Innherji

Vægi erlendra eigna stærstu sjóðanna nálgast óðum fjárfestingarþakið

Hörður Ægisson skrifar
Hlutfall erlendra eigna Lífeyrissjóðs verslunarmanna var tæplega 44 prósent af öllu eignasafni sjóðsins í lok september og hefur aldrei verið hærra.
Hlutfall erlendra eigna Lífeyrissjóðs verslunarmanna var tæplega 44 prósent af öllu eignasafni sjóðsins í lok september og hefur aldrei verið hærra. Foto: Hanna Andrésdóttir

Vægi erlendra eigna tveggja stærstu lífeyrissjóða landsins, sem eru með eignir upp á samanlagt um 2.500 milljarða króna í dag, hefur hækkað um meira en þriðjung frá því í ársbyrjun 2018. Færist það stöðugt nær lögbundnu 50 prósenta hámarki sem erlendar fjárfestingar sjóðanna mega vera sem hlutfall af heildareignum þeirra.

Stjórnvöld skoða nú breytingar á löggjöfinni um starfsemi lífeyrissjóða til að tryggja að þeir geti haldið áfram að fjárfesta utan landsteina eins og forsvarsmenn sjóðanna hafa kallað mjög eftir á undanförnum misserum.

Þannig námu erlendar eignir Lífeyrissjóðs verslunarmanna rúmlega 492 milljörðum króna í lok september í fyrra, sem er tæplega 44 prósent af öllum eignum sjóðsins, og hefur hlutfallið aldrei mælst hærra, en þetta má lesa út úr nýjum tölum frá fjármálaeftirliti Seðlabankans.

Vægi eigna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) í erlendum gjaldmiðlum hefur sömuleiðis hækkað hratt á allra síðustu árum og er komið nálægt 43 prósentum af heildareignasafni sjóðsins. Til samanburðar var það hins vegar rétt undir 30 prósentum fyrir aðeins fjórum árum síðan.

Í tilfelli Gildis, þriðja stærsta lífeyrissjóðs landsins með eignir upp á liðlega 900 milljarða króna, hefur ásókn sjóðsins í erlendar fjárfestingar verið minni en hjá LSR og LIVE en hlutfall erlendra eigna er tæplega 37 prósent og hefur lækkað lítillega á síðustu tólf mánuðum.

Innherji greindi frá því undir lok síðasta árs að Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, færi nú fyrir vinnu á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem miðar að því að greina hvaða leiðir séu helst færar til að rýmka heimildir íslensku lífeyrissjóðanna til fjárfestinga erlendis.

Þar kemur meðal annars til greina að hækka fjárfestingaþakið í áföngum – Landssamtök lífeyrissjóða hafa sagt nauðsynlegt að hækka það sem fyrst í 65 prósent – eða jafnvel að afnema það með öllu. Þá er einnig til skoðunar hvort gera eigi greinarmun á samsetningu erlendra eigna lífeyrissjóðanna eftir seljanleika þeirra, hvort um sé að ræða til dæmis hlutabréf eða skuldabréf, við ákvörðun um að mögulega rýmka fjárfestingarheimildir sjóðanna erlendis.

Í byrjun september á þessu ári skilaði Már af sér skýrslu fyrir Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra um stöðu lífeyrissjóða í hagkerfinu sem hópur þingmanna hafði óskað eftir að yrði unnin.

Í niðurstöðum skýrslunnar kom meðal annars fram að hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna þyrfti á komandi árum að verða á bilinu 40 til 50 prósent til að ná æskilegri áhættudreifingu og draga úr ruðningsáhrifum innlendra fjárfestinga sjóðanna. Þá sagði Már í skýrslunni að skoða þyrfti hvort gera ætti breytingar á hámarki gjaldmiðlaáhættu lífeyrissjóða þar sem núverandi 50 prósenta hámark virðist hamla erlendum fjárfestingum lífeyrissjóðanna áður en æskilegu hlutfalli erlendra eigna er náð. Ástæðan sé ótti lífeyrissjóða sem eru komnir tiltölulega nærri hámarkinu að lækkun á gengi krónunnar fleyti þeim yfir það á sama tíma og torvelt og kostnaðarsamt er hér á landi að fá gengisvarnir.

Ásgeir Jónsson, núverandi seðlabankastjóri, hefur áður sagst vera hlynntur því að hækka 50 prósenta þakið þegar aðstæður leyfa. Þjóðarbúið þurfi þó að skila meiri viðskiptaafgangi.

„Þegar ferðaþjónustan kemur til baka af fullum krafti þá verða lífeyrissjóðirnir hins vegar að fara auka við erlendar fjárfestingar í eignasöfnum sínum,“ útskýrði seðlabankastjóri í samtali við Innherja um miðjan nóvember.

Erlendar eignir lífeyrissjóða námu 2.299 milljörðum króna í lok nóvember. Hlutfallið af heildareignum allra lífeyrissjóða landsins nam 35,7 prósentum og hefur aldrei verið hærra.

Forsvarsmenn sumra af helstu lífeyrissjóðum landsins hafa á undanförnum mánuðum og misserum kallað eftir því að lögbundið hámark á erlendar fjárfestingar sjóðanna verði endurskoðað. Þakið sé orðið íþyngjandi fyrir lífeyrissjóðina sem hafa síaukna fjárfestingaþörf – hún er talin vera nettó um 300 milljarðar á ári – en takmarkað svigrúm til að ráðstafa fénu erlendis.

Ein leið til að gefa lífeyrissjóðunum aukið svigrúm til erlendra fjárfestinga á meðan þakið stendur óhaggað, eins og Innherji hefur áður fjallað um, er að sjóðirnir geri gjaldeyrisskiptasamninga við bankanna. Nýleg lög um gjaldeyrismál frá því í sumar heimila lífeyrissjóðum og öðrum að gera gjaldeyrisskiptasamninga við viðskiptabanka. Lífeyrissjóðirnir geta þannig keypt gjaldeyri til að fjárfesta erlendis en um leið selja þeir gjaldeyri framvirkt og hafa því hvorki áhrif á hlutfall erlendra eigna sinna né á gengi krónunnar. Auk þess fá sjóðirnir greiddan vaxtamun.

„Þeir eru í raun að lána bönkunum krónur en fá lánaðan gjaldeyri. Lífeyrissjóðir gætu svo gert upp samningana eftir eitt ár þegar ferðaþjónustan og aðrar útflutningsgreinar hafa væntanlega skapað nægan viðskiptaafgang til að styrkja krónuna eða einfaldlega framlengt samningana þar til betur stendur á,“ sagði Ragnar Björn Ragnarsson, gjaldeyrismiðlari í samtali við Innherja í síðasta mánuði.

Einu hömlurnar eru þær að heildarumfangið má ekki vera hærri upphæð en sem nemur 50 prósentum af eiginfjárgrunni bankans og hver mótaðili má ekki gera samningu um hærri fjárhæð en sem nemur 10 prósentum af eiginfjárgrunni. Fræðilega séð gæti hver sjóður því gert skiptasamninga upp á tugi milljarða króna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.