Innherji

Seðlabankinn beitir enn inngripum til að hægja á stöðugri hækkun krónunnar

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en markmiðið með gjaldeyrisinngripastefnu bankans er að draga úr skammtímasveiflum á gjaldeyrismarkaði.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en markmiðið með gjaldeyrisinngripastefnu bankans er að draga úr skammtímasveiflum á gjaldeyrismarkaði. Vísir/Vilhelm

Ekkert lát er á áframhaldandi gengisstyrkingu krónunnar, sem hefur hækkað um meðal annars meira en 3 prósent gagnvart evrunni frá áramótum, en Seðlabanki Íslands beitti gjaldeyrisinngripum fyrr í dag – í þriðja sinn á þessu ári – í því skyni að reyna að hægja á henni.

Samkvæmt viðmælendum Innherja á gjaldeyrismarkaði keypti Seðlabankinn gjaldeyri fyrir samtals 15 milljónir evra, jafnvirði tæplega 2,2 milljarða króna, til að vega á móti gengishækkuninni. Þegar mest var hafði gengi krónunnar styrkst um nálægt eitt prósent gagnvart evrunni þegar Seðlabankinn kippti henni til baka en við lokun markaða stóð gengið í 143 krónum og hækkaði um rúmlega 0,4 prósent í viðskiptum innan dagsins.

Gjaldeyriskaup Seðlabankans í dag eru þau mestu á einum degi frá því í júní í fyrra þegar bankinn keypti í nokkrum tilfellum talsvert af gjaldeyri á markaði í tengslum við innflæði fjármagns vegna kaupa erlendra fjárfestingarsjóða í hlutafjárútboði Íslandsbanka.

Þetta er í annað sinn sem bankinn beitir slíkum gjaldeyrisinngripum á aðeins örfáum dögum en á föstudaginn fyrir helgi keypti bankinn gjaldeyri fyrir 12 milljónir evra. Það sama gerði hann í byrjun ársins þegar bankinn lagðist gegn óhóflegri styrkingu krónunnar innan dags, að mati Seðlabankans, með því að kaupa gjaldeyri fyrir 9 milljónir evra. Gjaldeyriskaup bankans frá áramótum nema því samtals 36 milljónum evra, jafnvirði rúmlega 5 milljarða íslenskra króna. Þar áður hafði hann ekki beitt inngripum á gjaldeyrismarkaði – hvorki með kaupum eða sölu á gjaldeyri – í um þrjá mánuði.

Gengi krónunnar gagnvart evru hefur núna styrkst um nærri 8,5 prósent á undanförnum tólf mánuðum og hefur ekki verið sterkara frá því við upphaf faraldursins í mars 2020.

Markmiðið með gjaldeyrisinngripastefnu Seðlabankans er að leitast við að mýkja sveiflurnar á gengi krónunnar, hvort sem er vegna hækkunar eða lækkunar, bæði til skemmri og meðallangs tíma.

Allra augu beinast nú að næsta vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans, sem fer fram miðvikudaginn 9. febrúar næstkomandi, eftir að nýjar verðbólgutölur sem birtust í liðinni viku sýndu að tólf mánaða verðbólgan hefði hækkað úr 5,1 prósent í 5,7 prósent. Sú hækkun var þvert á spár allra greinenda en verðbólgan hefur ekki mælst meiri í áratug. Sterkara gengi krónunnar ætti að öðru óbreyttu að halda aftur af verðhækkunum á innfluttum vörum og þar með draga úr verðbólguþrýstingi.

Eftir síðustu verðbólgutölur vænta greinendur og fjárfestar þess að vextir Seðlabankans verði að lágmarki hækkaðir um 0,5 prósentur – jafnvel um allt að eina prósentu – en þeir standa nú í 2 prósentum.

