Innherji

Allar líkur á mögnuðu ári í sjávarútveginum

Hörður Ægisson skrifar
Víkingur, lonuskip Brims, við höfnina í Reykjavík en markaðsvirði sjávarútvegsfyrirtækisins hefur hækkað um rúmlega 40 milljarða króna eftir að loðnan kom aftur í meira magni en hefur sést áratugum saman.
Víkingur, lonuskip Brims, við höfnina í Reykjavík en markaðsvirði sjávarútvegsfyrirtækisins hefur hækkað um rúmlega 40 milljarða króna eftir að loðnan kom aftur í meira magni en hefur sést áratugum saman. Arnar Halldórsson

Hærri verð, áður vanmetin loðnuúthlutun og örlítið hagstæðari kostnaðarhlutföll eru helstu ástæður þess að greinendafyrirtækið Jakobsson Capital hefur hækkað verðmat sitt á Brim um 17 prósent, eða úr 704 milljónum evra í 825 milljónir evra, jafnvirði um 122 milljarða íslenskra króna.

Verðmatsgengið, sem er nú 63,6 krónur á hlut að nafnvirði, er hins vegar um 16 prósentum lægra en markaðsgengið sem við opnun markaða í dag stóð í 74 krónum á hlut.

Í nýju verðmati Jakobsson á Brim, sem var gefið út 6. janúar síðastliðinn, kemur fram að markaðsvirði Brims hafi hækkað um rúmlega 40 milljarða króna í kjölfar þess að loðnan kom aftur í meira magni en hefur sést áratugum saman. Sumar áætlanir hafa gert ráð fyrir auknum útflutningsverðmætum upp á liðlega 70 milljarða eða ígildi um 300 þúsund ferðmanna.

Greinandi Jakobsson bendir á að hlutur Brims sé um 18 prósent af þessum 70 milljörðum, eða um 12,6 milljarðar. „Það er þó engin vissa um þá fjárhæð. Hverjar endanlegar tekjur verða ræðst af því hversu mikið fer í frystingu og hversu mikið í bræðslu. Hver svo sem niðurstaðan verður, þá eru allar líkur á mögnuðu ári í sjávarútveginum og kominn tími til að gera kerin klár,“ segir í verðmatinu.

Rekstrarhagnaður (EBIT) Brims jókst verulega á fyrstu níu mánuðum síðasta árs og nam 56,1 milljón evra borið saman við 27,2 milljónir evra á sama tímabili 2020. Þá jukust tekjur félagsins um 36 prósent á milli ára og voru samtals um 292 milljónir evra.

Mest var tekjuaukningin hjá sölufélögum í Asíu, eða 56 prósent. Framlegð þar sé hins vegar afskaplega lág og var framlegð örlítið lægri þrátt fyrir gríðarlega söluaukningu. Tekjuaukningin hér skiptir því ekki máli fyrir afkomu félagsins. Það var kröftugur tekjuvöxtur, bæði á uppsjávar- og botnfisksviði.

Í endurskoðaðri rekstraráætlun Jakobsson er gert ráð fyrir hærri tekjum og betra framlegðarhlutfalli. Rekstrarhagnaður hækki um 10 milljónir evra og verði 69,1 milljón evra fyrir árið 2021 ef litið er framhjá sölunni af skipinu Höfrungi III upp á 3 milljónir evra.

„Hér vegur mjög þungt að loðnuveiðar byrjuðu lítillega fyrr en ráð var fyrir gert. Tekjur og rekstrarhagnaður vegna risa loðnuúthlutunar mun því færast aðeins yfir á fjórða ársfjórðung 2021. Það er gert ráð fyrir að loðnan komi inn af fullum þunga árið 2022 og að framlegð fari úr um 87,6 milljónum evra árið 2021 upp í 111,1 milljónir evra. Aukin framlegð útskýrist nánast að öllu leyti af loðnuúthlutun en að framlegð botnfisksviðs verði að mestu óbreytt. Hærra verð mun koma á móti minni afla og hærra olíuverði,“ segir í verðmatinu.

Jakobsson spáir því að rekstrarhagnaður Brims hækki í tæplega 90 milljónir evra á þessu ári sem er um tvöfalt betri afkoma en að meðaltali síðustu tvö ár.

Til lengri tíma er hins vegar áætlað að loðnuveiðinn verði ekkert í líkingu við þá sem nú er að hefjast og er um þriðjungur af stærð verðtíðarinnar hjá Brim. Spáir Jakobsson því að hærra hlutfall fari í bræðslu og að framlegð og tekjur lækki á árinu 2023 enda þótt þorskstofninn taki aftur við sér. Rekstrarhagnaður verði því á bilinu 67,5 til 72 milljónir evra á árunum 2023 til 2025.

„Það geta flestir verið sammála um að næstu 12 mánuðir verða líklega magnaðir í sjávarútvegi. Sjóðsstreymi mun verða feyki sterkt. Markaðurinn er almennt frekar „skammsýnn". Ólíklegt er að met loðnuveiði verði á hverju ári. Ef Jakobsson Capital gerði ráð fyrir því væri gengi Brims líklega lágt á markaði. Það er gert ráð fyrir einu mögnuðu ári í rekstri en að hversdagsleikin taki svo við,“ segir í verðmatinu.

Hlutabréfaverð Brims hefur hækkað um meira en 40 prósent á undanförnum tólf mánuðum og er markaðsvirði félagsins í dag um 145 milljarðar króna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.