimír Pútín, núverandi Rússlandsforseti, olígarkana á sinn fund og tjáði þeim að ekki yrði lengur gefið nokkurt svigrúm til að hafa að engu reglur stjórnvalda og að þeir skyldu ekki halda áfram að treysta á sérstakan aðgang að rússneskum ráðamönnum, þ.e. Kremlverjum.

Nú var komið fordæmi hjá rússneskum yfirvöldum og urðu aðrir auðjöfrar, hvort sem um var að ræða olígarka eða ekki, hræddir um að hljóta sömu örlög og Khodorkovsky og vera sviptir eignum sínum og jafnframt frelsi. Í kjölfarið hlýddu þeir stjórnvöldum, þögðu og mótmæltu ekki. Allir vildu þeir vera vinir forsetans.

Pútín sagði að það yrði enginn munur gerður á þeim og eiganda litla bakarísins eða skósmiðsins á horninu. Aftur á móti kom hann því skýrt á framfæri að svo fremi að þeir héldu sig frá stjórnmálum, véfengdu hann ekki sem forseta eða gagnrýndu, þá myndi Pútín hvorki skipta sér af atvinnurekstri þeirra né endurþjóðnýta olíuauðlindirnar sem þeir höfðu fengu á silfurfati í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar.

Khodorkovsky og Yukos

Forsetinn stóð við orð sín og tónninn var sleginn með máli Mikhail Khodorkovsky, sem var á tímabili ríkasti maður Rússlands og einnig heimsins. Khodorkovsky var forstjóri Yukos, eins stærsta olíufyrirtækis í Rússlandi, og var handtekinn í lok árs 2003 fyrir skattsvik. Rússnesk stjórnvöld sökuðu bæði hann og fyrirtæki hans um að hafa misnotað ívilnandi skattareglur á tíunda áratugnum með þeim afleiðingum að virka skatthlutfallið á hagnað fyrirtækisins var 11% samanborið við lögbundið hlutfall sem þá var 30%. Staðreyndin var hins vegar sú að fyrirtækið nýtti sér skattasniðgöngukerfið á sama hátt og önnur rússnesk olíufélög, en Yukos var hins vegar eina fyrirtækið sem var ákært og refsað. Refsingin fólst ekki í því að skattar voru endurákvarðaðir með tilheyrandi álagi, heldur í því að Yukos var úrskurðað gjaldþrota og olíulind fyrirtækisins tekin eignarnámi. Auðlindin rataði þannig aftur í hendur rússneskra stjórnvalda.

Þegar Mikhail Khodorkovskí, fyrrum stofnandi og forstjóri olíurisans Yukos, var dæmdur í fangelsi var komið fordæmi hjá rússneskum yfirvöldum og aðrir auðjöfrar, hvort sem um var að ræða olígarka eða ekki, urðu hræddir um að hljóta sömu örlög og Khodorkovsky og vera sviptir eignum sínum og jafnframt frelsi.Mynd/AP

Þrátt fyrir að önnur olíufyrirtæki hafi staðið með sama hætti að skattskilum sínum þá var Khodorkovsky eini forstjórinn sem var ákærður og hlaut hann 10 ára fangelsisdóm. Ástæðuna má rekja til þess að Khodorkovsky var lýðræðissinnaður umbótasinni sem talaði fyrir alþjóðlegu samstarfi og gegn spillingu í Rússlandi. Þá aðhylltist hann frelsi markaðarins og hneigðist að vestrænum gildum, til dæmis var fjármálastjóri Yukos Bandaríkjamaður, reikningsskil fyrirtækisins voru gerð í samræmi við bandaríska reikningsskilastaðla og í meirihluta stjórnar sátu Bandaríkjamenn. Síðast en ekki síst hafði hann ekki farið leynt með stuðning sinn við frjálslynda andstöðu við Rússlandsforseta. Nú var komið fordæmi hjá rússneskum yfirvöldum og urðu aðrir auðjöfrar, hvort sem um var að ræða olígarka eða ekki, hræddir um að hljóta sömu örlög og Khodorkovsky og vera sviptir eignum sínum og jafnframt frelsi. Í kjölfarið hlýddu þeir stjórnvöldum, þögðu og mótmæltu ekki. Allir vildu þeir vera vinir forsetans enda hefur hann líka verið iðinn við að skipa helstu tryggðarmenn sína í valdamiklar stjórnendastöður.

