Innherji

Erlendir sjóðir keyptu þrjú íslensk gagnaver fyrir meira en 100 milljarða undir lok ársins

Afar samkeppnishæft og stöðugt orkuverð, sem varð á skömmum tíma talsvert lægra hér á landi í samanburði við Evrópu þar sem það hefur hækkað skarpt á tímum faraldursins, ásamt ört vaxandi áhuga alþjóðlegra fjárfestingarsjóða á gagnaversiðnaði skilaði sér í því að þrjú stærstu gagnaverin sem eru starfrækt á Íslandi voru seld fyrir samanlagt yfir 100 milljarða króna á síðustu mánuðum ársins 2021.

Hörður Ægisson skrifar
Áratugur er síðan að fyrstu gagnaverin, sem sjá um geymslu og vinnslu gagna í ofurtölvum, hösluðu sér völl hérlendis og bættust í hóp stórnotenda raforku.

Afar samkeppnishæft og stöðugt orkuverð, sem varð á skömmum tíma talsvert lægra hér á landi í samanburði við Evrópu þar sem það hefur hækkað skarpt á tímum faraldursins, ásamt ört vaxandi áhuga alþjóðlegra fjárfestingarsjóða á gagnaversiðnaði skilaði sér í því að þrjú stærstu gagnaverin sem eru starfrækt á Íslandi voru seld fyrir samanlagt yfir 100 milljarða króna á síðustu mánuðum ársins 2021.

Ljóst er að margir íslenskir fjárfestar sem voru á meðal eigenda gagnaveranna – atNorth, Verne Global og Borealis Date Center – hafa hagnast ævintýralega á þeim viðskiptum. Áratugur er síðan að fyrstu gagnaverin, sem sjá um geymslu og vinnslu gagna í ofurtölvum, hösluðu sér völl hérlendis og bættust í hóp stórnotenda raforku en þau standa samt aðeins undir um 3 til 4 prósent af heildarraforkusölu Landsvirkjunar.

Með miklum og stöðugum vexti gagnavera á heimsvísu hefur breiðari hópur fjárfesta, meðal annars sjóðir sem sérhæfa sig í fjárfestingum í innviðum, komið að kaupum á slíkum fyrirtækjum á síðustu misserum og árum og algengt er verðmiðinn í þeim viðskiptum jafngildi liðlega 20-földum EBITDA-hagnaði þeirra.

Rétt fyrir jólin í fyrra var tilkynnt um kaup svissneska fjárfestingarfélagsins Partners Group, sem er skráð á markað og eitt það stærsta sinnar tegundar í Evrópu, á hátæknifyrirtækinu atNorth, sem áður hét Advania Data Centers, en það rekur tvö gagnaver á Íslandi og eitt í Svíþjóð og með afkastagetu upp á samtals um 94 megawött. Ekki var upplýst um kaupverðið á þeim tíma en samkvæmt heimildum Innherja nam heildarvirði (e. enterprise value) atNorth í viðskiptunum um 350 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði 45,5 milljarða íslenskra króna á þáverandi gengi. Vaxtaberandi skuldir félagsins námu jafnvirði 2,5 milljarða króna í árslok 2020.

Á meðal þeirra sem eru hluthafar í sjóðnum hjá Partners Group, sem er með eignir í stýringu að fjárhæð samtals 127 milljarða Bandaríkjadala, sem keypti íslenska gagnaverið er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti lífeyrissjóður landsins.

Seldu fyrst Advania, síðan atNorth

atNorth var að meirihluta í eigu norræna fjárfesta, sem höfðu keypt í Advania á árunum 2014 og 2015, en haustið 2017 var starfsemi gagnaversins aðskilið frá samstæðu upplýsingatæknifyrirtækisins og reksturinn færður yfir í sérstakt félag. Íslendingar fóru hins vegar einnig með umtalsverðan hlut við söluna til Partners Group en í þeim hópi má helst nefna þá Gest G. Gestsson, stjórnarformann Advania, sem fer fyrir félaginu Aechora AB, og eins Aðalstein Jóhannsson, meðeiganda fjárfestingabankans Bryan, Garnier og Co, í gegnum félagið sitt Bull Hill Capital AB. Þá var Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, aðstoðarforstjóri og fjármálastjóri atNorth, á meðal eigenda fyrirtækisins eftir að hafa fjárfest í því sumarið 2021 þegar hún tók þar til starfa eftir að hafa verið áður fjármálastjóri Icelandair Group.

Þegar tilkynnt var um kaup Partners Group kom fram að engar breytingar yrðu á stjórnendateymi atNorth, sem áformar frekari vöxt á Norðurlöndunum, en Eyjólfur Magnús Kristinsson hefur verið forstjóri félagsins undanfarin ár.

