Innherji

Lífeyrissjóðir samþykkt að leggja Mílu til meira fé til að hraða uppbyggingu innviða

Hörður Ægisson skrifar
Horfurnar fyrir Mílu sem sjálfstætt fyrirtæki eru „allt aðrar en sem hluti af Símanum vegna þess að nýir viðskiptavinir geta bæst í netið og meiri vöxtur kemur frá fjárfestingu í fleiri innviðum,“ segir Ardian.
Horfurnar fyrir Mílu sem sjálfstætt fyrirtæki eru „allt aðrar en sem hluti af Símanum vegna þess að nýir viðskiptavinir geta bæst í netið og meiri vöxtur kemur frá fjárfestingu í fleiri innviðum,“ segir Ardian. Foto: Vilhelm Gunnarsson

Forsvarsmenn íslensku lífeyrissjóðanna, sem eru að kaupa samanlagt um fimmtungshlut í Mílu, dótturfélagi Símans, eru sammála væntanlegum meirihlutaeigenda fjarskiptafyrirtækisins – franska fjárfestingarsjóðnum Ardian – um að leggja því til meira fjármagn á komandi árum til að hraða uppbyggingu á 5G og ljósleiðarakerfi félagsins.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í samrunatilkynningu vegna fyrirhugaðra kaupa Ardian á Mílu sem var skilað til Samkeppniseftirlitsins fyrr í þessum mánuði.

Þar segir að Ardian muni beita sér fyrir því að hraða slíkum fjárfestingarverkefnum, sem væri til þess fallið að bæta þjónustu og gæði í samskiptum innanlands, og að þær hugmyndir hafi „nú þegar verið ræddar og samþykktar af fulltrúm íslensku lífeyrissjóðanna,“ ef af fjárfestingu sjóðanna verður.

Kaupa í Mílu fyrir meira en 15 milljarða

Innherji greindi frá því undir lok síðasta mánaðar að hópur lífeyrissjóða væri langt kominn með að ganga frá kaupum á um tuttugu prósenta hlut í Mílu fyrir vel yfir fimmtán milljarða króna, bæði í eigin nafni og eins í gegnum nýjan framtakssjóð í rekstri Summu sem mun sérhæfa sig í fjárfestingum í innviðum. Allir stærstu lífeyrissjóðir landsins, að Gildi undanskildum, áforma að koma að kaupunum. 

Fjárfestingasjóðurinn Ardian, sem skrifaði undir samkomulag um kaup á Mílu fyrir 78 milljarða í október í fyrra, bauð íslenskum lífeyrissjóðum sem kunnugt er að koma að þeim viðskiptum með því að kaupa samanlagt fimmtungshlut á sömu kjörum og Ardian.

Innviðasjóðurinn er rúmlega 10 milljarðar króna að stærð og á annan tug lífeyrissjóða leggja honum til fjármagn. Í þeim hópi eru hins vegar ekki tveir af þremur stærstu lífeyrissjóðum landsins – LSR og Gildi – en ekki er útilokað að þeir muni gera það á síðari stigum.

Miðað við kaupverð Ardian á Mílu þá þurfa lífeyrissjóðirnir að greiða um 15,6 milljarða króna til að eignast 20 prósenta hlut í fyrirtækinu. Í gegnum innviðasjóð Summu munu lífeyrissjóðirnir geta lagt til að hámarki um 3,3 milljarða króna en restin – meira en 12 milljarðar – þyrfti þá að koma beint frá lífeyrissjóðunum. Samkvæmt fjárfestingastefnu innviðasjóðs Summu þá má hann fjárfesta í einstökum verkefnum sem nemur þriðjungi af stærð sjóðsins.

Á meðal þeirra lífeyrissjóða sem áforma að koma að kaupunum á Mílu með beinni þátttöku, samkvæmt heimildum Innherja, eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, LSR og Birta. Gert er ráð fyrir að sjóðirnir þrír muni koma bróðurpart þeirrar fjárhæðar sem þarf til viðbótar um 3,3 milljarða fjárfestingu innviðasjóðsins og að framlag þeirra geti numið samanlagt nálægt tíu milljörðum króna. Bæði Lífeyrissjóður verslunarmanna og Birta verða sömuleiðis hluthafar í innviðasjóðnum.

