Handbolti

Ísland eina þjóðin á EM sem er með þrjá þjálfara í milliriðlunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku þjálfararnir Guðmundur Guðmundsson, Erlingur Birgir Richardsson og Alfreð Gíslason eru að gera flotta hluti á Evrópumótinu.
Íslensku þjálfararnir Guðmundur Guðmundsson, Erlingur Birgir Richardsson og Alfreð Gíslason eru að gera flotta hluti á Evrópumótinu. Samsett/EPA

Íslensku þjálfararnir á Evrópumótinu í handbolta í ár skiluðu allir liðum sínum í milliriðla. Eini tapleikur þeirra í riðlakeppninni var uppgjörsleikur tveggja íslenskra þjálfara.

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska landsliðsins, var ekki eini Íslendingurinn til að koma sínu landsliði upp úr riðlinum á EM 2022 heldur það gerðu einnig Alfreð Gíslason hjá Þýskalandi og Erlingur Birgir Richardsson hjá Hollandi.

Guðmundur og Alfreð unnu alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni og Erlingur vann báða leiki sína á móti þjálfurum sem voru ekki Íslendingar.

Íslensku þjálfararnir náðu því í sextán af átján stigum í boði í leikjum sínum í milliriðlinum. Níu leikir og átta sigrar.

Engin þjóð á líka fleiri þjálfara í milliriðlinum á EM í ár en Norðmenn koma næstir með tvo þjálfara. Engin önnur þjóð en Ísland og Noregur á fleiri en einn þjálfara í hópi tólf bestu þjóða Evrópu.

Christian Berge þjálfar landa sína í norska landsliðinu og þjálfari Svía, Glenn Solberg, er einnig Norðmaður. Norsku þjálfararnir unnu samt bara helming leikja sinna í riðlakeppninni, Norðmenn tvo af þremur og Svíar bara einn af þremur.

Þjálfarar með lið í milliriðlum EM 2022:

  • 3 frá Íslandi
  • Guðmundur Guðmundsson þjálfar Ísland
  • Alfreð Gíslason þjálfar Þýskaland
  • Erlingur Birgir Richardsson þjálfar Holland
  • 2 frá Noregi
  • Christian Berge þjálfar Noreg
  • Glenn Solberg þjálfar Sviþjóð
  • 1 frá Danmörku
  • Nikolaj Jacobsen þjálfar Danmörku
  • 1 frá Svartfjallalandi
  • Zoran Roganović þjálfar Svartfjallaland
  • 1 frá Króatíu
  • Hrvoje Horvat þjálfari Króatíu
  • 1 frá Frakklandi
  • Guillaume Gille þjálfar Frakkland
  • 1 frá Póllandi
  • Patryk Rombel þjálfar Pólland
  • 1 frá Spáni
  • Jordi Ribera þjálfar Spán
  • 1 frá Þýskalandi (Bosníu)
  • Velimir Petkovic þjálfar Rússland



Fleiri fréttir

Sjá meira


×