Skoðun

Fas­ismi er tölu­vert verra fyrir­bæri en margir gera sér grein fyrir

Jóhann Frímann Arinbjarnarson skrifar

Langafi minn, Eugen Balmerth, fæddist þann 27. janúar árið 1889 í þorpinu Dorndiel í Hertogadæminu Hessen sem var eitt af þeim mörgu hertoga- og furstadæmum og konungsríkjum sem saman mynduðu Þýska Keisaraveldið. Eins og milljónir annarra þýskra manna þá svaraði hann kalli skyldunnar þegar Fyrri Heimstyrjöldin braust út í Evrópu. Sumarið 1916 var herfylkið sem hann var hluti af í miðri eldlínunni þegar orustan við ána Somme átti sér stað. Rúmlega ein milljón manna lét lífið eða örkumlaðist á þeim rúmlega tuttugu og einni viku sem orustan geysaði. Afi minn var einn af þeim mörgu sem særðust. Það var nánast kraftaverk að hann skyldi lifa af, þrátt fyrir að hafa fengið byssukúlu í höfuðið. Það tók Eugen mjög langan tíma að jafna sig og raunar jafnaði hann sig aldrei til fulls. Heilaskaðinn varð til þess að skap hans og persónuleiki tóku miklum breytingum auk þess sem að skelfilegar minningar um hörmungar stríðsins sóttu stöðugt að honum. En þrátt fyrir alla þessa erfiðleika tókst Eugen þó að jafna sig nægilega vel, bæði á sál og líkama, til þess að öðlast kennsluréttindi og síðan starfaði hann sem kennari um margra ára skeið.

Árið 1933 komst Adolf Hitler til valda í Þýskalandi og u.þ.b. einu og hálfu ári síðar var hann kominn með nærri því alræðisvöld yfir landinu og hans nýja hugmyndafræði hinn svokallaði Nationalsozialismus fór brátt að verða allsráðandi. Eitt af nokkrum undirliggjandi þemum þessarar hugmyndafræði er hetjudýrkun og almennt lof fyrir hernaðarmætti, hugrekki og fórnfýsi í nafni ríkisins og kynstofnsins. Flestir af meðlimum innsta hring Nasistaflokksins voru jú menn sem höfðu barist í þýska keisarahernum í Fyrri Heimstyrjöldinni. Maður myndi því ætla að maður á borð við langafa minn; Maður sem lifði af ótal hættur, maður sem var á staðnum þegar að Bretar byrjuðu fyrst að beita fyrir sig skriðdrekum, maður sem að nærri því fórnaði lífi sínu og fórnaði heilsu sinni fyrir Kaiser, Gott und Vaterland (þýð. Keisara, Guð og Fósturjörð), slíkur maður hefur væntanlega verið heiðraður og dáður af hinu nýja yfirvaldi. Var Eugen Balmerth ekki akkúrat maður af þeirri sort sem nasistarnir litu á sem einskonar módel fyrir hvernig hinn fullkomni þegn hins nýja ríkis ætti að vera? Já, maður myndi halda það...

Sú mynd sem dregin er upp af nasismanum og Þýskalandi í Síðari Heimstyrjöldinni í sögukennslu á grunn- og framhaldsskólastigi er að mörgu leiti ,,barnvænni útgáfa‘‘ af raunveruleikanum. Ákveði maður að kafa aðeins dýpra (sem ég mæli ekki endilega með) kemur það æ oftar í ljós að bæði hugmyndafræðin sjálf sem og þau mörgu myrkaverk sem framkvæmd voru í nafni þessarar hugmyndafræði eru allt í senn ógeðfeldari, siðblindari og grimmri en flesta getur órað fyrir.

Ég vil af gefnu tilefni taka fram að miðjupartur þessa pistils kann að fara mjög fyrir brjóstið á sumum lesendum.

