Þórsarar féllu niður um sæti eftir tap gegn Ármanni

Snorri Rafn Hallsson skrifar
ármann þór

Báðum liðum hefur gengið vel undanfarið, unnið flesta af síðustu leikjum sínum og þar með talið topplið Dusty. Liðin höfðu skipt með sér innbyrðis viðureignunum og því allar líkur á að leikurinn yrði spennandi.

Inferno kortið varð fyrir valinu í þetta skiptið og hafði Ármann betur í hnífalotunni. Ármann hóf því leikinn í vörn (Counter-Terrorists) á meðan Þórsarar brugðu sér í líki hryðjuverkamannanna. Þetta setti tóninn fyrir fyrstu skammbyssulotuna sem Ármann lokaði hratt og örugglega. Vörnin var ekki síðri í annarri lotu þar sem Vargur og Hundzi beittu reyk- og bensínsprengjum til að tefja Þórsara og mæta þeim af krafti án þess að missa mann.

Þórsarar komu engum vörnum við í næstu lotum, felldu varla nokkurn og komust ekki í gegnum þétta vörn Ármanns. Þór kom sprengjunni fyrst fyrir í fimmtu lotu og ekki veitti af fjórfaldri fellu frá Rean til að koma Þór á blað. Ármann hélt forskoti sínu í næstu lotum en Þórsarar áttu ekki jafn erfitt með að mýkja vörn þeirra og komast í góðar stöður.

Liðin skiptust því á lotum en ljóst var að Rean dró vagninn algjörlega fyrir Þórsara. Án hans hefðu ófáar loturnar frekar farið til Ármanns. Ármann lét það ekki á sig fá að vera blankir og unnu meðal annars tvær sparlotur til að hafa betur í fyrri hálfleiknum. Þórsarar höfðu hins vegar rifið sig í gang og var Rean með 19 fellur í fyrri hálfleik. Bætti það upp fyrir arfaslaka frammistöðu Allee sem varla náði að fella neitt.

Staða í hálfleik: Ármann 8 – 7 Þór

Ármann byrjaði síðari hálfleikinn á því að vinna fyrstu þrjár loturnar, einstaklingsframtök komu þeim langt inn í loturnar sem reyndist svo auðvelt fyrir restina af liðinu að hreinsa upp. Hundzi, Vargur og Ofvirkur voru í fantastuði.

Zolo skilaði Þór svo lotu þegar bæði liðin voru fullvopnuð, en Ármann var á siglingu. Hafði Ofvirkur gjarnan betur í vappaeinvígunum gegn Allee og lentu Þórsarar í töluverðum fjárhagsvandræðum. Um miðjan síðari hálfleik greip Peterrr hinsvegar í vappann með góðum árangri og lifnaði þá einnig yfir Allee. Tókst Þór þannig hægt og rólega að minnka muninn.

Ármann æddi þá inn á sprengjusvæðið til að sjá við vappauppstillingu Þórs og sjá við þeim. Reyndist það Þórsurum erfitt að reyna endurtökur með tvo vappa. Eftir 26 lotur var staðan 15–11 fyrir Ármanni og Þórsarar komnir með bakið upp við vegg. Ármann var ekki á því að tapa leiknum og voru því snöggir að loka leiknum í 27. lotu.

Lokastaða: Ármann 16 – 11 Þór

Með tapinu eru Þórsarar fallnir niður í þriðja sæti deildarinnar. Ármann hefur aftur á móti byrjað þriðju túrneringu afar vel og unnið tvö af þremur toppliðum. Hafa þeir verið á mikilli uppsiglingu og sýnt seiglu til að koma sér í fjórða sætið. Bæði lið leika næst föstudaginn 11. mars, Ármann gegn Sögu, Þór gegn XY. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira