Innherji

Markaðurinn býr sig undir 75 punkta vaxtahækkun

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. VÍSIR/VILHELM

Afgerandi meirihluti markaðsaðila gerir ráð fyrir því, samkvæmt könnun Innherja, að Seðlabanki Íslands hækki vexti um 75 punkta á næsta vaxtaákvörðunarfundi bankans á miðvikudaginn. Verðbólgan er komin vel yfir spár, langt er í næstu ákvörðun og trúverðugleiki Seðlabankans er sagður í húfi.

Innherji leitaði til alls tuttugu greinenda á fjármálamarkaði, sjóðstjóra og hagfræðinga, og spurði hvað þeir teldu að Seðlabankinn tæki til bragðs á fundinum. Niðurstaða könnunarinnar, sem var gerð á dögunum 2. til 4. febrúar, var sú að fjórir töldu að vextir yrðu hækkaðir um 50 punkta og fjórtán spáðu 75 punkta hækkun. Vextir myndu þannig hækka úr 2 prósentum í 2,75 prósent. Hins vegar sögðu tveir að Seðlabankanum væri ekki annað fært en að hækka vexti um heila 100 punkta.

„Seðlabankinn verður að bregðast harkalega við ætli hann að halda verðbólguvæntingum í skefjum og viðhalda trúverðugleika sínum,“ segir einn viðmælandi í rökstuðningi sínum. Framundan sé „blóðug barátta“ við að snúa við væntingum og þróun á íbúðarmarkaði, ofan í „háværar kröfur um launahækkanir og skaðabætur vegna kaupmáttarskerðingar.“

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,5 prósent í janúar á þessu ári, þvert á allar spár greinenda, og mælist tólf mánaða verðbólga því 5,7 prósent. Hefur árstaktur verðbólgunnar ekki verið meiri frá því í apríl árið 2012.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það ekki fráleitur möguleiki að verðbólgan gæti mælst með tveggja stafa tölu innan einhverra mánaða sé ekkert að gert

„Seðlabankinn gekk ekki nógu rösklega til verks í vaxtahækkunum haust til að hemja verðbólguvæntingar og kæla fasteignamarkaðinn,“ segir annar viðmælandi. „Nú þarf Seðlabankinn ekki bara að ná niður verðbólguvæntingum með hraustlegri vaxtahækkun heldur þarf hann einnig að verja trúverðugleika sinn með því að bregðast við verðbólgunni.

Þegar Seðlabankinn hækkaði vexti um 50 punkta í nóvember spáði bankinn því að verðbólga yrði 4,4 prósent á fyrsta fjórðungi þessa árs. Samkvæmt janúarmælingunni er verðbólga því komin langt yfir spár bankans.

„Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það ekki fráleitur möguleiki að verðbólgan gæti mælst með tveggja stafa tölu innan einhverra mánaða sé ekkert að gert,“ segir einn greinandi. Hann bendir á að mælingin í janúar gefi til kynna að erlend verðbólgan eigi eftir að miklu leyti eftir að koma fram hér á landi. Innherji hefur að undanförnu greint frá því að stærstu heildsölur landsins hafi ekki séð eins víðtækar og skarpar verðhækkanir, og þær sem hafa gengið yfir á síðustu vikum.

Annað áhyggjuefni fyrir Seðlabankans er hækkun á innlendu verðlagi fyrir utan húsnæði sem er mælikvarði á undirliggjandi verðbólguþrýsting. Samkvæmt janúarmælingu er hækkunin á ársgrundvelli komin upp í nærri 5 prósent og því langt yfir 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði bankans.

Fjöldi viðmælenda nefndi að næsta vaxtaákvörðun yrði ekki tekin fyrr en í byrjun maí. Í ljósi þess þyrfti Seðlabankinn að „grípa fast um taumana,“ eins og einn viðmælandi komst að orði, til að vinna bug á hækkandi verðbólguvæntingum og aukinni verðbólgu.

Hraðari hækkanir núna þýðir að fyrr verður hægt að lækka vexti aftur

„Það er nauðsynlegt fyrir trúverðugleikann að toga fast í bremsuna til að ná verðbólguvæntingum nær markmiði og mun auka trúverðugleika Seðlabankans til lengri tíma litið,“ sagði annar viðmælandi en trúverðugleiki var eitt af þeim orðum sem komu oftast fram í rökstuðningi svarenda.

„Vaxtastefnan hefur ekki efni á því að missa trúverðugleikann af því að þá fyrst þarf að hækka vexti hér fyrir alvöru og við förum aftur í sama gamla farið. Hraðari hækkanir núna þýðir að fyrr verður hægt að lækka vexti aftur,“ bætti hann við.

Samkvæmt könnun sem Seðlabankinn framkvæmdi á dögunum 24. til 26 janúar taldi mikill meirihluti markaðsaðila á skuldabréfamarkaði að taumhald peningastefnu Seðlabanka Íslands væri of laust um þessar mundir, eða 76 prósent aðspurðra. Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar telji að verðbólgan muni haldast að meðaltali í 5 prósent á fyrsta fjórðungi ársins en hjaðni á næstu mánuðum og verði 4,7 prósent á öðrum ársfjórðungi 2022.

Þurfa að meta fórnarkostnaðinn

Úrlausnarefni Seðlabankans er ekki einfalt. Þrátt fyrir góðar efnahagshorfur eru sumar atvinnugreinar, einkum ferðaþjónustan, enn að jafna sig eftir niðursveifluna. Vaxtahækkanir auka vaxtamun við útlönd og hafa tilhneigingu til að styrkja krónuna sem veikir samkeppnishæfni greina eins og ferðaþjónustuna.

Seðlabankinn hefur í þrígang á þessu ári beitt gjaldeyrisinngripum í því skyni að halda aftur af styrkingu krónunnar sem hefur að undanförnu verið töluverð. Gjaldeyriskaup Seðlabankans um miðja síðustu viku voru þau mestu á einum degi frá því í júní í fyrra þegar bankinn keypti í nokkrum tilfellum talsvert af gjaldeyri á markaði í tengslum við innflæði fjármagns vegna kaupa erlendra fjárfestingarsjóða í hlutafjárútboði Íslandsbanka.

Auk þess er Seðlabankinn að einhverju leyti að á „ókönnuðu svæði“, eins og einn viðmælandi komst að orði, í ljósi þess að húsnæðislán eru að stórum hluta á breytilegum vöxtum og vaxtahækkanir bíta því fastar en þær hafa áður gert.

Annar viðmælandi bendir á að Seðlabankinn þurfi að meta hvað sé eðlilegt að þjóðfélagið beri mikinn skammtímakostnað í formi minni hagvaxtar og lægra atvinnustigs til að komast niður í verðbólgumarkmiðið. Sjái Seðlabankinn fram á lítinn hagvöxt gæti niðurstaðan verið 50 punkta hækkun.

„Seðlabankinn gæti talið það mikla þenslu fram undan að hann verði að ná tökum á verðbólgunni með hörku og hækkað um 100 punkta. Þá er útlitið ekki bara slæmt heldur mjög slæmt.“


Tengdar fréttir

Á óþekktum slóðum

Seðlabankanum er augljóslega vandi á höndum. Of lítil vaxtahækkun á vaxtaákvörðunarfundi næstkomandi miðvikudag – án efa þeim mikilvægasta frá því að Ásgeir Jónsson tók við embætti seðlabankastjóra – gæti grafið verulega undan trúverðugleika bankans í augum markaðsaðila um að honum sé alvara um að ná böndum á verðbólgunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×