Flestir kannast eflaust við Helförina. Helförin er íslenska heitið á kerfisbundum útrýmingum gyðinga í Evrópu af hendi nasista og bandamanna þeirra. Ekki kannast þó jafn margir við hin ótal mörgu önnur þjóðarmorð og hreinsanir sem nasistar stóðu að. Ekki fóru heldur allir gyðingar beina leið í útrýmingarbúðir. Þó að lokamarkmiðið, sem þeir kölluðu Endlösung (þýð. Endanleg lausn), hafi verið að öllum gyðingum Evrópu (og helst í heiminum) skyldi útrýmt þá stóðu nasistarnir frammi fyrir stórum vanda. Vandinn sá var að þeir voru að há styrjöld á mörgum vígstöðvum sem að kostaði gríðarlegt mannafl. Því voru gyðingar og aðrir óvinir ríkisins notaðir sem þrælar í allskyns störfum, aðallega í landbúnaði og framleiðslu, til þess að létta undir hjá þýska efnahaginum. Milljónir manna létust úr vosbúð í þrælavinnu nasismans og var það ekki vegna kæruleysis nasista. Heldur töldu þeir sig hafa reiknað út að ef viss prósenta allra þeirra sem þeir ætluðu að útrýma myndu deyja úr vosbúð í þrælavinnu myndi það minnka álagið á gasklefunum. Og til að auka skilvirkni alls kerfisins var best að blóðmjólka úr föngunum eins mikla vinnu og hægt var áður en þeir deyðu. Vinnan sem fangarnir gerðu gat t.a.m. gert það að verkum að einhver þjóðverjinn gæti farið og synnt öðrum þarfari störfum í staðinn, eins og til dæmis að vera í hernum. Þrælavinnan hafði einnig þann tilgang að erfiðara var fyrir fangana að skipuleggja andóf eða uppreisnir, vegna þess að sveltandi, örþreyttir og umfram allt, uppteknir fangar eru í lélegri aðstöðu til þess að skipuleggja slíkt.

Og fyrir utan þrælkunarvinnu og útrýmingarbúðir voru einnig milljónir af fólki af austur-evrópskum þjóðum miskunnarlaust drepið með allskyns ,,hefðbundari‘‘ aðferðum. Í þúsundum smábæja og þorpa var öllum íbúum smalað saman á einn stað þar sem þeir voru svo allir myrtir áður en eða á meðan þorpið var brennt til kaldra kola. Þessum fjöldamorðum fylgdu líka oft hópnauðganir og pyntingar. Og grimmd nasistanna gegn fórnarlömbum sínum lauk ekki eftir dauðann. Þrátt fyrir að allar eigur gyðinga í útrýmingarbúðum hefðu verið gerðar upptækar þá voru þeir samt enn með örfáa hluti í fórum sínum sem nasistarnir höfðu not fyrir. Skór dauðu fanganna voru endurunnir og gullfyllingar úr tönnum voru fjarðlægðar og bræddar aftur í nothæft form.

Þjóðarmorð nasistanna á íbúum Austur Evrópu sem og Helförin var þó aðeins fyrsti liðurinn í enn stærra og meira hrollvekjandi verkefni. Langtímaverkefni nasismans átti að vera að tæma nærri alla fyrrum íbúa álfunnar allt frá Varsjár til Moskvu og síðan var ætlunin að nýjar kynslóðir Þjóðverja myndu byggja þetta mikla landsvæði upp að nýju og skapa þar nýjar byggðir og samfélög undir lögsögu Þýskalands. Þetta voru kannski óraunhæfir draumar en hefðu þó ekki verið einsdæmi í mannkynssögunni. T.d. var Adolf Hitler mikill aðdáandi þess hvernig hvítu, ensk-ættuðu Bandaríkjamennirnir dreyfðu úr sér yfir allt meiginlandið á meðan indíánarnir færðust á sí minnkandi vermdarsvæði.