Allt aðrar vaxtahorfur fyrir Mílu sem sjálfstætt fyrirtæki

Í samrunatilkynningu Ardian vegna kaupanna á Mílu kemur fram að þegar sjóðurinn meti kosti innviðafjárfestinga til langs tíma séu tækifæri til umbóta og vaxtar mikilvægir þættir. Míla sé öflugt fyrirtæki og vel rekið en Ardian telur „engu að síður að mikil tækifæri séu til úrbóta.“

Með aðskilnaði frá Símanum mun Míla verða algjörlega sjálfstætt fyrirtæki á fjarskiptamarkaði sem getur keppt um viðskipti allra fjarskiptafyrirtækja á markaðinum. „Það felur í sér tækifæri fyrir Mílu, bætir samkeppnisumhverfi fráliggjandi markaða og verður auk þess til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag,“ segir í tilkynningunni.

Í fyrsta lagi bendir Ardian á að Míla muni hafa meira svigrúm til fjárfestinga en sem hluti af Símanum. Þess vegna sé áætlað að hraða uppbyggingu á ljósleiðarakerfi um allt land og 5G þjónustu, eins og framkvæmdastjóri hefur áður lýst yfir, en um 13.000 staðföng í bæjum og þorpum á landsbyggðinni eru án ljósleiðaratenginga.

Þá er nefnt að það verði meira aðlaðandi fyrir keppinauta Símans, eins og meðal annars Sýn og Nova, að nýta sér fjarskiptanet Mílu en Ardian hefur ákveðið, með breyttu eignarhaldi, að auðvelda slíkum aðilum á fjarskiptamarkaðnum að aðgang að innviðum félagsins.

„Þegar fjarskiptafyrirtæki, eins og Síminn, á hvorki né stjórnar innviðunum skapast enda forsendur fyrir opinn aðgang og samnýtingu innviða sem er hagkvæmasta leiðin til þess að tryggja sem bestar og víðtækastar tengingar. Þetta fyrirkomulag er jafnframt til þess fallið að auðvelda nýjum aðilum að hefja starfsemi á smásölumörkuðum fjarskiptaþjónustu,“ segir í samrunatilkynningunni.

Í þriðja lagi kemur fram í rökstuðningi Ardian að reynslan á mörgum markaðssvæðum í Evrópu hafi sýnt að aðskilnaður á milli fjarskiptaþjónustuaðila og innviða hafi dregið úr kostnaði og aukið hagkvæmni. Horfurnar fyrir Mílu sem sjálfstætt fyrirtæki séu því „allt aðrar en sem hluti af Símanum vegna þess að nýir viðskiptavinir geta bæst í netið og meiri vöxtur kemur frá fjárfestingu í fleiri innviðum.“

Samkeppniseftirlitið með kaupin á sínu borði

Áætlaður hagnaður Símans vegna sölunnar á Mílu er rúmlega 46 milljarðar króna að teknu tilliti til kostnaðar. Samhliða sölunni er gerður 20 ára heildsölusamningur á milli Símans og Mílu. Stærsti einstaki hluthafi Símans er fjárfestingafélagið Stoðir með rúmlega 15 prósenta hlut en aðrir helstu eigendur fjarskiptarisans eru LSR, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi.

Í desember var skrifað undir samning milli íslenska ríkisins og Mílu um þær kvaðir sem munu snúa að rekstri fyrirtækisins eftir að það kemst í eigu Ardian en þær eiga að tryggja að starfsemi þess samrýmist þjóðaröryggishagsmunum Íslands. Að mati stjórnvalda ógnar eignarhald franska sjóðsins ekki þjóðaröryggi landsins en á gildistíma samningsins mun þeim gefast tími til að semja lög um þær kvaðir sem Míla undirgengst.

Fullnægjandi samruntilkynning barst til Samkeppniseftirlitsins 10. febrúar síðastliðinn og hófst þá lögbundnir frestir að líða. Fram kom á uppgjörsfundi Símans í liðinni viku ekki væri hægt að segja til um hvenær Samkeppniseftirlitið myndi ljúka afgreiðslu málsins, en vart síðar um mitt þetta ár.


Tengdar fréttir

Verð­miðinn á Mílu yfir 70 milljarðar og líf­eyris­sjóðir geta keypt fimmtungs­hlut

Franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian, sem hefur skrifað undir samkomulag um einkaviðræður og helstu skilmála vegna áformaðra kaupa á Mílu, dótturfélagi Símans, mun bjóða íslenskum lífeyrissjóðum aðkomu að viðskiptunum með því að eignast 20 prósenta hlut á sömu kjörum og Ardian sem færi þá á móti með 80 prósenta eignarhlut í fyrirtækinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.