Stofnun aflandssvæðanna gerir ekki einungis refsiaðgerðirnar sem slíkar bitlausari á marga rússneska auðmenn heldur veita þau auðmönnunum brautargengi út fyrir erlenda lögsögu þar sem félög í þeirra eigu gætu átt yfir höfði sér refsiaðgerðir.

Til að forðast eignarnám rússneska ríkisins, ásamt mögulegum frelsissviptingum, þá hafa rússneskir auðjöfrar, spilltir eða óspilltir, velvildarmenn stjórnvalda eða ekki, flutt fyrirtæki sín, meðal annars fjármuni, frá heimalandinu og skráð í erlendum skattaívilnandi ríkjum. Þannig hefur losnað um tögl og hagldir rússneskra stjórnvalda á auðmönnum sínum og þau því ekki haft það stjórnunartæki í höndum sér að beita refsingum á fyrirtæki eða eigendur þeirra. Vissulega er hér um verulega einföldun að ræða og það skal einnig haft hugfast að rússnesk stjórnvöld nýta líka lágskattaríki í ýmsum tilgangi, til dæmis vegna utanríkisstefnu sinnar. Rússar eru taldir eiga langmest af þeim svörtu fjármunum í heiminum sem faldir eru utan heimalands, bæði að raungildi og sem hlutfall af landsframleiðslu, en því hefur verið kastað fram að um sé að ræða eina trilljón dollara. Áætlað er að fjórðungur þessarar upphæðar sé undir stjórn Rússlandsforseta og gefur það ákveðnar vísbendingar um hversu mikil ítök Kremlverjar hafa utan heimalands síns.

Í skjóli rússneskra aflandssvæða

Í kjölfar hinna efnahagslegu refsiaðgerða sem Vesturlönd beittu Rússland árið 2014 og síðar, meðal annars vegna hernáms Krímsskaga, þá hafa ráðamenn í Kreml ítrekað nauðsyn þess að halda eignum innan landsins og nýta þær þannig til innlendra fjárfestinga með tilheyrandi ábata fyrir efnahag ríkisins. Árið 2018 fóru þeir að kanna hvað væri í reynd unnt að gera svo landið yrði ónæmara fyrir refsiaðgerðunum ásamt því að skoða hvernig væri hægt að laða eignir auðmanna aftur heim til Rússlands. Andsvarið var að koma á eigin skattaskjólum í Rússlandi, svokölluðum SARs (special administratvie regions), í Kaliningrad (Oktyabrsky Island) og í Vladivostok (Russky Island). Tilgangurinn var þannig að stofna „aflands“ svæði á rússnesku yfirráðasvæði í því skyni að endurheimta erlend félög heim til Rússlands ásamt því að laða að fjárfestingar í landinu til að efla og vernda tekjuskattsstofna – og mögulega þannig vernda að einhverju leyti rússneskan efnahag fyrir síðari refsiaðgerðum í kjölfar, á þeim tíma fyrirhugaðrar, innrásar í Úkraínu.

Oleg Deripaska, eigandi meðal annars álrisans UC Rusal, með Pútín Rússlandsforseta. Síðan í september 2020 hefur Deripaska flutt fjölda félaga frá erlendum ríkjum til sérstakra rússneskra lágskattasvæða.Vísir/AFP

Umfjöllun um þessi nýlega stofnuðu aflandssvæði Rússa hefur hvorki fengið mikla umfjöllum né athygli þrátt fyrir að þau geti gefið vísbendingar hver framtíðarmarkmið Kremverja eru með áframhaldandi stríðsrekstri. Stofnun aflandssvæðanna gerir ekki einungis refsiaðgerðirnar sem slíkar bitlausari á marga rússneska auðmenn heldur veita þau auðmönnunum brautargengi út fyrir erlenda lögsögu þar sem félög í þeirra eigu gætu átt yfir höfði sér refsiaðgerðir. Á aflandssvæðunum er, líkt og á öðrum hefðbundnum skattaívilnandi svæðum eða ríkjum, til að mynda enginn skattur lagður á arðgreiðslur eða söluhagnað á sölu hlutabréfa. Þá eru félögin í hinum rússnesku aflandssvæðum að auki undanþegin svonefndri CFC-skattlagningu sem snýr að skattlagningu í hendi móttakanda úthlutaðra tekna frá félögum skráðum í (öðrum) skattaskjólum. Rússnesku aflandssvæðin hafa þannig fært ein stærstu félög og félagasamstæður í eigu Rússa aftur til heim til Rússlands.