Samkvæmt hugmyndafræði nasismans mátti einfalda nærri alla mannkynssöguna í endalaust dauðastríð hins mikla ,,Aríska-kynstofns‘‘ við ,,hinna óverðugu kynstofna‘‘ þar sem gyðingar áttu að vera í fararbroddi hinna óverðugu. Og átti þessi útþensla þýska-aría-kynstofnsins út í hin mannlausu landsvæði Austur Evrópu að verða einskonar lokakafli í þessari sögu, eða í það minnsta nýtt upphaf. Það má segja að nasismi sé á vissan hátt jafn mikið trúarbragð og pólitísk kenning. Sumir nasistar gengu svo langt í sinni trú að þeir héldu að uppruna Aríska-kynstofnsins mætti rekja til goðsagnaborgarinnar Atlantis. Og að gyðingar væru ábyrgir fyrir því að borgin hafi sokkið í sjóinn. – Þetta kallast á góðri íslensku; hreinasta sturlun.

En þrátt fyrir þessar mjög svo brengluðu hugmyndir nasismans um kynstofna og sögu heimsins þá kom á daginn að nasistarnir framfylgdu oft ekki sinni eigin hugmyndafræði. Nasistar litu svo á að Norðurlandaþjóðirnar sem og Hollendingar og væru verðugir aríar sem myndu svo erfa gyðingafría veröld við hlið þeirra sjálfra eftir að sigur væri í höfn. En þrátt fyrir að látast hafa svo hátt álit á þessum nágrannaþjóðum sínum þá kom það ekki í veg fyrir að þjóðverjar gerðu innrásir í Danmörku, Noreg og Holland þar sem þeir tröðkuðu svo á menningu og þjóðvitund þessara landa.

Á meðan að stríðinu stóð gengu nokkur ríki og þjóðir í bandalag með þjóðverjum og þá aðallega til þess geta kveðið niður ógnina sem þeim fannst stafa af kommúnismanum í Rússlandi. Og þjóðverjar enduðu á að svíkja nærri allar þessar þjóðir. Svo fór að Rússarnir byrjuðu að hafa betur í styrjöldinni og þá fóru þessi lönd að óttast um eigin framtíð. Ungverjaland reyndi að semja frið við Sovíetmenn sem varð til þess að nasistarnir rændu ríkistjóra landsins, Miklós Horthy, og færðu son hans í fangabúðir. Síðan gerðu þeir innrás í þetta fyrrum bandalagsríki sitt og tóku við stjórn landsins til þess að Ungverjarnir myndu halda áfram baráttunni í stríði sem að nú var farið að teljast gersamlega tapað. Svipuð voru örlög Ítalíu. Söm hefðu orðið örlög Finnlands, Rúmeníu og Búlgaríu nema hjá þessum löndum varð fjarðlægðin frá Þýskalandi til þess að þeim tókst að losa sig úr klóm nasismans án þess að verða innlimuð eins og Ungverjaland og Norður Ítalía. Rúmenía og Búlgaría féllu svo reyndar í hendur kommúnista en það er önnur saga.

Og ekki sýndu nasistar sínu eigin fólki mikla miskun. Oft hefur verið fjallað um hvernig þjóðverjar einfaldlega sátu hjá og létu þessi voðaverk gerast. Og er það í sjálfu sér satt en það er einnig mikil einföldun. Margir reyndu að stöðva nasismann í fæðingu bæði friðsamlega og með hörku og svo eftir valdaránið héldu margir áfram að reyna með einhversskonar leyndarstarfsemi. En örlög flestra sem reyndu urðu sú að þeir voru upprættir með ofbeldi og valdi svo að fáir stóðu eftir sem þorðu.

