Innherji

Seðlabankastjóri segir „algjör öfugmæli að tala um neyðarástand“

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að mögulega megi gagnrýna bankann fyrir að hafa ekki að byrjað að hækka vexti hraðar þegar hagkerfið var farið að taka við sér.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að mögulega megi gagnrýna bankann fyrir að hafa ekki að byrjað að hækka vexti hraðar þegar hagkerfið var farið að taka við sér. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

„Það þýðir ekki að tala um mikilvægi þess að ná niður verðbólgunni í einu orðinu en í því hinu að boða aðgerðir sem búa til brennsluefni fyrir hana með því að auka neysluna,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í viðtali við Innherja.

Á vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans í morgun var tilkynnt um ákvörðun peningastefnunefndarinnar að hækka vexti um 0,75 prósentur – úr 2 prósentum í 2,75 prósent – en verðbólguhorfur hafa versnað töluvert frá síðasta fundi nefndarinnar í nóvember og mælist tólf mánaða verðbólgan 5,7 prósent. Samkvæmt nýrri spá Seðlabankans eru horfur á að verðbólgan verði 5,8 prósent á fyrsta fjórðungi ársins og yfir 5 prósent fram eftir þessu ári. Verðbólgan mun ekki nálgast 2,5 prósenta markmið bankans fyrr en í upphafi árs 2025.

„Þessi verðbólga sem við sjáum núna, sem er að reynast meiri og þrálátari en spár gerðu ráð fyrir, verður ekki leyst nema með því að draga úr eftirspurn í hagkerfinu,“ útskýrir Ásgeir, og bætir við:

„Ef ríkissjóður ætlar að fara henda sprekum á bálið þá væri það aðeins örugg leið til að ýta undir enn hærri verðbólgu og hækkandi vexti sem myndi vinna gegn því sem Seðlabankinn er að reyna gera til að tryggja verðstöðugleika,“ að sögn Ásgeirs.

Hann gagnrýnir þar tillögur, sem þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt til, um að stjórnvöld komi með mótvægisaðgerðir til að milda höggið sem almenningur verði fyrir vegna hækkandi verðbólgu og vaxtahækkana og að skoða eigi þar meðal annars beinan fjárhagsstuðning vegna hærri húsnæðiskostnaðar.

Seðlabankastjóri bendir á að það sé „gríðarlega mikill kaupmáttur í kerfinu og staða heimilanna hafi aldrei verið betri. Það eru þess vegna algjör öfugmæli að tala um eitthvað neyðarástand sem þurfi bregðast við,“ að sögn Ásgeirs.

Hann segir að bankinn hafi ekki farið of bratt í vaxtalækkunarferlið í upphafi faraldursins þegar vextir fóru niður í 0,75 prósent – markmiðið hafi verið að örva einkaneysluna og verja kaupmátt heimilanna þegar stærsti útflutningsatvinnuvegurinn þurrkaðist út – en segir að mögulega megi gagnrýna bankann fyrir að hafa ekki að byrjað að hækka vexti hraðar þegar hagkerfið var farið að taka við sér.

Ef ríkissjóður ætlar að fara henda sprekum á bálið þá væri það aðeins örugg leið til að ýta undir enn hærri verðbólgu og hækkandi vexti.

„Við byrjuðum vaxtahækkunarferlið um vorið á síðasta ári en kannski hefðum við átt að fara fyrr af stað og hækka vextina meira,“ segir Ásgeir.

Aðspurður hvort peningastefnunefndin hafi rætt um að hækka vexti enn meira í þetta sinn segir seðlabankastjóri að 75 punkta hækkun sé „ágætis herðing á aðhaldsstiginu“ en síðan muni koma í ljós hvaða áhrif hún hafi og hvort það takist að ná tökum á íbúðamarkaðnum sem hefur einkum drifið áfram verðbólguna. Horft fram á við sé það vinnumarkaðurinn sem er „aðalmálið,“ að sögn Ásgeirs, enda sé það launakostnaðurinn sem skipti mestu fyrir verðbólguhorfurnar til lengri tíma litið.

Verðbólguvæntingar til skamms og millilangs tíma hafa hækkað á flesta mælikvarða og eru á bilinu 3-4%.

„Þarf að gera meira en bara tala“

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru lausir síðar á árinu. Eru skilaboð þín til samtaka atvinnurekenda og launafólks að ekki verði samið um miklar launahækkanir við þessar aðstæður?

„Það verða þá að vera launahækkanir sem eru byggðar á skynsamlegum væntingum um aukna framleiðni í atvinnulífinu. Öll hækkun raunlauna byggir á því að það séu um leið að skapast meiri verðmæti í hagkerfinu sem eru til skiptanna. Það væri óskandi ef aðilum vinnumarkaðarins myndi farnast að leggja áherslu á aðra þætti en beina hækkun launa í kjarasamningunum enda er margt annað sem snertir lífskjör fólks, eins og meðal annars aðgerðir sem snúa að fasteignamarkaðnum. Þar verður að horfa til ráðstafana til að laga framboðshliðina en ekki á eftirspurnarhliðinni sem myndi koma sér afar illa og auka enn á verðbólguna,“ segir Ásgeir.

