Innherji

Lífeyrissjóðir færast nær kaupum á fimmtungshlut í Mílu

Hörður Ægisson skrifar
Fjárfesting lífeyrissjóðanna og innviðasjóðsins í Mílu er gerð í gegnum eignahaldsfélag sem verður stýrt af Summu.
Fjárfesting lífeyrissjóðanna og innviðasjóðsins í Mílu er gerð í gegnum eignahaldsfélag sem verður stýrt af Summu. Vísir/Vilhelm

Hópur íslenskra lífeyrissjóða er langt kominn með að ganga frá kaupum á um tuttugu prósenta hlut í Mílu, dótturfélagi Símans, fyrir vel yfir fimmtán milljarða króna, bæði í eigin nafni og eins í gegnum nýjan framtakssjóð í rekstri Summu sem mun sérhæfa sig í fjárfestingum í innviðum.

Allir stærstu lífeyrissjóðir landsins, að Gildi undanskildum, áforma að koma að kaupunum, samkvæmt heimildum Innherja.

Franski fjárfestingasjóðurinn Ardian, sem skrifaði undir samkomulag um kaup á Mílu fyrir 78 milljarða í október í fyrra, bauð íslenskum lífeyrissjóðum sem kunnugt er að koma að þeim viðskiptum með því að kaupa samanlagt fimmtungshlut á sömu kjörum og Ardian.

Áætlað er að formleg stofnun og fjármögnun hins nýja innviðasjóðs Summu klárist í vikunni – sú vinna hefur þegar tafist nokkuð – en hann verður rúmlega 10 milljarðar króna að stærð og á annan tug lífeyrissjóða leggja honum til fjármagn. Í þeim hópi eru hins vegar ekki tveir af þremur stærstu lífeyrissjóðum landsins – LSR og Gildi – en ekki er útilokað að þeir muni gera það á síðari stigum. Horft er til þess að innviðasjóðurinn verði stækkaður þegar fram í sækir.

Miðað við kaupverð Ardian á Mílu þá þurfa lífeyrissjóðirnir að greiða um 15,6 milljarða króna til að eignast 20 prósenta hlut í fyrirtækinu. Í gegnum innviðasjóð Summu munu lífeyrissjóðirnir geta lagt til að hámarki um 3,3 milljarða króna en restin – meira en 12 milljarðar – þyrfti þá að koma beint frá lífeyrissjóðunum. Samkvæmt fjárfestingastefnu innviðasjóðs Summu þá má hann fjárfesta í einstökum verkefnum sem nemur þriðjungi af stærð sjóðsins

Á meðal þeirra lífeyrissjóða sem áforma að koma að kaupunum á Mílu með beinni þátttöku, samkvæmt heimildum Innherja, eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, LSR og Birta. Gert er ráð fyrir að sjóðirnir þrír muni koma bróðurpart þeirrar fjárhæðar sem þarf til viðbótar um 3,3 milljarða fjárfestingu innviðasjóðsins og að framlag þeirra geti numið samanlagt nálægt tíu milljörðum króna. Bæði Lífeyrissjóður verslunarmanna og Birta verða sömuleiðis hluthafar í innviðasjóðnum.

 Aðrir lífeyrissjóðir sem eru sagðir einnig vera að skoða að fjárfesta í Mílu í eigin nafni eru meðal annars Frjálsi, Almenni og Lífsverk.

Fjárfesting lífeyrissjóðanna og innviðasjóðsins í Mílu er gerð í gegnum eignahaldsfélag sem verður stýrt af Summu. Sjóðastýringarfyrirtækið var á meðal þeirra fjárfesta sem settu fram kauptilboð í Mílu á síðasta ári en lífeyrissjóðirnir hafa um nokkurt skeið átt í samstarfi við Summu vegna aðkomu þeirra að kaupum í Mílu.

Fyrir rekur Summa annan sambærilegan innviðasjóð, sem heitir Innviðir fjárfestingar og er talsvert minni að stærð, en hann hefur meðal annars komið að fjárfestingum í HS Veitum og Verðbréfamiðstöð Íslands.

Franskt eignarhald ógnar ekki þjóðaröryggi landsins

Áætlaður söluhagnaður Símans vegna viðskiptanna er rúmlega 46 milljarðar króna að teknu tilliti til kostnaðar viðskiptanna. Stærsti einstaki hluthafi Símans er fjárfestingafélagið Stoðir með rúmlega 15 prósenta hlut en aðrir helstu eigendur fjarskiptarisans eru LSR, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi.

Míla er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði og felst kjarnastarfsemi Mílu í að byggja upp og reka innviði fjarskipta á landsvísu.

Í tilkynningu vegna kaupanna í haust kom fram að Ardian áformaði að hraða fjárfestingarverkefnum Mílu. Sérstök áhersla yrði lögð á að leggja ljósleiðara í sveitarfélögum á landsbyggðinni, sem mun auka samkeppnishæfni minni sveitarfélaga, og byggja framúrskarandi 5G farsímakerfi á Íslandi.

Í desember var skrifað undir samning milli íslenska ríkisins og Mílu um þær kvaðir sem munu snúa að rekstri fyrirtækisins eftir að það kemst í eigu Ardian en þær eiga að tryggja að starfsemi þess samrýmist þjóðaröryggishagsmunum Íslands. Að mati stjórnvalda ógnar eignarhald franska sjóðsins ekki þjóðaröryggi landsins en á gildistíma samningsins mun þeim gefast tími til að semja lög um þær kvaðir sem Míla undirgengst.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Verð­miðinn á Mílu yfir 70 milljarðar og líf­eyris­sjóðir geta keypt fimmtungs­hlut

Franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian, sem hefur skrifað undir samkomulag um einkaviðræður og helstu skilmála vegna áformaðra kaupa á Mílu, dótturfélagi Símans, mun bjóða íslenskum lífeyrissjóðum aðkomu að viðskiptunum með því að eignast 20 prósenta hlut á sömu kjörum og Ardian sem færi þá á móti með 80 prósenta eignarhlut í fyrirtækinu.

Samkeppniseftirlitið skoðaði tengsl erlendu innviðafjárfestanna

Athugun Samkeppniseftirlitsins á samstarfi Digital Bridge, kaupanda á tilteknum fjarskiptainnviðum Sýnar og Nova, við franska sjóðastýringarfélagið Ardian, sem hefur náð samkomulagi um kaup á Mílu, leiddi í ljós að hagsmunatengsl erlendu innviðafjárfestanna væru hverfandi lítil.

Samkeppni við sjálfstæða Mílu verður prófsteinn fyrir Ljósleiðarann

Salan á Mílu, dótturfélagi Símans, gæti leitt til harðari samkeppni um stærstu kúnna Ljósleiðarans, sem áður hét Gagnaveita Reykjavíkur og er helsti keppinautur Mílu. Ljósleiðarinn vill fá betri aðgang að NATO-strengnum og framkvæmdastjórinn segist sjá tækifæri á lagningu á nýjum ljósleiðarastreng hringinn í kringum landið. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.