Frá árinu 2018 hafa meira en 70 félög verið flutt frá erlendum ríkjum til Rússlands en mörg þessara félaga voru staðsett í ríkjum sem samþykkt hafa refsiaðgerðinar ásamt því vera með skattaívilnandi regluverk. Rússnesku lágskattasvæðin bjóða upp á svipað skattaumhverfi og mörg þekktustu lágskattaríkin eða svæðin en hafa til viðbótar þann kost að félögin lenda ekki í klóm erlendra refsiaðgerða þar sem þau eru komin undan seilingar þeirra ríkja sem beita aðgerðunum. Óhjákvæmilegt er að velta því fyrir sér hvort að stofnun þessara aflandssvæða á rússnesku yfirráðasvæði hafi einnig verið liður í því að undirbúa stríðsreksturinn gegn Úkraínu, þannig að eignum yrði komið í skjól áður en til frekari refsiaðgerða kæmi vegna innrásárinnar.

Óhjákvæmilegt er að velta því fyrir sér hvort að stofnun þessara aflandssvæða á rússnesku yfirráðasvæði hafi einnig verið liður í því að undirbúa stríðsreksturinn gegn Úkraínu, þannig að eignum yrði komið í skjól áður en til frekari refsiaðgerða kæmi vegna innrásárinnar.

Einna stærstu félögin sem flutt hafa verið á aflandssvæðin eru álrisinn UC Rusal og orku- og málmvinnslufyrirtækið En+ Group. Þau voru bæði áður skráð undir bresku krúnunni, Jersey Island, og eru að hluta til í eigu Viktors Vekselberg og Oleg Deripaska, tveggja olígarka. Síðan í september 2020 hefur Deripaska flutt að minnsta kosti 12 önnur félög til svæðanna. Nú geta þeir Deripaska og Vekselberg stjórnað fjárfestingum sínum í félögunum án hótunar eða ótta um að eignir þeirra í SAR verði frystar á sama tíma og þeir hafa kost á því að fá skattfrjálsan arð úthlutað úr félögunum og, eftir atvikum, hagnast á skattfrjálsum söluhagnaði. Þá eru félögin sem hafa ratað aftur heim væntanlega mun fleiri en vitað er um og því aukin hætta á að núverandi refsiaðgerðir grípi færri aðila en vonast var til. Vissulega er enn hægt að frysta eignir á borð við fasteignir, snekkjur, bifreiðar og aðrar veraldlegar eignir sem staðsettar eru innan þeirra ríkja sem beita aðgerðunum en spurningin er hins vegar einfaldlega sú hvort að slíkt sé nóg til að tilætluð áhrif náist.

Ganga refsiaðgerðirnar nógu langt?

Flutningur þessara félaga og fleiri er ákveðin vísbending um að þetta sé í raun sú leið sem rússneskir auðmenn geta, eða gátu, farið til sniðganga efnahagslegar refsiaðgerðir Vesturlanda. Hættan er á móti óneitanlega sú að rússneskir auðmenn verði nú enn frekar háðari æðsta ráðamanni Kreml þar sem eignir þeirra eru aftur komnar undir rússneska lögsögu og þeir muni þar af leiðandi síður snúa baki við forsetanum. Það kann að hljóma nokkuð þversagnakennt en engu síður gætu refsiaðgerðirnar einnig hjálpað forsetanum þar sem stjórn hans hefur nú komið á fyrrnefndum lágskattasvæðum og þannig gæti hann einnig náð því langþráða markmiði sínu að meira af hagkerfinu færist undir stjórn ríkisins. Þá hafa sérfræðingar einnig bent á að Kremlverjar væru líklegir til að kaupa meðal annars félög eins og UC Rusal og En+ Group og myndu þá í framhaldi reyna að endurmerkja fyrirtækin til að forðast fordóma á heimsmarkaði ásamt því að álið yrði selt á botnverði bara til að halda Rússum starfandi og þannig atvinnulífinu gangandi. Slík kaup gætu þá vel þýtt margra milljarða dollara útborgun til eigenda fyrirtækjanna – útborgun sem jafnframt yrði fyrir utan lögsögu refsiaðgerðanna.