Þær hugmyndir eru í stíl við það sem við höfum séð í Tyrklandi með tilburðum Recep Erdogans.

Sumir hafa viðrað áhyggjur sínar af þróun efnahagsmála, meðal annars forystufólk verkalýðshreyfingarinnar, með vísan til stöðunnar á húsnæðismarkaði og hækkandi vaxta og rætt um að það kunni að skapast neyðarástand vegna þessa. Ertu ekki sammála því mati?

„Alls ekki og ég get ekki séð hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu. Þrátt fyrir allt hafa laun hækkað meira en verðlag á undanförnum 12 mánuðum og síðan á eftir að greiða út hinn svonefnda hagvaxtarauka á árinu. Allir sem keyptu fasteignir eru með neikvæða raunvexti á lánunum sínum og eins hafa þeir hafa fengið verulega hækkun fasteignaverðs ofan á allt annað sem hefur bætt eiginfjárstöðu margra. 

Ég myndi frekar hafa áhyggjur af því fólki sem hefur ekki komist inn á fasteignamarkaðinn. Núna þegar við erum í reynd að takmarka möguleika fólks á því að kaupa fasteignir, með því að hækka vexti, er hætta á því að það sprengi um leið leigumarkaðinn og við munum sjá ungt fólk lenda í erfiðleikum með að standa undir hækkandi leiguverði. Þetta eru þættir sem þarf að huga að,“ að sögn Ásgeirs.

Samtök launafólks, meðal annars ASÍ, hafa hvatt Seðlabankann til að fara sér hægt í vaxtahækkanir og formaður VR viðraði eins þá hugmynd nýlega hvort setja ætti þak á vaxtahækkanir bankans. Hvað finnst þér um slíkar tillögur?

„Þær hugmyndir eru í stíl við það sem við höfum séð í Tyrklandi með tilburðum Recep Erdogans,“ svarar Ásgeir, og vísar þar til Tyrklandsforseta sem hefur fyrirskipað seðlabankanum þar í landi að lækka vexti þrátt fyrir að verðbólgan mælist yfir 30 prósent og gengi tyrknesku lírunnar hefur verið í frjálsi falli. Hefur hann rekið þrjá seðlabankastjóra á jafn mörgum þar sem þeir vildu ekki hlýða fyrirskipunum hans um að lækka vexti.

„Við viljum gjarnan koma til móts við verkalýðshreyfinguna og halda aftur af okkur í vaxtahækkunum eins og við getum,“ útskýrir Ásgeir, „en þá verður það sama fólk að gera meira en bara tala og sýna þess í stað það getur gert kjarasamninga sem eru í samræmi við verðstöðugleika. Baráttan við að ná niður verðbólgunni er samvinnuverkefni.“

„Ósmekklegt“ að boða verðhækkanir í fjölmiðlum

Á kynningarfundi bankans í morgun beindi Ásgeir orðum sínum að þeim fyrirtækjum, einkum heildsölum, sem hafa sagt að vegna mikilla verðhækkana frá erlendum birgjum sé óumflýjanlegt að þær hækkanir muni seytla inn í smásöluverð á komandi mánuðum. Að mati seðlabankastjóri væri „ósmekklegt“ að boða slíkar verðhækkanir í gegnum fjölmiðla.

Spurður um þau ummæli minnir seðlabankastjóri á að það hafi alltaf verið sagt að ekkert „samráð væri á milli fyrirtækja í reykfylltum herbergjum en núna erum við mögulega að sjá það gert fyrir opnum tjöldum í fjölmiðlum. Mér þykir það ekki smekklegt. Ef stjórnendur fyrirtækja telja sig knúna til að hækka vöruverð þá verða þeir bara að gera það en ekki vera að reyna mana hvorn annan upp í það í gegnum yfirlýsingar í fjölmiðlum,“ segir Ásgeir.

Sögulega miklar hækkanir fjölda hráefna: mesta verðhækkun olíu, matvæla og drykkjavöru frá miðjum áttunda áratug síðustu aldar og mesta árshækkun gasverðs frá upphafi mælinga árið 1960.

Í nýjum Peningamálum er nefnt að alþjóðleg verðbólga hafi verið meiri en gert var ráð fyrir, meðal annars vegna hækkunar olíu- og hrávöruverðs. Horfur eru á að heldur lengri tíma taki að vinda ofan af framboðshnökrum vegna afleiðinga farsóttarinnar þótt svo virðist sem flutningskostnaður hafi náð hámarki. Væntingar séu því um að innflutt verðbólga verði meiri en áður var gert ráð fyrir og að það muni taka lengri tíma fyrir alþjóðlegar kostnaðarhækkanir að koma fram hér á landi en áður var búist við.

Stöðug gengishækkun krónunnar að undanförnu, hún hefur hækkað um liðlega 6 prósent gagnvart evrunni frá því í október, kemur því á góðum tíma fyrir Seðlabankann og ætti að draga úr erlendum verðbólguþrýstingi þegar líður á árið. Gengisstyrkingin, sem flestir eiga von á að muni halda áfram á næstu misserum, hefur raunar verið svo snörp að Seðlabankinn hefur séð sig knúinn til að reyna að hægja á henni gjaldeyrisinngripum í nokkrum tilfellum það sem af er árinu.

Gengi krónunnar í ágætu samræmi við langtímajafnvægi

Spurður hvort gengi krónunnar sé farið að nálgast það að vera hærra en Seðlabankanum þykir æskilegt á þessum tíma í hagsveiflunni segir Ásgeir svo ekki endilega vera.

Að ætla að fara að veðja á gengishækkun til að reyna að vinna gegn verðbólgunni væri eins og að pissa í skóinn sinn.

„Hækkandi gengi endurspeglar góðan gang í þjóðarbúskapnum, eins og meðal annars með loðnuvertíðinni, og eins sjáum við að ýmsir eru byrjaðir að nýta sér breytingar á lögum um gjaldeyrisviðskipti sem heimilar afleiðuviðskipti með gjaldeyri sem hefur þýtt að gengisþróunin er í meira mæli drifin áfram af væntingum. Það er ekkert óvenjulegt við það að sjávarútvegurinn reyni að verja afurðasölu sína sem á sér stað seinna árinu með framvirkri sölu á gjaldeyri.“

Að sögn Ásgeirs miða gjaldeyrisinngripin að því að gæta þess að gjaldeyrismarkaðurinn fari ekki fram úr sér, eins og hafi oft gerst í gegnum árin, og að viðhalda stöðugleika. „Að ætla að fara að veðja á gengishækkun til að reyna að vinna gegn verðbólgunni væri eins og að pissa í skóinn sinn,“ segir seðlabankastjóri.

Ásgeir nefnir einnig að það sé heldur ekkert verra að endurheimta eitthvað af þeim gjaldeyri sem var seldur á árunum 2020 og 2021 – samtals um 200 milljarðar – til að styðja við gengi krónunnar á þeim tíma. „Seðlabankinn er hins vegar í inngripum sínum ekkert að fara gegn því sem þróunin í raunhagkerfinu er að segja okkur og það er ljóst að langtímagengi krónunnar mun að einhverju ráðast af því hvenær ferðaþjónustan nær vopnum sínum á ný og við fáum aftur afgang á þjónustuviðskiptum við útlönd.“

Seðlabankastjóri segir að gengi krónunnar nú um stundir sé í „ágætu samræmi við langtímajafnvægi í þjóðarbúskapnum“.

Horfur á viðvarandi viðskiptahalla

Í nýrri hagspá Seðlabankans í Peningamálum er því spáð að hagvöxtur verði lítið eitt minni í ár en var talið í nóvember, einna helst vegna neikvæðra áhrifa fjölgunar smita á fyrsta ársfjórðungi. Fer hagvaxtarspá bankans úr 5,1 prósenti í 4,8 prósent en spáin fyrir næsta lækkar einnig og gert er ráð fyrir 2,1 prósenta vexti.

Ef stjórnendur fyrirtækja telja sig knúna til að hækka vöruverð þá verða þeir bara að gera það en ekki vera að reyna mana hvorn annan upp í það í gegnum yfirlýsingar í fjölmiðlum.

Þá telur bankinn að útlit sé fyrir að færri ferðamenn komi til landsins í ár en áður var spáð. Bankinn spáði um 1,5 milljónum ferðamanna á þessu ári í nóvemberspánni en vegna verri horfa á fyrsta ársfjórðungi telja þau í þessari spá að ferðamenn verði heldur færri. Þrátt fyrir ágætan útflutningsvöxt eru horfur á viðvarandi viðskiptahalla, að því er fram kemur í Peningamálum, og hann fari úr 0,5 prósenta afgangi í ár í 1,5 prósenta halla árið 2024


Tengdar fréttir

Tillaga Samfylkingarinnar féll í grýttan farveg í Seðlabankanum

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á fundi Seðlabankans í dag að bankinn væri ekki hrifinn af þensluhvetjandi aðgerðum, á borð við þær sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt til, á meðan bankinn reynir að hemja eftirspurn.

Heildsölur hafa ekki séð viðlíka hækkanir á einu bretti

Stærstu heildsölur landsins hafa ekki séð á eins víðtækar og skarpar verðhækkanir, og þær sem hafa gengið yfir á síðustu vikum. Fyrirtækin koma litlum vörnum við og telja að hækkanir frá erlendum framleiðendum og birgjum eigi eftir að seytla inn í smásöluverð á næstu mánuðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×