Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll - Njarðvík 84-96 | Fjórði sigurleikur Njarðvíkur í röð

Ísak Óli Traustason skrifar
Njarðvíkingar unnu góðan sigur í kvöld.
Njarðvíkingar unnu góðan sigur í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Njarðvíkingar unnu sinn fjórða leik í röð er liðið vann góðan ellefu stiga útisigur gegn Tindastól í kvöld, 84-95. Tapið var jafnframt fjórða tap Tindastóls í röð.

Tindastóll fékk Njarðvík í heimsókn í Síkið í kvöld. Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en Njarðvíkingar náðu átta til tíu stiga forskoti í þeim öðrum og leiddu með átta stigum í hálfleik.

Tindastóll kom með gott áhlaup í þriðja leikhluta og náðu að koma sér yfir fyrir lok leikhlutans en Njarðvíkingar sigu fram úr og leiddu leikinn með fjórum stigum fyrir loka fjórðunginn. Síðasti leikhlutinn var spennandi framan að en leiðir skildu þegar að um það bil fjórar mínútur voru eftir og þá tóku Njarðvíkingar völdin og sigruðu að lokum með 12 stigum. Lokatölur 84 – 96.

Af hverju vann Njarðvík?

Þeir tóku betri ákvarðanir undir lok leiks. Dedrick Deon Basile var frábær í leiknum og tók fyrir í lokin og tætti vörn Tindastóls í sig hvað eftir annað með því að skora sjálfur eða búa til fyrir aðra. Njarðvíkingar fá 40 stig frá bekknum sínum í kvöld og sýndu mikla breidd og fagmannlegan leik.

Njarðvík skjóta mjög vel í þriggja stiga skotum eða 47% (14/30) og 62% í tveggja stiga skotum.

Hverjir stóðu upp úr?

Það voru margir góðir hjá Njarðvíkingum en bestir voru þeir Dedrick Basile og Logi Gunnarson. Dedrick Basile endaði með 20 stig, 10 stoðsendingar og 7 fráköst og Logi skilaði 16 stigum og 5 þriggja stiga skot ofan í með 83% nýtingu, þær mínútur sem Logi spilar eru Njarðvíkingar að vinna með 23 stigum. Frábær.

Javon Bess og Sigtryggur Arnar Björnsson áttu góðan leik fyrir Tindastól. Bess skoraði 25 stig og tók 6 fráköst. Sigtryggur Arnar átti líklega einn sinn besta leik í vetur með 22 stig og 4 stoðsendingar.

Hvað hefði betur mátt fara?

Ákvarðanataka liðanna undir lokin skipti máli, Njarðvíkingar voru þar skarpari á svellinu en þó gaf þessi 12 stiga sigur ekki alveg rétta mynd af leiknum.

Hvað gerist næst?

Tindastóll fær KR í heimsókn á mánudaginn í sannkölluðum fjögurra stiga leik á meðan að Njarðvík fær Grindavík í heimsókn og freista þess að vinna sinn fimmta sigur í röð.

Baldur: Þeir eru klárir

Baldur Þór ragnarsson, þjálfari Tindastóls, var eðlilega svekktur með tap sinna manna í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, var svekktur eftir tap sinna manna.

„Við spiluðum 50/50 leik hérna í 36 mínútur og það er svakalega leiðinlegt að missa þetta svona frá sér á lokakaflanum,“ sagði Baldur.

Baldur sagði þó ætla að „einblína á það að Njarðvík spilaði hörku góðan körfuboltaleik hérna í kvöld og voru hitta svakalega vel. Þeir fá Loga inn af bekk í 5/6 í þriggja stiga skotum og eru mjög gott körfuboltalið. Við samsvörum þeim í 36 mínútur en þú verður að gera það í 40 mínútur.“

Aðspurður út í hvað hefði farið úrskeiðis síðstu fjórar mínútur leiksins sagði Baldur að Njarðvíkingar hefðu verið klókari. „Þeir eru bara klárir, Richotti með stór play, Fotios Lampropoulos og Haukur Helgi Pálsson að taka góðar ákvarðanir með boltann og þetta er menn á háu leveli“, sagði Baldur og bætti við að ,,þeir eru góðir að taka ákvarðanir í þessari stöðu og á sama tíma vorum við ekki með jafn góðar ákvarðanir.“

Það voru þó batamerki á liðinu og var Baldur sammála því og bætti við að „við sönnum fyrir sjálfum okkur að við getum spilað við öll þessi lið, þá þurfum við að hitta á góða leiki því að við getum ekki farið með meðal góðan leik og unnið þessi lið þannig að við þurfum að spila góðan leik allan tímann.“

Benedikt: Ánægður með liðið og fannst allir skila sínu í kvöld

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður með alla sína menn í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Benedikt Rúnar Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður með sigur sinna mann hér í kvöld. 

„Það er ekki oft sem að maður kemur hingað og vinnur, þannig að maður kann að meta þegar að það loksins gerist,“ sagði Benedikt.

„Mér fannst Tindastólsliðið flott hérna í kvöld, þetta var ein besta framistaða þeirra í langan tíma. Þetta var 50/50 leikur þangað til að við sigum aðeins fram úr í lokin og hugsanlega meira sjálfstraust í okkar liði og meiri eining,“ sagði Benedikt.

Það voru margir góðir hjá Njarðvíkingum í leiknum og Benedikt sagðist vera ánægður með alla sína leikmenn. 

„Basile átti sína spretti, Logi Gunnarsson átti frábæran sprett, Maceik Baginski í fyrri hálfleik, Mario Matasovic í fyrri hálfleiki,“ sagði Benedikt og bætti við að „mér finnst bara frábært þegar ég er á bekknum og klóra mér í hausnum yfir því að mig langi að koma þessum inn á en er að spá hvern ég eigi að taka út af.“

„Þá er ég ánægður með liðið þegar að þetta er orðið svona mér fannst allir skila sínu í kvöld og Basile virkilega flottur,“ sagði Benedikt.

Haukur Helgi Pálsson spilaði mikið í leiknum og sagðist Benedikt hugsanlega að vera spila honum of mikið. Benedikt sagðist þó vera að reyna að spila honum í gang og „flýta fyrir að hann nái sem mestri getu aftur, hvort það verði 100 prósent á þessu tímabili verður bara að koma í ljós en hann er mikilvægur fyrir okkur þó að hann sé ekki 100 prósent.“

,,Hann gerir svo margt, les leikinn svo vel og þetta tikkar vel með hann inná,“ sagði Benedikt.

Benedikt taldi vera margt í leik sinna manna sem þeir gætu gert betur.

„Við vorum framan af vetri að leita að okkar einkenni, sérstaklega varnarlega. Sóknarlega fengum við góðan takt í byrjun móts en svo kom aðeins bakslag í það, varnarlega vorum við að prófa alls konar, þreifa fyrir okkur og finna hvað væri okkar vonandi erum við búnir að finna það,“ sagði Benedikt að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira