Innherji

Lífeyrissjóðir hafa bætt 6 prósentum við hlut sinn í Íslandsbanka

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ríkissjóður áformar að selja restina af Íslandsbanka fyrir lok árs 2023.
Ríkissjóður áformar að selja restina af Íslandsbanka fyrir lok árs 2023.

Lífeyrissjóðir hafa bætt töluvert við hlut sinn í Íslandsbanka frá hlutafjárútboði bankans í júní á síðasta ári en á sama tíma hefur hlutdeild erlendra fjárfesta í bankanum minnkað. Þetta má lesa úr skýrslu fjármálaráðherra um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka, sem var lögð fyrir Alþingi.

Eftir hlutafjárútboðið nam samanlagður eignarhlutur lífeyrissjóða 9,4 prósentum en samkvæmt hluthafalista bankans í byrjun þessa árs, að því er kemur fram í skýrslunni, héldu sjóðirnir á alls 15,3 prósenta hlut. Sjóðirnir hafa því bætt við sig rétt tæplega 6 prósenta hlut.

Íslandsbanki heldur úti opinberum lista yfir hluthafa sem fara með meira en 1 prósents hlut í bankanum. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) er stærsti lífeyrissjóðurinn í hluthafahópi Íslandsbanka með rétt rúmlega 4 prósenta hlut. Hann er jafnframt þriðji stærsti hluthafi bankans á eftir ríkissjóði og Capital Group. Þá eiga Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Gildi lífeyrissjóður töluverðan hlut; sá fyrrnefndi 3,7 prósent og sá síðarnefndi 3,2 prósent, og Stapi á um 1 prósent.

Samanlagt eiga þessir fjórir sjóðir 12 prósenta hlut og hafa þeir bætt við sig 5,8 prósentum frá útboðinu.

Í útboðinu nam úthlutun til erlendra fjárfesta um 10,5 prósentum af heildarhlutafé Íslandsbanka en samkvæmt hluthafalista bankans frá því í byrjun þessa árs nemur hlutur þeirra 7,4 prósentum. Hefur hann því minnkað um 3,1 prósent. Í skýrslu ráðherra er hins vegar bent á að hlutur erlendra langtímafjárfesta (e. long only investors) hafi haldist nokkuð stöðugur. Um áramótin hafði hann minnkað úr 7,4 prósentum niður í 7 prósent.

Fjármálaráðherra hefur fallist á tillögu Bankasýslu ríkisins um að stofnunin hefji undirbúning hið fyrsta að framhaldi á sölumeðferð á eftirstandandi 65 prósenta eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka innan næstu tveggja ára, háð því að markaðsaðstæður séu hagfelldar.

Bankasýsla ríkisins horfir til þess að selja eignarhluti ríkisins með blöndu af tveimur þekktum markaðsaðferðum, þ.e. tilboðsfyrirkomulagi og miðlunaráætlun. Sú fyrri felst í útboði til hæfra fjárfesta, en sú síðari í því að verðbréfafyrirtæki fái fyrirmæli um að selja ákveðinn hluta fjölda hluta yfir visst tímabil, háð framboði og eftirspurn hverju sinni. Áætlað er að salan verði í nokkrum áföngum yfir allt að tveggja ára tímabil.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.