Umræðan

Örvænting í ofbeldissambandi

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar

Við sjáum merki þess að veirufaraldurinn muni draga illan dilk á eftir sér. Viðvarandi takmarkanir á ferðafrelsi og athafnafrelsi, sem fyrst var komið á í neyðarskyni en eru nú með öllu tilefnislausar, hafa breytt almennu viðhorfi fólks gagnvart ríkisvaldinu. Við erum orðin alltof vön því að stjórnvöld geti skikkað einkennalausa í stofufangelsi í þúsundavís og stöðvað atvinnurekstur með engum fyrirvara. Ein afleiðing af þessu ástandi er sú að nú þykir ekkert tiltökumál að kalla eftir hörðum inngripum gagnvart einum hópi ef það þýðir að annar hópur endurheimti sjálfsögð réttindi.

Forsvarsmenn þriggja hagsmunasamtaka hafa stigið fram í umræðunni og kallað eftir því að bólusetningarvottorð verði forsenda þess að taka þátt í samfélaginu. Félag atvinnurekenda spurði heilbrigðisráðherra hvers vegna hann hefði ekki tekið til skoðunar að fara svipaða leið og gert hefur verið í Austurríki; að heimila óbólusettum eingöngu að yfirgefa heimili sitt til að sækja vinnu og kaupa inn nauðsynjar. Ummæli af þessu tagi hefðu þótt óhugsandi fyrir tveimur árum síðan en hingað erum við komin.

Það má kannski segja að samfélagið hafi verið í ofbeldissambandi. Stjórnvöld gáfu fögur fyrirheit um afléttingar þegar markmiðum í bólusetningu væri náð en snerist síðan hugur. Því má líkja við stjórnsaman húsbónda sem bregst ókvæða við þegar eiginkona hans gerir sig tilbúna til að fara loksins í saumaklúbb eins og um var samið. Við vitum ekki nákvæmlega hver ástæðan fyrir þessum takmörkunum er, eða hvaða skilyrði við þurfum að uppfylla. Við leyfum geðþótta húsbóndans að stjórna okkar.

Óbólusettir bera ekki ábyrgð á því hvernig Landspítalanum er stjórnað og þeir bera ekki heldur ábyrgð á móðursýki stjórnvalda.

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu tók í sama streng og hann lýsti raunar ágætlega því ofbeldissambandi sem félagsmenn samtakanna hafa verið í. „Við heyrum það á okkar umbjóðendum að þeir skilja ekkert í reglunum. Það er ekkert samræmi milli þeirra mælikvarða sem settir eru og þeirra aðgerða sem gripið er til,“ sagði hann. Þrátt fyrir að hafa skilning á samhengi hlutanna ákvað framkvæmdastjórinn að skella skuldinni á hóp sem hefur lítið með málið að gera.

Það er deginum ljósara að bólusetningar hafa ekki virkað sem skyldi til að minnka útbreiðslu veirunnar og vangeta Landspítalans til að sinna sjúklingum er afleiðing af pólitískum ákvörðunum. Óbólusettir bera ekki ábyrgð á því hvernig Landspítalanum er stjórnað og þeir bera ekki heldur ábyrgð á móðursýki stjórnvalda. Málflutningur hagsmunavarðanna sýnir þó að nú þarf ekki stærri ógn en hið meinlitla Ómikrón-afbrigði til að menn hverfi frá grunngildum. Svo djúpstæð áhrif virðist faraldurinn hafa haft, en kannski ristu þessi gildi aldrei djúpt til að byrja með.

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar skrifaði grein af sama meiði þar sem hann talaði fyrir því að mismuna þjóðfélagshópum svo að atvinnurekendur, einkum veitingamenn, gætu haldið rekstrinum í „þokkalegu jafnvægi“. Ummæli hans eru athyglisverð í ljósi þess að ferðaþjónustan hefur verið helsti blóraböggullinn í gegnum þennan faraldur. Talsmenn greinarinnar hafa ósjaldan fengið yfir sig gusur og þeim gerðar upp þær hvatir að vilja fórna almannahagsmunum fyrir rekstraröryggi. Ferðaþjónustunni var gjarnan kennt um þegar veiran blossaði upp á ný en nú sér framkvæmdastjórinn sér leik á borði til að beina athyglinni að öðrum hópi. Það fer honum ekki vel.

Við erum ekki að glíma við ebólufaraldur. Tíðni innlagna og alvarlegra veikinda er ekki svo mikil að ástæða sé til að þvinga fólk í lyfjameðferð. Það er engin ástæða til að taka undir málflutning hagsmunavarða sem hyggjast kaupa félagsmönnum sínum frelsi á kostnað annarra.

Höfundur er blaðamaður á Innherja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×