Handbolti

„Örugglega hræðilega erfitt og miklar tilfinningar“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ihor Kopyshynskyi fagnar marki í leiknum um helgina.
Ihor Kopyshynskyi fagnar marki í leiknum um helgina. S2 Sport

Ihor Kopyshynskyi var frábær í sigri Hauka á Gróttu í síðustu umferð Olís deildar karla í handbolta en hann var markahæstur í Haukaliðinu og með hundrað prósent skotnýtingu.

Strákarnir í Seinni bylgjunni ræddu frammistöðu Úkraínumannsins í leiknum en það er ekki mikið hægt að kvarta yfir átta mörkum úr átta skotum.

„Ihor Kopyshynskyi var með hundrað prósent skotnýtingu og átta mörk. Hann var bara geggjaður Robbi,“ sagði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar.

„Þetta hefur örugglega ekki verið auðvelt fyrir hann eins og ástandið er. Það var ekki að sjá í þessum leik og honum leið greinilega vel inn á vellinum. Þetta er bara klassaleikmaður,“ sagði Róbert Gunnarsson, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

„Fyrir þá sem vita það ekki þá er Ihor frá Úkraínu. Aðstæður eru erfiðar fyrir hann því aðstæður í Úkraínu eru hörmulegar. Ásgeir það lítur hafa verið erfitt að gíra sig upp í það að spila handboltaleik,“ sagði Stefán Árni.

Klippa: Seinni bylgjan: Frammistaða Ihor Kopyshynskyi í erfiðum aðstæðum

„Ég held að það sé mjög erfitt fyrir okkur að setja okkur inn í það hvað er búið að fara í gegnum hausinn á honum síðustu vikuna. Þetta er örugglega hræðilega erfitt og miklar tilfinningar og það kemur til með að halda þannig áfram,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

„Það gerist stundum þegar þú ert íþróttamaður að finnst þér að þetta bjargi þér aðeins. Þú getur í smá tíma farið að hugsa um eitthvað annað og gera eitthvað annað. Þú ert aftur orðinn Ihor handboltamaðurinn en ekki Úkraínumaðurinn sem ert í stríði. Ég ætla að setja þetta í það samhengi og mér finnst það mjög líklegt að það hafi gerst hjá honum,“ sagði Ásgeir Örn.

Stefán Árni sagði að Ihor Kopyshynskyi hafi ekki treyst sér í viðtal þegar óskað var eftir því.

Það má umfjöllunina um Ihor í Seinni bylgjunni hér fyrir ofan. Það fara sérfræðingarnir líka yfir kosti hans sem leikmanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×