Innherji

Fækkun í hópi þeirra sem þurfa sértæk úrræði hjá Landsbankanum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Viðskiptabankarnir hafa nýlega hækkað vexti í takt við stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands. 
Viðskiptabankarnir hafa nýlega hækkað vexti í takt við stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands.  Vísir/Vilhelm

Á síðustu tveimur árum hefur fækkað í hópi þeirra einstaklinga sem hafa fengið sérstök úrræði hjá Landsbankanum vegna greiðsluerfiðleika. Almennt er fjöldi slíkra mála hjá viðskiptabönkunum þremur lágur í sögulegu samhengi. 

Innherji sendi fyrirspurn á viðskiptabankana þrjá þar sem óskað var eftir upplýsingum um fjölda einstaklinga sem hafa fengið sérstök úrræði vegna greiðsluerfiðleika. Einungis Landsbankinn sá sér fært að útvega tölurnar.

Árið 2019 var fjöldi einstaklinga með greiðsluúrræði hjá Landsbankanum 53, þeim fækkaði niður í 49 á árinu 2020 og svo aftur niður í 44 á síðasta ári.

Íslandsbanki veitti ekki tölur um fjölda mála en í afkomukynningu bankans fyrir árið 2021 má finna upplýsingar um svokallaða umlíðun í lánasafninu en það eru lán sem eru í greiðsluhléi. Í lok síðasta árs nam umlíðun einstaklingslána 8 milljörðum króna samanborið við 6 milljarða króna í lok árs 2021 og 3 milljarða í lok árs 2019.

Þessar tölur gefa þó ekki rétta mynd af stöðunni eins og hún er í dag. Samkvæmt lögum þurfa að líða 24 mánuðir frá því að venjulegt greiðsluferli lántaka hefst að nýju og þangað til bankinn má taka lánið úr flokkinum umlíðun. Lán einstaklinga, sem sóttu um greiðsluhlé um mitt ár 2020 en hófu aftur greiðsluferli nokkrum mánuðum síðar, falla þannig undir umlíðun þangað til á síðari hluta árs 2022.

Íslandsbanki birti einnig tölur um greiðslur inn á lán sem eru flokkuð undir umlíðun. Þær sýna að á fjórða ársfjórðungi 2021 hafði verið greitt inn á nær öll einstaklingslán sem féllu undir þann flokk.

Ekki fengust tölur frá Arion banka en eftir því sem Innherji kemst næst er fjöldi einstaklinga með sértæk greiðsluúrræði hjá bankanum mjög lágur í sögulegu samhengi.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í viðtali Innherja í febrúar að staða heimilanna hefði aldrei verið betri „Það eru þess vegna algjör öfugmæli að tala um eitthvað neyðarástand sem þurfi bregðast við,“ Ásgeir eftir ákvörðun Seðlabankans um að hækka vexti úr 2 prósentum upp í 2,75 prósent.

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt til að stjórnvöld komi með mótvægisaðgerðir til að milda höggið sem almenningur verði fyrir vegna hækkandi verðbólgu og vaxtahækkana og að skoða eigi þar meðal annars beinan fjárhagsstuðning vegna hærri húsnæðiskostnaðar.

Þá hefur Lilja Alfreðsdóttir viðskiptamálaráðherra talað fyrir því að bankarnir noti „ofurhagnað“ sinn til að lækka vexti á lánum til heimila og fyrirtækja. Eigi bankarnir ekki frumkvæði að því sjálfir gæti þurft að „endurvekja bankaskatt“, að sögn Lilju.


Tengdar fréttir

Að blekkja gegn betri vitund

Viðskiptaráðherra væri nær að huga að því að bæta samkeppnisstöðu íslensks fjármálakerfis, sem gæti skilað sér í minnkandi vaxtamun, í stað þess að boða aðgerðir sem allt í þrennt leiða til verri lánakjara, rýra virði eignarhluta ríkisins í bönkunum og vinna gegn peningastefnunni á verðbólgutímum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×