Innherji

Samkeppni við sjálfstæða Mílu verður prófsteinn fyrir Ljósleiðarann

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.
Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans. Ljósleiðarinn

Salan á Mílu, dótturfélagi Símans, gæti leitt til harðari samkeppni um stærstu kúnna Ljósleiðarans, sem áður hét Gagnaveita Reykjavíkur og er helsti keppinautur Mílu. Ljósleiðarinn vill fá betri aðgang að NATO-strengnum og framkvæmdastjórinn segist sjá tækifæri á lagningu á nýjum ljósleiðarastreng hringinn í kringum landið. 

„Eftir sem áður eru tvö heildsölufyrirtæki á markaðinum sem þurfa að halda góðu þjónustustigi til að sinna þessum félögum. Ég hef ekki meiri áhyggjur af samkeppninni en áður,“ segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdarstjóri Ljósleiðarans.

Flestar kvartanir keppinauta Símans hafa snúið að lóðréttu eignarhaldi Símans á Mílu. Keppinautarnir Vodafone og Nova hafa kvartað yfir því að Síminn geti í krafti eignarhaldsins á Mílu, sem á tengingar í nær öllu hús landsins, boðið inngöngutilboð til nýrra viðskiptavina sem önnur fjarskiptafyrirtæki geta ekki keppt við. Þetta breytist, að mati keppinauta Símans, þegar Míla hverfur úr samstæðunni.

Og salan gæti einnig haft töluverð áhrif á rekstur Ljósleiðarans. Á markaðssvæðum þar sem Ljósleiðarinn og Míla etja kappi hafa Vodafone og Nova beint viðskiptum sínum til Ljósleiðarans til þess að komast hjá því að styrkja keppinaut.

Ef fram fer sem horfir og Míla verður sjálfstætt innviðafyrirtæki standa tengslin við Símann ekki lengur í vegi fyrir því að fyrirtækin versli við Mílu. Það eru því skýr sóknarfæri á markaðinum en á síðasta ári komu 72 prósent tekna Mílu, sem voru alls 6,4 milljarðar króna, frá Símanum og tengdum félögum.

Samkvæmt heimildum Innherja hafa áhrif sölunnar á rekstur Ljósleiðarans verið rædd á stjórnarfundum eigandans, Orkuveitu Reykjavíkur. Einkum var rætt um áhrifin af því að stórir kúnnar Ljósleiðarans, svo sem Vodafone og Nova, færðu viðskipti sín að hluta til yfir til Mílu. Fjarskiptafélögin tvö mynda stóran hluta af tekjum Ljósleiðarans í dag.

Ljósleiðarinn vill annan streng í kringum landið

Í byrjun mánaðarins var tilkynnt um að nafni Gagnaveitu Reykjavíkur hefði verið formlega breytt í Ljósleiðarinn. Fyrirtækið rekur víðfeðmt ljósleiðaranet á Suðvesturlandi sem nær fleiri en hundrað þúsund heimila og er enn í uppbyggingarfasa, einkum á Suðurnesjum.

„Það hefur verið virk samkeppni á fjarskiptamarkaðinum, sem betur fer fyrir neytendur, og tíminn verður að leiða í ljós hvernig markaðurinn mun síðan þróast,“ segir Erling Freyr. Hann sér tækifæri í samstarfi með nýjum eigendum Mílu sem hafa gefið út að þeir hyggist hraða fjárfestingaverkefnum. Sérstök áhersla verði lögð á að leggja ljósleiðara í sveitarfélögum á landsbyggðinni og að byggja upp innviði sem þjóni 5G farsímakerfum.

„Á Íslandi eru um 130 þúsund heimili komin með ljósleiðara en 20 þúsund heimili sitja eftir. Nú þurfum við að nýta tækifærið og klára ljósleiðaravæðingu Íslands. Og við verðum að gera það skynsamlega; gæta þess að tvöfalda ekki fjárfestingar en á sama tíma að samnýta framkvæmdir, neytendum til hagsbóta, og eiga nógu öfluga innviði til að standast kröfur framtíðarinnar,“ segir Erling Freyr.

„Og það er löngu tímabært,“ bætir Erling Freyr við, „að skoða alla innviði landsins í því skyni að hámarka rekstraröryggi þeirra. Það þarf til að mynda að leggja annan ljósleiðarastreng hringinn í kringum landið. NATO-strengurinn er orðinn 30 ára gamall og er takmörkunum háður. Við sjáum spennandi tækifæri í þessu.“

Ljósleiðarastrengurinn sem hér um ræðir, oft kallaður NATO ljósleiðarinn nær hringinn í kringum landið og suður um Vestfirði til Bolafjalls við Ísafjarðardjúp. Um er að ræða einn streng með átta ljósleiðarþráðum. Fimm þessara þráða á Míla og notar til að byggja upp þjónustu sína á landsvísu. Hinir þrír eru á eignaskrá Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins.

Lega ljósleiðarstrengs NATO samkvæmt gagnagrunni almennra fjarskipta.

