Innherji

Fjármálaráðherra gefur grænt ljós á frekari sölu á Íslandsbanka

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Búist er við að salan verði frágengin fyrir lok árs 2023.
Búist er við að salan verði frágengin fyrir lok árs 2023. Vísir/Vilhelm

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur fallist á tillögu Bankasýslu ríkisins um að stofnunin hefji undirbúning hið fyrsta að framhaldi á sölumeðferð á eftirstandandi 65 prósenta eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka innan næstu tveggja ára, háð því að markaðsaðstæður séu hagfelldar.

Í tilkynningu frá ráðneytinu kemur fram að það hafi óskað eftir umsögnum frá fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Jafnframt hefur verið óskað eftir formlegri umsögn frá Seðlabanka Íslands um jafnræði bjóðenda, líkleg áhrif sölu á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða og laust fé í umferð.

Bankasýsla ríkisins horfir til þess að selja eignarhluti ríkisins með blöndu af tveimur þekktum markaðsaðferðum, þ.e. tilboðsfyrirkomulagi og miðlunaráætlun. Sú fyrri felst í útboði til hæfra fjárfesta, en sú síðari í því að verðbréfafyrirtæki fái fyrirmæli um að selja ákveðinn hluta fjölda hluta yfir visst tímabil, háð framboði og eftirspurn hverju sinni. Áætlað er að salan verði í nokkrum áföngum yfir allt að tveggja ára tímabil.

Ríkissjóður fékk 55 milljarða króna þegar hann seldi 35 prósenta hlut í hlutfjárútboði Íslandsbanka í fyrra en síðan þá hefur gengi bankans í Kauphöllinni hækkað verulega. 

Miðað við núverandi markaðsgengi, sem er um 60 prósentum hærra en útboðsgengið var í júlí í fyrra, má ætla að ríkissjóður geti fengið allt að 160 milljarða króna fyrir eftirstandandi eignarhlut.

Haft var eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, í morgun að tillaga Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra um að skylda viðskiptabankana til að verja hluta af hagnaði sínum í að niðurgreiða vexti væri til þess fallin að lækka verðmiðann á Íslandsbanka þegar ríkið selur eignarhlutinn sem eftir stendur.

Viðskiptaráðherra sagði að bankarnir ættu, í ljósi mikils hagnaðar, að létta undir með heimilum og fyrirtækjum sem horfa fram á hærri vaxtabyrði vegna vaxtahækkana Seðlabankans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×