Skoðun

15 mínútna hverfið

Stein Olav Romslo skrifar

Eftir að ég flutti frá Þrándheimi til Reykjavíkur hef ég oft verið spurður hvernig það er að búa hér.

Einfalda svarið er að það er ekki mikill munur. Þrándheimur og Reykjavík eru að mörgu leyti svipaðar borgir. Til að mynda er íbúafjöldinn í Þrándheimi og hér á höfuðborgarsvæðinu um það bil sá sami. Háskólinn er stór vinnustaður rétt utan við miðbæinn og breiðir þjóðvegir fara beint í gegnum stór íbúahverfi.

Hins vegar er raunhæft fyrir íbúa Þrándheims að nota almenningssamgöngur til allra sinna ferða dags daglega. Strætó gengur mjög reglulega í gegnum borgina allan daginn og meira að segja alla nóttina um helgar. Þar er hægt að bregða sér á næstu strætóstoppistöð án þess að athuga hvenær strætó kemur, enda má alltaf treysta því að hann komi innan nokkurra mínútna.

Við eigum að stefna ótrauð að því að staða almenningssamgangna verði líka svona um alla Reykjavík strax á næstu árum. Stefna borgarinnar um 15 mínútna hverfið er mikilvæg og ég nýt góðs af henni á hverjum degi - en við verðum að halda áfram. Ég er heppinn að geta gengið í vinnuna, út í búð og niður í bæ, tekið strætó eða rafhlaupahjól nær hvert sem er. En þetta verður að vera hægt sama hvar í borginni við búum – til þess þarf að stórefla almenningssamgöngur í allri Reykjavík og standa vörð um hugmyndafræði Borgarlínu. Tryggjum saman að Borgarlínan verði öflugt almenningssamgöngunet á höfuðborgarsvæðinu og gerum Reykjavík að enn betri borg!

Höfundur er grunnskólakennari og sækist eftir 5.-6. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar 12.-13. febrúar nk.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×