Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson voru á meðal dómara á EM og dæmdu leik Rússlands og Litháens í Slóvakíu í síðustu viku.
Anton greinir frá því á Facebook í dag að hann hafi greinst með kórónuveirusmit á sunnudaginn og sé í einangrun á hótelherbergi. Jónas sé farinn heim til Íslands.
„Sorgarfréttir fyrir okkur félagana því okkur hafði gengið mjög vel á mótinu og milliriðlarnir að fara hefjast,“ skrifar Anton en bætir við að ekki væsi um hann á hótelherberginu og að handknattleikssamband Evrópu sjái til þess að honum líði sem best.