Þeir sem stóðu að sölunni á atNorth undir lok síðasta árs, meðal annars ýmsir Íslendingar sem hafa verið lykilstjórnendur hjá Advania um langt skeið, voru að stærstum hluta einnig í hópi eigenda Advania þegar sjóður í stýringu Goldman Sachs keypti meirihluta í upplýsingatæknifélaginu í ársbyrjun 2021. Virði Advania í þeim viðskiptum, eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá í júlí fyrra, var hátt í 60 milljarðar króna en félagið hefur vaxið afar hratt síðustu ár – einkum með kaupum á fyrirtækjum á hinum Norðurlöndunum – og samstæðan veltir í dag um 150 milljörðum króna. Félögin atNorth og Advania, sem áður voru undir sömu samstæðu og að mestu í eigu sömu fjárfesta, voru því verðmetin á samanlagt meira en 100 milljarða króna þegar þau voru seld á innan við einu ári í fyrra.

Aðalsteinn Jóhannsson, meðeigandi fjárfestingabankans Bryan, Garnier og Co, var á meðal Íslendinga sem áttu talsverðan hlut í atNorth en hann stendur í dag að félaginu Geo Salmo sem stefnir að uppbyggingu fiskeldisstöðvar við Þorlákshöfn.

Á árinu 2020 minnkuðu tekjur atNorth um 30 prósent og námu 36 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 4,6 milljarða króna, en arðsemin jókst hins vegar og var hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) um 10,4 milljónir dala. Ekki liggur fyrir ársreikningur síðasta árs en ljóst er að mikill vöxtur var í tekjum samhliða aukinni eftirspurn og að afkoman fór sömuleiðis batnandi á milli ára.

Ganga kaupum og sölum á háum margföldurum

Þremur mánuðum áður en atNorth var selt til Partners Group var tilkynnt um að sjóðurinn Digital 9 Infrastructure, sem er í stýringu breska fjárfestingafélagsins Triple Point, hefði keypt íslenska félagið Verne Global, sem rekur gagnaver í Reykjanesbæ á 231 milljón punda, jafnvirði 40,5 milljarða króna á þeim tíma. Á meðal stærstu hluthafa Verne Global voru sjóður í rekstri Stefnis og Novator Partners, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar. Verðmiðinn á gagnaverinu jafngildir EBITDA-margfaldara upp á um tuttugu en EBITDA-hagnaður Verne Global var sagður um 11,5 milljónir punda.

Nýr eigandi Verne Global greindi frá því í byrjun þessa árs að hann hyggðist fjárfesta jafnvirði um 12 milljarða króna í því skyni að auka afkastagetu gagnaversins sem mun verða eftir framkvæmdirnar um 40 megawött. Fjárfestingafélagið Triple Point var á liðnu ári, eins og Innherji hefur áður fjallað um, á meðal þeirra erlendu innviðasjóða sem voru að bítast um að kaupa Mílu af Símanum á lokametrum söluferlisins en fyrirtækið var sem kunnugt er að lokum selt til franska sjóðsins Ardian fyrir 78 milljarða.

Þriðja gagnaversfélagið hér á landi sem var selt seint á síðasta ári var Borealis Data Center, sem áður hét Etix Everywhere Borealis, en tilkynnt var um það í október að franski fjárfestingasjóðurinn Vauban Infrastructure Partners hefði keypt fyrirtækið. Borealis Data Center rekur gagnaver á Blönduósi og á Fitjum í Reykjanesbæ en samanlögð afkastageta þeirra nemur um 50 megawöttum og unnið er að stækkun gagnaversins á Blönduósi.

Ekki hafa fengist staðfestar upplýsingar um hvert virði Borealis Data Center var í viðskiptunum en í greiningu RBC Capital Markets um alþjóðlega gagnaversiðnaðinn frá því síðastliðið haust, sem Innherji hefur undir höndum, kemur fram að áætlaður EBITDA-hagnaður íslenska félagsins sé um 15 milljónir evra, jafnvirði um 2,2 milljarðar króna, og að gagnaverið sé með langtímasamninga við sína viðskiptavini. Í sömu greiningu RBS Capital Markets er bent á að ef litið sé til þeirra kaupa sem hafa átt sér stað á gagnaverum víðsvegar um heiminn frá árinu 2018 þá hafi verðmiðinn í þeim viðskiptum að meðaltali jafngilt 21 sinnum EBITDA hagnaði félaganna. Samkvæmt þeim forsendum gæti heildarvirði gagnaversins Borealis því hafa verið í kringum 40 milljarðar króna.

Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors, var á meðal leiðandi hluthafa í gagnaverinu Verne Global sem var selt til bresks fjárfestingasjóðs fyrir rúmlega 40 milljarða.