„Við höfum vonast til þess, svona til skemmri og millilangs tíma, að fá betri aðgang að þessum streng svo við getum boðið kjör og þjónustu sem hugnast neytendum um allt land. Núverandi fyrirkomulag gerir okkur erfitt fyrir að tengjast fjölda smærri neta sem lögð hafa verið með opinberum styrkjum undir merkjum Ísland ljóstengt, verkefnis ríkisstjórnarinnar,“ segir Erling.

„Svo er náttúrulega ljóst að til lengri tíma – og við verðum að hugsa til lengri tíma – mun núverandi strengur ekki anna þörfunum." bætir hann við. Ástæðurnar eru fjölgun þeirra sem eru tengd ljósleiðara, auknar kröfur um flutningsgetu og ekki síst uppbygging 5G farsímakerfa, en burðarnetið sem tengir saman fjölgandi senda og internetið er ljósleiðaranet. 

„Tveir landshringir auka á öryggi, ýta undir samkeppni og val ekki aðeins neytenda heldur einnig fjarskiptafyrirtækja.“

Þá bendir Erling á að „eitt sæmilega voldugt ídráttarrör“, sem væri plægt í kringum landið og fjarskiptafélögin gætu nýtt sér, kosti álíka mikið og „ein sæmilega voldug mislæg gatnamót“ í vegakerfinu.

Ljósleiðarinn muni þannig taka fullan þátt í að styrkja grunnkerfin í landinu að sögn Erlings.

 „Það er ekki bara til að þjóna betur núverandi viðskiptavinum og vaxandi þörfum þeirra. Við ætlum að líka að afla nýrra viðskiptavina og stuðla að því að fólkið sem hefur engan ljósleiðara í dag eða bara einn getið valið á milli fyrirtækja. Það hefur sýnt sig að samkeppni hefur verið til góðs.“

Aukin samkeppni um að þjónusta fjarskiptafélög vekur spurningar um hvort Ljósleiðarinn hafi burði til að halda áfram kraftmikilli uppbyggingu á ljósleiðarakerfi sínu úti á landi, þar sem arðsemin verkefna er töluvert minni en á höfuðborgarsvæðinu, ef hann ætlar að vera samkeppnishæfur í gæðum og verðum.

„Það er ekkert í dag sem bendir til þess að við þurfum að draga úr fjárfestingu.“  

„Og ef við höldum áfram samstarfi við Mílu um lagningu ljósleiðara í sveitarfélögum, eins og við höfum gert með leyfi Samkeppniseftirlitsins í fjögur ár, þá erum við nánast að helminga kostnaðinn hjá hvoru fyrirtæki,sem á að skila sér til neytenda,“ segir Erling Freyr.

Hár margfaldari á Mílu

Heildarvirði sölunnar á Mílu er 78 milljarðar króna, að meðtöldum skuldum fyrirtækisins sem yfirteknar verða af franska fyrirtækinu. Verðmiðinn jafngildir því að EBITDA-margfaldarinn, þ.e. söluverðið sem margfeldi af rekstrarhagnaði, sé nærri sextán en EBITDA þessa árs hjá Mílu er áætluð rúmlega 5 milljarðar.

Ef sami margfaldari, þ.e. sextán sinnum EBITDA, er notaður til að áætla söluverðið sem Orkuveita Reykjavíkur gæti fengið fyrir Ljósleiðarann, hvers EBITDA nam ríflega 2 milljörðum króna á síðasta ári og árið 2019, fást 32 milljarðar króna.

Ekki er þó hægt að leggja fyrirtækin að jöfnu. Ljósleiðarinn rekur eingöngu ljósleiðarakerfi sem er að bundið við Suðvesturland en í rekstri Mílu, sem nær um allt land, felast einnig önnur fjarskiptakerfi.

Ein ástæða fyrir því að fagfjárfestir kaupir Mílu á svo háum margfaldara er sú að Síminn er skuldbundinn Mílu til að versla fyrir háar fjárhæðir til langs tíma. Og inn í kaupverðið spila væntingar um betri nýtingu á kerfum sem Míla hefur byggt upp, að því er kom fram í máli viðmælenda Innherja á fjarskiptamarkaði, og einnig nýjum eignum þegar unnt verður að afla meiri viðskipta við keppinauta Símans.

Í byrjun árs seldi Síminn rekstur farsímadreifikerfisins og svokallaðs IP-nets til Mílu fyrir 7,7 milljarða króna og samhliða því var gerður langtímasamningur við Símann um aðgang að kerfunum. Þessi kerfi hafa eingöngu verið nýtt af Símanum hingað til. Kaupendur Mílu gera ráð fyrir töluverðum vexti í rekstri innviðafélagsins vegna betri nýtingar.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Verð­miðinn á Mílu yfir 70 milljarðar og líf­eyris­sjóðir geta keypt fimmtungs­hlut

Franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian, sem hefur skrifað undir samkomulag um einkaviðræður og helstu skilmála vegna áformaðra kaupa á Mílu, dótturfélagi Símans, mun bjóða íslenskum lífeyrissjóðum aðkomu að viðskiptunum með því að eignast 20 prósenta hlut á sömu kjörum og Ardian sem færi þá á móti með 80 prósenta eignarhlut í fyrirtækinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.