Innherji

Tekjur Haga yfir væntingum vegna „innfluttrar verðbólgu“

Hörður Ægisson skrifar
Í greiningu Jakobsson er verðmatsgengi Haga, sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Bónus, hækkað úr 75,9 krónum á hlut í 80 krónur á hlut. Það er um 14 prósentum hærra en núverandi markaðsgengi.
Í greiningu Jakobsson er verðmatsgengi Haga, sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Bónus, hækkað úr 75,9 krónum á hlut í 80 krónur á hlut. Það er um 14 prósentum hærra en núverandi markaðsgengi.

Þrátt fyrir að vörusala Bónus, sem var 15 milljarðar króna á síðasta ársfjórðungi, hafi verið umfram áætlanir Haga þá er framlegðin enn undir langtímamarkmiðum félagsins. Það skýrist af kostnaðarverðshækkunum og hækkandi hrávöruverði auk þess sem flutningskostnaður hefur rokið upp sem má vænta að hafi einnig nartað í framlegð Haga.

Þetta kemur fram í nýjasta verðmati Jakobsson Capital en þar er bent á að stjórnendur Haga, sem rekur verslanir og bensínsstöðvar undir merkjum Bónus, Hagkaup og Olís, hafi vísað til þess að verðhækkanir á matvöru séu framundan sem og launahækkanir tengdar kjarasamningum. Þá sé ljóst að kostnaður fylgir því að vera með lengri opnunartíma í Bónus.

Greinandi Jakobsson segir að Hagar séu eitt af „þessum félögum sem ganga eins og klukkan. Uppgjörin koma sjaldnast mikið á óvart og er stöðugleiki mikill. Uppgjör níu mánaða ber þess vitni, vöxtur var í sölu milli ára en framlegðarhlutfall dróst hins vegar örlítið saman. Á fjárfestakynningu var talað um að ástæðan fyrir því væri hækkun olíuverðs og aukin olíusala til stórnotenda.“

Í greiningu Jakobsson er verðmatsgengi Haga hækkað úr 75,9 krónum á hlut í 80 krónur á hlut. Það er um 14 prósentum hærra en núverandi markaðsgengi, sem stendur í 70,25 krónum á hlut, sem metur félagið á um 81 milljarð króna.

Rekstrarhagnaður Olís stórbatnaði á milli ára. „Megrun reksturs Olís hefur skilað varanlegum niðurstöðum og beltið hefur verið þrengt um tvö göt eða svo. Olíuverð leitar upp á við á ný. Hernaðarbrölt í kringum Úkraínu skekur markaðinn og líkur eru á að olíuverð hækki eitthvað verði af innrás í Úkraínu. Slíkt myndi eflaust ekki bæta framlegðarhlutfall Olís. Dagvöruhluti Haga er þó það sem dregur vagninn og má rekja mikinn meirihluta rekstrarhagnaðar og rekstrarstöðugleika til hans,“ segir greinandi Jakobsson.

Hagar eru eitt þessum félögum sem ganga eins og klukkan. Uppgjörin koma sjaldnast mikið á óvart og er stöðugleiki mikill.

Þá segir í verðmatinu að sölutölur Haga hafi verið yfir væntingum og líklega sé það að einhverju leyfi „innflutt verðbólga“ vegna hærra flutningaverðs og aðfangaverðs. Shanghai-flutningsvísitalan hafi þannig haldið áfram að hækka upp á síðkastið og innkaupaverð aðfanga virðist enn fara hækkandi sem rennur að einhverju marki út í verðlag, sem aftur eykur tekjur Haga.

„Kostnaðarverð seldra er hins vegar að hækka örlítið meira en tekjur sem lækkar framlegðarhlutfallið hjá Högum milli ára. Búið er þó að boða verðhækkanir til að vega á móti þessari þróun og í fréttum þessa vikuna vara birgjar við miklum hækkunum á næstunni. Óhagstætt verð á eldsneyti hefur trúlega stuðlað hvað mest að lækkun framlegðarhlutfalls. […] Rafmagnssala í framtíðinni verður trúlega ekki jafn arðbær og eldsneytissala er nú. Ætla mætti í framtíðinni þegar rafmagnsbílar verða orðnir stærri hluti bílaflotans að verslunarhluti bensínstöðva verði mikilvægari tekjulega séð heldur en orkusala,“ segir í verðmati Jakobsson.

Þá er vakin athygli á þeim breytingum sem eru farvatninu hjá Olís. „Rekstrarhagræðingin sem hefur verið í gangi var fyrsta skrefið í breytingum innan Olís,“ útskýrir greinandi Jakobsson, og bætir við:

„Hagar ætla nú að ráðast í frekari vegferð og endurskipuleggja reksturinn. Bensínstöðvum verður fækkað og verslunum á landsbyggðinni verður umbreytt í afgreiðslulagera og söluskrifstofur sem hentar stórnotendum betur. Markmiðið með breytingunum er að þrengja fókusinn á það sem Olís gerir best og reyna að aðlaga Olís betur að samstæðu Haga. Meðal annars á að færa sölu rekstrar-, hreinlætis- og heilbrigðisvara frá Olís yfir til Haga þar sem innkaupa- og vöruhúsainnviðir eru sterkari. Vörumerki Olís á svo að fá andlitslyftingu ásamt því að breytingar verða gerðar á ásýnd bensínstöðvanna sem eftir munu standa.“

Hagar áforma nú einnig að fara af stað með netverslun og fyrsti fasinn gerir ráð fyrir snyrtivöruverslun Hagkaups.Vísir/Vilhelm

Í pípunum er einnig uppbygging á netverslun Haga og dótturfélaga, en fyrsti fasi á að vera snyrtivöruverslun Hagkaups. Greinandi Jakobsson telur það skynsamlegt skref „þar sem ekki sé líklegt að mikið magn verði í hverri pöntun og auðvelt að prófa kerfið áður en opnað verður á matvörur og annað sem selst í miklu magni.“

Hagnaður Haga var rúmlega 840 milljónir króna á þriðja fjórðungi fjárhagsárs félagsins – það nær frá september til nóvember – og jókst hann um 88 prósent á milli ára, samkvæmt uppgjöri sem var skilað eftir lokun markaða í gær. Veltan nam 33,6 milljörðum. Afkomuspá stjórnenda Haga gerir ráð fyrir að EBITDA-hagnaður fyrir fjárhagsárið í heild sinni, sem nær til loka febrúar 2022, verði á bilinu 10 til 10,5 milljarðar króna.

Á undanförnum tólf mánuðum hefur gengi bréfa félagsins hækkað um liðlega 22 prósent.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Hagar úthluta kauprétti að einu prósenti hlutafjár í félaginu

Í tilkynningu frá Högum hf. í dag kemur fram að á fundi stjórnar félagsins þann 25. júní hafi verið ákveðið að veita tilteknum lykilstarfsmönnum félagsins kauprétti að allt að 11.806.246 hlutum í félaginu, eða sem samsvarar einu prósenti af hlutafé Haga hf.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×