Innherji

Norski olíusjóðurinn með meira en 30 milljarða undir á Íslandi

Hörður Ægisson skrifar
Verðbréfaeign olíusjóðsins á Íslandi hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum og er í dag ekki meiri frá því á árunum 2006 og 2007.
Verðbréfaeign olíusjóðsins á Íslandi hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum og er í dag ekki meiri frá því á árunum 2006 og 2007.

Olíusjóður Noregs, stærsti fjárfestingasjóður í ríkiseigu í heiminum, jók talsvert við verðbréfaeign sína á Íslandi á síðasta ári. Eignir sjóðsins, sem eru einkum skuldabréf á ríkissjóð og íslensk félög, námu samtals 246 milljónum Bandaríkjadala í árslok 2021, jafnvirði um 32 milljarða króna, og hefur verðbréfaeign olíusjóðsins ekki verið meiri hér á landi í liðlega fimmtán ár.

Þetta má lesa út úr nýju yfirliti yfir allar fjárfestingar sjóðsins í lok síðasta ár.

Stærsta eign norska olíusjóðsins eru skuldabréf á íslenska ríkið en fjárfesting hans í slíkum bréfum nam samtals 150,6 milljónum dala, jafnvirði um 19,5 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins í dag, og hélst nánast óbreytt á milli ára. Sjóðurinn hafði aukið verulega við eign sína í íslenskum ríkisbréfum á árinu 2020 – hann tvöfaldaði þá nánast stöðu sína – og hefur hann ekki átt meira þar undir frá að minnsta kosti 2006.

Þá kemur fram í fjárfestingayfirliti olíusjóðsins að hann hafi keypt í fyrra sértryggð skuldabréf í evrum á Arion sem bankinn gaf út í september 2021 og nemur sú eign sjóðsins 37,2 milljónum dala. Það þýðir að norski olíusjóðurinn hefur keypt um tíu prósent af allri útgáfunni hjá Arion á liðnu ári en bankinn gaf þá út sértryggð skuldabréf – fyrsta slíka útgáfan hjá íslenskum banka í evrum – til fimm ára fyrir samtals 300 miljónir evra. Skuldabréfin voru seld á kjörum sem jafngiltu 0,27 prósenta álagi á millibankavexti, bestu kjör sem íslenskur útgefandi hafði fengið eftir fjármálahrunið, að íslenska ríkinu meðtöldu.

Á sama tíma og olíusjóðurinn keypti sértryggð skuldabréf á Arion seldi hann meirihluta þeirra hlutabréfa sem hann átti í bankanum. Í árslok 2021 var sjóðurinn með bréf í Arion sem jafngiltu 0,05 prósenta hlut og var sá hlutur bókfærður á um 1,25 milljónir dala, jafnvirði um 160 milljónir króna. Árið áður átti olíusjóðurinn hins vegar 0,14 prósenta eignarhlut í Arion banka.

Næst stærsta einstaka eign olíusjóðs Noregs eru skuldabréf á Landsvirkjun upp á samtals 56 milljónir dala en sú eign hélst nánast óbreytt á milli ára. Þá átti sjóðurinn að auki kröfur á hendur eignarhaldsfélögunum Kaupþingi og gamla Landsbankanum (LBI) fyrir samanlagt rúmlega eina milljón dala.

Á sama tíma og olíusjóðurinn keypt sértryggð skuldabréf á Arion fyrir 37 milljónir dala seldi hann meirihluta þeirra hlutabréfa sem hann átti í bankanum.VÍSIR/VILHELM

Verðbréfaeign olíusjóðsins á Íslandi hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum og er í dag ekki meiri frá því á árunum 2006 og 2007. Þá átti sjóðurinn samtals um 700 milljónir dala í íslenskum verðbréfum, einkum skuldabréf á gömlu viðskiptabankanna.

Í árslok 2021 voru heildarverðmæti norska olíusjóðsins metin á um 12,3 billjónir norskra króna, eða sem jafngildir 180 billjónum íslenskra króna. Sjóðurinn skilaði hagnaði upp á samtals 23,3 billjónir norskra króna á liðnu ári – ávöxtun upp á 14,5 prósent – sem var eitt arðbærasta ár í sögu sjóðsins frá stofnun hans árið 1990.

Eignasafn sjóðsins var um 72 prósent í hlutabréfum í lok síðasta árs en alls á olíusjóðurinn eignarhluti í meira en níu þúsund fyrirtækjum.


Tengdar fréttir

Norð­menn sækja milljarða í olíu­sjóðinn

Stjórnvöld í Noregi hyggjast sækja nærri 420 milljarða norskra króna, um sex þúsund milljarða íslenskra króna, úr olíusjóði sínum til að fjármagna aðgerðir sínar vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Olíusjóðurinn keypti fyrir um 500 milljónir

Norski olíusjóðurinn á um 0,3 prósenta hlut í Arion. Nærri 20 nýir erlendir sjóðir bættust við hluthafahópinn í nýafstöðnu útboði. Flestir keyptu á bilinu 0,5 til 1 prósents hlut, meðal annars sænska eignastýringarfyrirtækið Lannebo Fonder.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×