Skoðun

Vakta­skipti á Al­þingi

Dofri Hermannsson skrifar

Stuðningsaðgerðir síðustu ríkisstjórnar við lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu björguðu fjölda fyrirtækja um allt land frá því að fara í þrot. Fjölskyldufyrirtækjum þar sem einstaklingar hafa með mikilli vinnu og þolinmæði byggt upp einstaka þjónustu og viðskiptatengsl. Þessi litlu fyrirtæki eru kryddið í ferðaþjónustunni á Íslandi, þar sem gestir fá persónulega þjónustu frá fólki sem hefur lagt sál sína í að byggja upp starfsemina, hvort sem það er leiðsögn, sveitagisting eða önnur upplifun.

Rödd þeirra mörgu en smáu

Það var þó ekki einfalt að fá aðgerðir fyrir litlu fyrirtækin. Þau þurftu virkilega að hafa fyrir því að rödd þeirra heyrðist. Sjálfsprottin samtök þessara fyrirtækja urðu til og fólk sem þegar barðist í bökkum lagði á sig ómælda vinnu til að ná eyrum og skilningi ráðamanna. Það tókst, þingmenn úr öllum flokkum hlustuðu og lögum var breytt þannig að litlu fyrirtækin nytu líka stuðnins. Með því var miklum verðmætum bjargað.

Nú hafa samtökin sent inn umsögn við frumvarp um aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum í veitingageiranum og spyrja þar mikilvægra spurninga:

Hvað varð um vitneskjuna um hvað felst í því t.a.m. að vera lítið fyrirtæki úti á landi? Hvað varð um vitneskjuna um það hvernig rekstri er háttað og hvað þarf til að reksturinn gangi upp? Hvað varð um vitneskjuna um samþættingu ferðaþjónustunnar, að einn geirinn hefur áhrif á annan? Hvað er veitingageirinn án annarrar ferðaþjónustu og hún án veitingageirans? Hvað varð um vitneskjuna um hversu mikilvæg ferðaþjónustan í heild sinni er m.a. byggðastefnunni, eflingu landsbyggðarinnar ogþví að sporna við fólksflótta af landsbyggðinni, uppbyggingu og nýsköpun?

Þegar þekking og tengingar glatast

Svarið við spurningunni er augljóst. Þekkingin er í kollinum á einstaklingum sem eru komnir til annarra starfa. Í stað þeirra þingmanna sem hlustuðu í fyrra er komið nýtt fólk sem enn þekkir ekki stöðu lítilla ferðaþjónustufyrirtækja. Þetta er í raun sama vandamál og ef þessi litlu fyrirtæki færu í þrot. Þekking þeirra og tengingar við erlenda gesti myndu glatast og langan tíma tæki að byggja slíka þekkingu aftur upp.

Flest bendir til þess að ferðamenn fari aftur að koma með vorinu. Þá viljum við að hin þúsund litlu blóm íslenskrar ferðaþjónustu springi út og dafni. Til að það geti gerst þurfa nýir þingmenn að bregast hratt við, afla sér þekkingar og móta aðgerðir sem gagnast litlum fyrirtækjum og einyrkjum í ferðaþjónustu. Það þarf að gerast hratt.

Höfundur stofnaði 2017 fyrirtækið Reykjavik erupts og hefur síðan þá farið með nokkur þúsund ferðamenn um Reykjanesskagann, sýnt þeim þá lítt þekktu náttúruperlu og sagt frá því hvernig eldvirkni á skaganum gæti brotist út.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×