Það kann að hljóma nokkuð þversagnakennt en engu síður gætu refsiaðgerðirnar einnig hjálpað forsetanum þar sem stjórn hans hefur nú komið á fyrrnefndum lágskattasvæðum og þannig gæti hann einnig náð því langþráða markmiði sínu að meira af hagkerfinu færist undir stjórn ríkisins.

Samningsstaða forsetans um kaupin yrðu einnig sterkari ef eignir auðjöfranna eru frystar þar sem þeir gætu ekki losað um fé. Lausnin á lausafjárskortinum gæti þar af leiðandi verið í höndum forsetans með kaupum hans á félögunum. Jafnvel gæti stofnun lágskattasvæðanna þýtt að Kremlverjar séu með langtímamarkmið í huga, komast meðal annars yfir auðlindirnar og ríkisvæða stærri efnahagslega mikilvæg fyrirtæki, og færa þau aftur í vasa stjórnarinnar ásamt því að geta haldið störfum fyrir almenning í fyrirtækjunum þannig að hagkerfið fari ekki í frost meðan refsiaðgerðum er beitt. Þetta er mögulega hluti af langtímaáætlunum ráðamanna í Kreml. Markmiðið væri að gera rússneskan markað sjálfbærari og minna háðan viðskiptum á erlendum mörkuðum sem leiðir þá til þess að refsiaðgerðirnar hafi minni áhrif á efnahag landsins en ella.

Íbúar Irpin í úthverfi Kænugarðs yfirgefa borgina en innrás rússneska hersins í Úkraínu hófst aðfaranótt fimmtudagsins 24. febrúar síðastliðinn.

Við þetta vakna upp spurningar um hvort að þvingunaraðgerðirnar sem slíkar gangi nógu langt og hvort að meira þyrfti ekki að koma til í því skyni að hafa áhrif á auðjöfrana svo þeir muni snúa baki við stjórninni í Kreml. Þá má heldur ekki gleyma að efnahagsaðgerðirnar bitna fyrst og fremst á rússneskum almenningi en ekki auðjöfrum þar sem inn- og útflutningur mun leggjast af með þeim afleiðingum að það verður vöruskortur og rúblan hríðfellur. Nauðvörnin yrði að gripið er til frekari sjálfsþurftarbúskapar með tilheyrandi óvissu.

Í því skyni að gera refsiaðgerðirnar markvissari og einbeittari þá þyrfti að horfa sérstaklega til rússneska iðnaðarins og kanna hvernig væri unnt að beita hann frekari þvingunum. Því hefur verið velt upp að kolefnisskattur sá sem Evrópusambandið hefur nú þegar kynnt, og ætti reyndar ekki að taka gildi fyrr en 2026, myndi hafa veruleg efnahagsleg áhrif á rússnesk félög og mun meiri en núverandi refsiaðgerðir. Kolefnisskattinum er ætlað að leggjast á vissar innflutningsvörur frá þeim löndum þar sem viðleitnin við því að berjast gegn loftlagsbreytingum er ófullnægjandi. Skattlagningin myndi þannig ótvírætt leiða til gríðarlegra útgjalda fyrir rússnesk félög sem leitast við að fá aðgang að markaðinum innan ESB. Mögulega væri unnt að leggja skatt sambærilegan þessum á „kolefnisríkar“ innflutningsvörur frá Rússlandi og flýta gildistöku þannig að skatturinn nái bara til vara frá Rússlandi.

Í því skyni að gera refsiaðgerðirnar markvissari og einbeittari þá þyrfti að horfa sérstaklega til rússneska iðnaðarins og hvernig væri unnt að beita hann frekari þvingunum. Kolefnisskattur sem ESB hefur nú þegar kynnt myndi hafa veruleg efnahagsleg áhrif á rússnesk félög og mun meiri en núverandi refsiaðgerðir.

