Handbolti

Óli Stef segir að það sé „eitthvað í loftinu“ hjá íslenska liðinu fyrir EM í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson skorar fyrir íslenska landsliðið á síðasta stórmóti sínu sem voru Ólympíuleikarnir í London 2012.
Ólafur Stefánsson skorar fyrir íslenska landsliðið á síðasta stórmóti sínu sem voru Ólympíuleikarnir í London 2012. Getty/Jeff Gross/

Ólafur Stefánsson, fyrrum fyrirliði íslenska handboltalandsliðsins, er bjartsýnn fyrir gengi íslenska handboltalandsliðsins á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu en fyrsti leikur strákanna okkar er á föstudaginn.

Ólafur verður sérfræðingur í EM stofu Ríkisútvarpsins á meðan mótinu stendur og leysir þar af Arnar Pétursson. Ólafur verður þar við hlið Loga Geirssonar en þeir voru hlið við hlið í íslenska landsliðinu þegar það vann silfur á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og brons á Evrópumótinu í Austurríki 2010.

En hvernig leggst þetta Evrópumót í besta handboltamann Íslands frá upphafi.

„Bara vel. Fólkið er aðeins að finna tóninn í leikmönnum og ég held að það sé eitthvað í loftinu,“ sagði Ólafur í viðtali á vef RÚV í tilefni að hann var tilkynntur sem nýr sérfræðingur EM stofunnar.

„Ég held að ég tali fyrir fleiri en sjálfan mig þegar ég segi að við höfum ekki verið góðir í fyrra. Maður finnur það að liðið vill meira og þá þýðir það náttúrulega augljóslega að byrja á því að komast upp úr riðlinum og það væri frábært ef þeim tækist að taka stig með,“ sagði Ólafur.

„Fyrsta og aðalmálið er að vinna Portúgal og byrja þar. Það er alveg lykilleikur,“ sagði Ólafur.

Margir leikmenn íslenska liðsins eru meðal markahæstu leikmanna í bestu deild í heimi menn eins og Ómar Ingi Magnússon, Bjarki Már Elísson og Viggó Kristjánsson.

„Menn eru að skora þarna úti í bestu deildinni og augljóslega förum við að setja þá kröfu að þeir geri slíkt hið sama þegar þeir klæðast bláa búningnum. Aron (Pálmarsson) er kominn aftur og þetta lítur nokkuð vel út,“ sagði Ólafur.

Það má finna allt viðtalið við Ólaf með því að smella hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.