Flestir greinendur eiga von á frekari gengisstyrkingu krónunnar á komandi misserum. Í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka, sem birtist fyrr í vikunni, var því spáð að krónan yrði um 3,5 prósentum sterkari í árslok 2022 en hún var í byrjun ársins. Á tímabilinu til ársins 2024 gerir bankinn ráð fyrir að styrkingin muni nema 8 til 9 prósentum. Þar komi til vaxandi viðskiptaafgangur, vextir Seðlabankans séu á uppleið, erlend staða þjóðarbúsins hefur aldrei verið sterkari og verðbréfaeign erlendra fjárfesta lítil í sögulegu samhengi.

Í viðtali við Morgunblaðið í dag benti Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica, á að þeir áhrifaþættir sem gætu verið að ýta undir styrkingu krónunnar að undanförnu væru meðal annars að framleiðendur loðnuafurða séu að selja gjaldeyri nú um stundir vegna væntinga um mikinn afla. Þá gætu fyrirtæki í ferðaþjónustu, sem eru að ná vopnum sínum á ný, verið að leitast við því að verjast væntinga um gengishækkun krónunnar með framvirkri sölu á gjaldeyri.

Könnun Seðlabankans á meðal markaðsaðila, sem var birt í dag, sýndi að þeir væntu þess að gengið myndi hækka á næstu misserum og að það verði 140 krónur gagnvart evrunni eftir eitt ár.

Gengishækkun krónunnar gerir Seðlabankanum auðveldara um vik að rækta meginhlutverk sitt, sem er að halda verðbólgunni í 2,5 prósenta markmiði, en á móti kemur er að ljóst að seðlabankstjóri horfir einnig til þess að ekki sé æskilegt að gengið hækki of skarpt á skömmum tíma. Það mun skerða samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna, einkum ferðaþjónustunnar á viðkvæmum tíma í endurreisn hennar, og eins gæti of mikil gengisstyrking skapað ójafnvægi í þjóðarbúskapnum með tilheyrandi þensluhvetjandi áhrifum á hagkerfið.

Frá því í ársbyrjun 2017, þegar gjaldeyrisinngripastefna Seðlabankans var endurskoðuð eftir stórfelld kaup á gjaldeyri árin á undan, hefur meginmarkmið stefnunnar verið að minnka snarpar skammtímasveiflur á gengi krónunnar.

Bankinn vill bregðast við óhóflegum sveiflum

Í viðtali við Innherja í nóvember í fyrra sagðist Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri aðspurður ekki „telja það ráðlegt“ að bankinn myndi reyna að styðja við gengi krónunnar í því skyni að vega upp á móti hækkun verðbólgu og verðbólguvæntingar. Benti hann á að Seðlabankinn vilji ekki vera gerandi á gjaldeyrismarkaði heldur frekar að bregðast við óhóflegum sveiflum hverju sinni.

Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam um 923 milljörðum króna í lok nóvember, eða sem jafngildir um 30 prósentum af landsframleiðslu.

Þegar faraldurinn stóð hvað hæst beitti Seðlabankinn umfangsmiklum gjaldeyrisinngripum, einkum í því skyni að draga úr tímabundnum þrýstingi á gengi krónunnar, en á síðasta ári námu þau samtals að jafnvirði um 72 milljörðum króna. Þar munaði mest um sölu á gjaldeyri fyrir tæplega 50 milljarða en sem hlutfall af heildarveltu á gjaldeyrismarkaði voru samanlögð inngrip bankans rúmlega 21 prósent borið saman við 37 prósent á árinu 2020.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Ekki útilokað að Seðlabankinn hækki vexti um 1 prósentu í einu vetfangi

Ekki er útilokað að Seðlabanki Íslands ákveði að hækka stýrivexti um 1 prósentu á næsta vaxtaákvörðunarfundi í febrúar. Verðbólgumælingin fyrir janúar var mikið frávik í sögulegu samhengi og undirliggjandi verðbólguþrýstingur er umtalsverður. Þetta segir Birgir Haraldsson, sjóðstjóri hjá Akta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×