Þá hefur verið bent á að það gæti vafalaust borið árangur að leggja á við innflutning beinan og sérstakan refsiskatt á rússneska olíu og eins mögulega aðrar vörur sem skapa miklar útflutningstekjur fyrir Rússland. Án þess að reyna að gerast hagfræðingur, enda Big Mac vísitalan í raun eina hagfræðihugtakið sem ég skil, þá skilst mér að þeim mun teygjanlegri sem eftirspurnin yrði, þeim mun hærra hlutfall bæri rússneski olíuframleiðandinn af skattinum þar sem neytendur hafa fleiri valkosti. Þeim mun óteygjanlegra sem framboðið yrði, þeim mun hærra hlutfall bæri (aftur) olíuframleiðandinn af skattinum þar sem hann hefði færri valkosti. Í báðum tilfellum myndi skatturinn þannig að mestu vera greiddur af olíuframleiðandanum en ekki af neytandanum. Rússland er þriðji stærsti olíuframleiðandi í heiminum, með yfir 12 prósent af alþjóðlegri hráolíuframleiðslu, og beinar refsiaðgerðir gegn rússneskum olíuiðnaði myndu hafa enn meiri áhrif á heimsmarkaðsverð olíu heldur en óbeinar.

Það hefur aldrei verið ríkari þörf en nú að markmiði refsiaðgerða verði náð þannig að Úkraínumenn fái frið í sínu heimalandi sem sjálfstætt fullvalda ríki með sín eigin landamæri.Vísir/AP

Vissulega er það kostnaður sem almenningur þyrfti að taka á sig um tíma en hefðu aðgerðir á borð við beinan refsiskatt á rússneskan olíuiðnað tilætluð áhrif þá myndu rússnesk olíufélög selja minna af olíu, enda skattlögð sérstaklega, á meðan önnur olíuríki myndu keppast við að framleiða meira til að mæta aukinni eftirspurn. Þannig myndu þessar sértæku aðgerðir í formi refsiskattlagningar án efa skaða rússneskan olíuiðnað – og það verulega. Til að skatturinn hefði í raun tilætluð áhrif þá væri hins vegar nauðsynlegt að Vesturlönd, ásamt fleiri ríkjum heimsins, myndu sameinast um að leggja á þennan sameiginlega refsiskatt sem hluta af alþjóðlegum efnahagslegum þvingunaraðgerðum. Yrði þessi leið farin þá gætu skatttekjurnar numið umtalsverðum tekjum og farið í að niðurgreiða olíuverðið til neytandans í gegnum skattkerfið og auk þess runnið til Úkraínu þar sem landið mun þurfa gríðarlega fjárhagslega aðstoð eftir að þessum hörmungum líkur.

Það hefur aldrei verið ríkari þörf en nú að markmiði refsiaðgerða verði náð þannig að Úkraínumenn fái frið í sínu heimalandi sem sjálfstætt fullvalda ríki með sín eigin landamæri. 

Tilganginum verður að ná

Með allri þessari umfjöllun verður að hafa í huga að núverandi refsiaðgerðir eru langtum þyngri og harðari en þær aðgerðir sem farið var í 2014 og síðar. Áhrif núverandi aðgerða verða því án efa umfangsmeiri en áður hefur komið fram. Lögin eru hins vegar mannanna verk og gloppur í þeim geta gefið tækifæri til sniðgöngu þannig að þau glati tilgangi sínum – þess vegna er mikilvægt að vera vakandi fyrir slíku og þá betrumbæta regluverkið þannig að tilganginum verði náð. Það hefur aldrei verið ríkari þörf en nú að markmiði refsiaðgerða verði náð þannig að Úkraínumenn fái frið í sínu heimalandi sem sjálfstætt fullvalda ríki með sín eigin landamæri. Hluti þess er líka að íbúar Rússlands fái frið og komist loks í skjól undan ofstækisfullum og hættulegum æðsta ráðamanni í Kreml.

Höfundur er skattalögfræðingur með sérhæfingu í evrópskum- og alþjóðlegum skattarétti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×