Körfubolti

Körfu­bolta­kvöld um inn­komu Frið­riks í Breiðholtið: „Er að gera stór­kost­lega hluti með þetta ÍR-lið“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson hefur gert góða hluti síðan hann tók við ÍR.
Friðrik Ingi Rúnarsson hefur gert góða hluti síðan hann tók við ÍR. Vísir/Bára Dröfn

Þó ÍR hafi tapað naumlega gegn ríkjandi Íslandsmeisturum Þórs Þorlákshafnar í síðustu umferð Subway-deildar karla í körfubolta þá fékk þjálfari liðsins – sem og leikmenn hans – mikið hrós í síðasta þætti Körfuboltakvölds.

„ÍR-ingar fengu þrjá leikmenn þegar Friðrik Ingi (Rúnarsson, þjálfari liðsins) kom. Tristan Simpson, Igor Maric og Jordan Semple sem var mjög góður í þessum leik. Hann er skemmtileg týpa,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, þáttastjórnandi um eina af nýjustu viðbótum Subway-deildarinnar.

Semple skoraði 24 stig, tók 12 fráköst og gaf 8 stoðsendingar í naumu tapi ÍR gegn ríkjandi Íslandsmeisturum Þórs Þorlákshafnar.

„Þetta er ótrúlega vel gert hjá Frikka. Það sem hann gerði var í rauninni það sem við nefndum þegar hann var ráðinn. Við töluðum um að hann myndi ekki bjarga neinu ef hann myndi ekki taka til í leikmannahópnum og hann gerði nákvæmlega það. Það vita það allir sem fylgjast með körfubolta að þeir reyndu við þrjá til fjóra þjálfara áður en þeir fóru til Frikka en ég held að þeir þakki guði fyrir það að þessir þjálfarar hafi ekki tekið slaginn því Frikki er að gera stórkostlega hluti með þetta ÍR-lið,“ sagði Sævar Sævarsson um innkomu reynsluboltans Friðriks Inga í Breiðholtið.

„Þetta eru svona gaurar sem eru tilbúnir að spila liðsbolta. Ég veit að Frikki er mikill þjálfari liðsbolta, hann kann þá íþrótt mjög vel. Ég held að þetta hafi verið ofboðslega vel valið hjá honum, þessir þrír leikmenn,“ bætti Hermann Hauksson við.

Umræðuna um ÍR má sjá í spilaranum hér að neðan en þar er einni farið yfir hlutverk Sigvalda Eggertssonar og frammistöðu hans að undanförnu.

Klippa: Körfuboltakvöld: ÍR-ingar að vakna til lífsins

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×