Stærsti hluthafi Borealis Data Center, með rúmlega 60 prósenta hlut í árslok 2020, var Vantage Data Centers sem hafði kominn inn í hluthafahópinn í ársbyrjun 2020. Aðrir eigendur gagnaversins eru íslenskir fjárfestar en þeir eru meðal annars Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum fyrirtækisins, og fjárfestingarfélagið Thule Investments sem er leitt af Gísla Hjálmtýssyni.

Minni áhersla á viðskiptavini í rafmyntagreftri

Framan af var stór hluti umsvifa gagnaveranna hér landi – minnst þó í tilfelli Verne Global – tengdur því að þjónusta viðskiptavini sem voru í greftri eftir rafmyntum, eins og Bitcoin, en raforkusamningar sem byggjast á slíkri starfsemi eru jafnan mjög stuttir. Að undanförnu hafa gagnaverin hins vegar lagt áherslu á að leita til annarra viðskiptavina en þeirra sem eru í vinnslu rafmynta – hlutfallið er sagt núna vera komið undir 50 prósent – og horfa þess í stað til stórra alþjóðlegra fyrirtækja og stofnana sem þurfa á miklu reikniafli að halda. Þar er meðal annars um að ræða fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum, fjármálageiranum, rannsóknum og vísindum, veðurfræði og bílaframleiðenda. 

Landsvirkjun hefur sagt að fyrirtækið hafi hafnað öllum nýjum beiðnum um raforkukaup vegna rafmynta og Verne Global hefur gefið það út að gagnaverið muni hætta allri starfsemi á rafmyntamarkaði á næstu mánuðum og bæta um leið þjónustu sína við stórnotendur.

Sala orkufyrirtækjanna til gagnaveranna fjögurra sem eru starfrækt á Íslandi – Verne Global, atNorth, Borealis og Reykjavik Data Center – hefur að undanförnu numið vel á annað hundrað megawött. Sala Landsvirkjunar til slíkra viðskiptavina fjórfaldaðist á árunum 2015 til 2020 og fór upp í um 3 prósent af heildarraforkusölu fyrirtækisins en gagnaverin hafa verið að kaupa umframorku í raforkukerfinu. Samkvæmt Samtökum iðnaðarins nema árlegar gjaldeyristekjur vegna gagnaversiðnaðarins um 20 milljörðum króna.

Samkeppnisstaðan tók stakkaskiptum

Á árinu 2019 og fram eftir árinu 2020 kvörtuðu stærstu gagnaverin hér á landi sáran yfir versnandi rekstrarumhverfi og vísuðu til þess að orkuverðið væri ekki lengur samkeppnishæft við það sem þekktist á hinum Norðurlöndunum. Hætta væri á frekari samdrætti hjá gagnaverunum sem voru þá að draga úr raforkukaupum sínum vegna minnkandi eftirspurnar frá stórum viðskiptavinum. 

Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Borealis Data Center.

Þessi staða hefur síðan breyst hratt til hins betra á skömmum tíma. Orkuverð hefur verið í hæstu hæðum í Evrópu og á hinum Norðurlöndunum um nokkurt skeið og samkeppnisstaða íslensku gagnaveranna hefur því um leið tekið stakkaskiptum þar sem þeim bjóðast nú mun hagstæðari og stöðugri raforkusamningar hér á landi en þekkist annars staðar við núverandi markaðsaðstæður.

Sala Landsvirkjunar til gagnavera fjórfaldaðist á árunum 2015 til 2020 og fór upp í um 3 prósent af heildarraforkusölu fyrirtækisins en fyrirtækin hafa verið að kaupa umframorku í raforkukerfinu.

Að sögn viðmælenda Innherja sem komu að viðskiptum með gagnaverin undir lok síðasta árs varð þessi þróun meðal annars til þess að auka verulega áhuga ýmissa erlendra sjóða á gagnaversiðnaðinum hér á landi, sem er í miklum vexti, og um leið hækkaði nokkuð verðmiðinn á þeim. Þá sé Ísland til viðbótar um margt með náttúrulegt samkeppnisforskot í þessum iðnaði vegna aðgangs að 100 prósent endurnýjanlegri orku og hinu kalda loftslagi.

Stjórnvöld hafa tilkynnt um nýjan fjarskiptastreng til Írlands sem er áætlað að verði tekinn í notkun lok þessa árs en honum er ætlað að auka fjarskiptaöryggi og mun að óbreyttu opna á enn meiri vöxt í gagnaversiðnaði hér á landi. Kostnaður vegna lagningu strengsins, sem hefur hlotið nafnið ÍRIS, er áætlaður um 50 milljónir evra, jafnvirði um 7 milljarðar króna.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Grafið eftir Bitcoin í íslenskum gagnaverum

Erlendir aðilar horfa til íslenskra gagnavera í auknum mæli meðal annars til að grafa eftir Bitcoin rafmyntum. Raforkusala til gagnavera hefur margfaldast á undanförnum árum og orkufyrirtækin finna fyrir aukinni eftirspurn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.×