Innherji

Síminn segir „fjarstæðukennt“ að ríkið fái heimild til að láta kaup ganga til baka

Hörður Ægisson skrifar
Orri Hauksson, forstjóri Símans, en í síðustu viku var skrifað undir samkomulag milli íslenska ríkisins og Mílu um þær kvaðir sem snúa að rekstri fyrirtækisins þegar það kemst í eigu franska sjóðsins Ardian.
Orri Hauksson, forstjóri Símans, en í síðustu viku var skrifað undir samkomulag milli íslenska ríkisins og Mílu um þær kvaðir sem snúa að rekstri fyrirtækisins þegar það kemst í eigu franska sjóðsins Ardian. Isavia

Síminn gagnrýnir harðlega þær breytingar sem eru lagðar til á lögum um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri í frumvarpi sem nú er til meðferðar á Alþingi en fjarskiptarisinn segir þær varasamar fyrir ásýnd Íslands gagnvart erlendum fjárfestum.

Verið sé að leggja til að stjórnvöld fái valdheimildir sem virðast í reynd opin tékki til þess að taka yfir fyrirtæki ef þau séu ekki þóknanleg stjórnvöldum hverju sinni.

„Það er ósjaldan sem ríkjandi valdhafar nýta sér óljósar heimildir, byggðar á þjóðaröryggi og almannahagsmunum, til þess að koma á óþægilegum aðilum frá,“ segir í umsögn Símans við frumvarpi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, vísinda-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, um breytingu á lögum fjarskipti, lögum um Fjarskiptastofu og fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að ráðherra geti bundið erlenda fjárfestingu skilyrðum í því skyni að koma í veg fyrir að hún geti „ógnað öryggi landsins, gengið gegn allsherjarreglu, almannaöryggi o.s.frv.“ Séu þau skilyrði brotin getur ráðherra farið fram á að hlutaðeigandi erlend fjárfesting skuli ganga til baka að viðlögðum dagsektum og þá getur hann lýst atkvæðisrétt fjárfestis í viðkomandi atvinnufyrirtæki óvirkan. Ráðherra er sömuleiðis heimilt að krefjast innlausnar á eignum og réttindum erlends fjárfestis í fyrirtæki í atvinnurekstri hér á landi.

Síminn skrifaði sem kunnugt er undir samkomulag um sölu á dótturfélagi sínu Mílu til franska fjárfestingasjóðsins Ardian fyrir um 78 milljarða króna síðastliðið haust. Í liðinni viku var tilkynnt um að búið væri að skrifa undir samning milli íslenska ríkisins og Mílu um þær kvaðir sem munu snúa að rekstri fyrirtækisins eftir að það kemst í eigu Ardian en þær eiga að tryggja að starfsemi þess samrýmist þjóðaröryggishagsmunum Íslands. Að mati stjórnvalda ógnar eignarhald franska sjóðsins ekki þjóðaröryggi landsins en á gildistíma samningsins mun þeim gefast tími til að semja lög um þær kvaðir sem Míla undirgengst.

Míla er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði og felst kjarnastarfsemi Mílu í að byggja upp og reka innviði fjarskipta á landsvísu.

Í umsögn Símans við frumvarpið er nefnt að engin takmörk séu fyrir því hvaða skilyrði ráðherra getur lagt á fjárfestingar erlendra aðila og þannig fái hann í raun óheft vald. Þá fái ráðherra heimild til þess að svipta viðkomandi erlenda fjárfesta eignaréttindi út í hið óendanlega og raunverulega án tillits til þess hvort meint brot gegn óskilgreindum skilyrðum hafi einhverja þýðingu.

„Þannig koma engar bætur fyrir það ef atkvæðaréttur hluthafa er lýstur óvirkur, sem er verulegt inngrip í eignarétt viðkomandi aðila. Ráðherra gæti þannig lýst atkvæðisrétt óvirkan en ekki tekið fyrirtækið yfir,“ að mati Símans. Telur fjarskiptafyrirtækið því að verið sé að ganga gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Slík ráðstöfun gæti gert seljanda gjaldþrota þar sem hann hefur ekki getu til þess að endurgreiða kaupverðið, vegna atvika sem hann ber enga ábyrgð á.

Þá fullyrðir Síminn að það sé „fjarstæðukennt“ að ráðherra verði veitt heimild til þess að láta kaup ganga til baka. Hægt sé að beita slíkri heimild mörgum árum eftir að viðskiptin voru framkvæmd og viðkomandi fyrirtæki sem var selt, gæti verið allt annars eðlis, sem upprunalegur seljandi hefur engin áhuga á því að kaupa, hvaða þá að greiða fyrir aftur.

„Slík ráðstöfun gæti gert seljanda gjaldþrota þar sem hann hefur ekki getu til þess að endurgreiða kaupverðið, vegna atvika sem hann ber enga ábyrgð á,“ segir í umsögninni.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.