Þessi stöð sér um samskipti við gervihnettina.Aðsend
Borealis Data Center og ítalska fyrirtækið Leaf Space hafa gert samning sem felst í hýsingu og rekstri á búnaði fyrir gervitunglafjarskipti. Gervihnattastöðin er staðsett við gagnaver Boeralis á Blönduósi. Forstjóri Borealis segir ánægjulegt að geimgagnavinnsla sé að hefjast á Blönduósi.
Um er að ræða samskiptabúnað, loftnetastöð og annan tæknibúnað sem sinnir móttöku og meðhöndlun gagna frá gervitunglum á sporbraut um jörðu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Borealis Data Center.
Leaf Space sérhæfir sig í samskiptum við gervihnetti og þjónustar fyrirtæki sem þurfa aðgengi að gervihnöttum á sporbaug um jörðu. Lausn Leaf Space á Blönduósi er hönnuð með það í huga að þjónusta gervihnetti á norðurslóðum. Stöðin er hluti af neti Leaf Space og á að þétta útbreiðslusvæð þess á norðurhveli jarðar og lágmarkaa biðtíma gagna frá gervihnöttum.
Björn Brynjúlfsson er forstjóri Borealis Data Center sem rekur tvö gagnaver á Íslandi, eitt á Blönduósi og eitt við Reykjanesbæ.Aðsend
„Það er ánægjulegt að bæta við geimgagnavinnslu á Blönduósi og er uppbyggingin með Leaf Space staðfesting á þeim kostum og innviðum sem staðsetningin býður upp á. Borealis er nú komið í þá aðstöðu að þjónusta vaxandi umsvif í geimnum ásamt nýjum samstarfsfélögum hjá Leaf Space. Stuðningur frá heimamönnum og sveitafélaginu hefur skipt sköpun fyrir okkar uppbyggingu á svæðinu“, er haft eftir Birni Brynjúlfssyni, forstjóra Borealis Data Center í tilkynningunni.
Afar samkeppnishæft og stöðugt orkuverð, sem varð á skömmum tíma talsvert lægra hér á landi í samanburði við Evrópu þar sem það hefur hækkað skarpt á tímum faraldursins, ásamt ört vaxandi áhuga alþjóðlegra fjárfestingarsjóða á gagnaversiðnaði skilaði sér í því að þrjú stærstu gagnaverin sem eru starfrækt á Íslandi voru seld fyrir samanlagt yfir 100 milljarða króna á síðustu mánuðum ársins 2021.
Gagnaver Borealis Data Center verður tekið í notkun síðla hausts ef framkvæmdir ganga vel á Blönduósi. Mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf á NV-landi.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.