Og svo voru allir þeir þjóðverjar sem nasismanum þótti að væri ekki verðugur til þess að erfa þetta framtíðarríki hreina Aría-kynstofnsins. Áhrif kaþólsku kirkjunnar voru bæld niður af mikilli hörku. Samkynhneigðir, vinstri-fólk, afmarkaðir trúarhópar eins og t.d. vottar jehóva voru látnir hverfa og drepnir miskunarlaust. Og það sama átti við um fólk með geðraskanir. Og þeirra á meðal var langafi minn, Eugen Balmerth. Maðurinn sem hafði óhikað fórnað sér fyrir landið sitt í seinasta stríði glýmdi alla tíð við andlegar afleiðingar þess. Og um haustið 1943, þegar honum bárust þær fréttir að sonur hans, Hans Balmerth, hafi fallið í austurhluta Úkraínu fór geðheilsu hans mjög hrakandi. Nasistar flokkuðu fólk eins og Eugen sem unwūrdig des Lebens (þýð. óverðug/ur til lífs). Hann var færður á geðveikrarhæli þaðan sem hann átti aldrei afturkvæmt. Andlega veikt fólk var svæft, svipað og gert er við gömul gæludýr.

Ástæða þess að ég ákvað að skrifa þennan pistil er aðallega sú að þann 16. febrúar síðastliðin birti kollegi minn Bragi Páll Sigurðarson pistil sem bar titilinn Fasistar í fínum jakkafötum. Niðurhal þeirrar greinar er að Bjarni Benediktsson núverandi fjármálaráðherra sé fasisti. Á það að vera vegna nálgunar hans á núyfirstandandi lögreglurannsókn er varðar blaðamenn sem fjallað hafa um málefni Samherja. Þvert á það sem almenn skynsemi myndi ætla þá fannst meira en tvö þúsund manns að þessi pistill hans hafa nægilegt sannleiksgildi til þess að gefa henni “Like‘‘. Nú ætla ég ekki að halda því fram að hegðun Bjarna eða Samherja í þessum málum sé eitthvað til fyrirmyndar. Og persónulega hef ég ekkert á móti því að að menn eða fyrirbæri séu borin saman við fasista. Fasistar eru jú fullkomin mælistika. Þeir eru frábær holdgerfingur alls sem er yfirgengilegt, siðblint og úrkynjað. En það er ekki það sama að bera einhvern saman við fasista og að hreint út segja að einhver sé fasisti.

Mér þykir pistill Braga bera þess greinileg merki að hinn staki viðbjóður sem er hin fasíska hugmyndarfræði er nú orðin svo fjarðlæg okkur sem lifum í dag að fólk er farið að gleyma nákvæmlega hversu hræðileg hún var. Eða hversu hræðilegar birtingarmyndir þessarar hugmyndafræði eru þegar henni er hrint í framkvæmd. Og fyrir hönd okkar, hins íslenska hluta Kloes-fjölskyldunnar, þá gerir þetta viðhorf, að bera saman lýðræðiskjörna en kannski spillta stjórnmálamenn við fasista í raun lítið úr fórnarlömbum fasisma. Satt best að segja þá þótti mér þessi grein bara frekar móðgandi. Og þar fyrir utan er það að halda því fram að Bjarni Benediktsson sé fasisti bara hreinlega rangt. Enda þurfti Bragi að endurskrifa skilgreininguna á því hvað fasisti er til þess að geta fært rök fyrir máli sínu. Allir fasistar ritskoða fjölmiðla, en ekki eru allir sem ritskoða fjölmiðla endilega fasistar. Og ef maður ætlar að kalla meinta spillirafta nöfnum sem þeir eru ekki, af hverju þá endilega fasista, hví ekki að finna eitthvað aðeins kreatískara? Af hverju ekki bara að segja að Bjarni sé Djöfullinn í mannslíki? Eða Stalín endurfæddur? Eða innblásturinn að Glanna Glæp? En ég persónulega held að ástæða þess að menn eru ekki að skrifa greinar um hvernig Bjarni sé í rauninni Lúsífer er vegna þess að ekki svo margir trúi mjög sterklega á að Lúsífer sé til en í staðinn trúa þau því sterklega að einhver sem þau treysta ekki hljóti að vera fasisti. Því það er náttúruleg skynsemi að treysta ekki og hata einhvern sem er greinilega fasisti. Og þessvegna snúa sumir þessu á haus með því að halda því fram hver sá þau treysta ekki og hata sé því fasisti.

Höfundur er rithöfundur og Framsóknarmaður á Akureyri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×