Innherji

Elsta uppboðshús í heimi framlengir margra milljarða króna samstarf við Gangverk

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Atli Þorbjörnsson og Óli Björn Stephensen eru meðal eigenda Gangverks.
Atli Þorbjörnsson og Óli Björn Stephensen eru meðal eigenda Gangverks.

Gangverk og Sotheby’s hafa undirritað endurnýjaðan samning sín á milli um að Gangverk haldi áfram að hanna og þróa stafrænar lausnir fyrirtækisins. Um er að ræða samstarf upp á milljarða íslenskra króna.

Sotheby’s er elsta og virtasta uppboðshús í heimi, en það var stofnað árið 1744. Upprunalega sá Sotheby’s aðallega um sölu mikilvægra handrita og bókmenntaverka, en á sjötta áratug síðustu aldar fór uppboðshúsið að einblína æ meira á sölu listaverka sem Sotheby’s er frægast fyrir í dag. Höfuðstöðvarnar eru í New York en fyrirtækið heldur úti skrifstofum um allan heim.

Uppboð á verkum hins heimsfræga listamanns Damiens Hirst frá 2008.GETTY

Undanfarin misseri hefur listaverkasala uppboðshússins færst sífellt meira á netið og var sú þróun hafin fyrir heimsfaraldurinn. Hins vegar hafa tæknilausnir Sotheby’s og hefðbundin uppboð sem færð voru í streymi árið 2021 orðið til þess að mun meiri þátttaka varð á uppboðunum en nokkru sinni fyrr í sögu fyrirtækisins. Í fyrra seldi uppboðshúsið til að mynda fyrir tæplega 944 milljarða íslenskra króna.

Stafræn uppboð voru innan við 5 prósent af uppboðum fyrirtækisins árið 2016. Á síðasta ári fóru 92 prósent allra uppboða og viðskipta i gegnum farsímann og vefinn.

„Í dag er Sotheby’s orðið tæknifyrirtæki og leiðandi í þessum heimi. Síðastliðið ár seldu Sotheby’s fleiri verk en nokkru sinni fyrr og heildarsala var sú mesta í sögu fyrirtækisins. Stafræn uppboð voru innan við 5 prósent af uppboðum fyrirtækisins árið 2016. Á síðasta ári fóru 92 prósent allra uppboða og viðskipta i gegnum farsímann og vefinn,” segir Atli Þorbjörnsson, einn af eigendum og framkvæmdastjóri Gangverks.

„Þess má til gamans geta að hæsta tilboðið sem kom í gegnum internetið í fyrra hljóðaði upp á yfir milljarð íslenskra króna,” segir Atli.

Umbreyta fyrirtækjum og svara kalli tímans

Gangverk og Sotheby's hafa átt í samstarfi síðan 2016. 

„Hver samningur hefur talið í milljörðum yfir árið en þessi samningur er sá langstærsti hingað til í samstarfi fyrirtækjanna,” segir Atli, en Gangverk hefur undanfarið verið í miklum vexti ekki síst eftir að nýir hluthafar komu að rekstri þess. 

Þeir eru Óli Björn Stephensen, fyrrverandi þróunar- og tæknistjóri CBS Corporation og Sotheby’s, en hann er sá sem hrinti af stað stafrænni byltingu uppboðshússins í upphafi. 

Aðrir nýir hluthafar eru Hlynur Sigurþórsson og Haukur Kristinsson.

Hver samningur hefur talið í milljörðum yfir árið en þessi samningur er sá langstærsti hingað til í samstarfi fyrirtækjanna.

Tveir aðrir stórir kúnnar komnir til Gangverks á árinu

„Lengi vel var Sotheby's eini kúnni Gangverks en á síðastliðnu ári hefur Gangverk samið við viðskiptavini á borð við lúxusferðaskrifstofuna Lindblad Expeditions, heilbrigðisþjónustufyrirtækið Homecare og Kviku banka og hefur starfsmönnum nú fjölgað um rúmlega fimmtíu manns,” segir Óli Björn. 

Um 95 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu í dag en hann reiknar með að fyrirtækið þurfi að bæta við sig um þrjátíu til fimmtíu hátæknistörfum á árinu.

Air Jordan 11 skór, undirritaðir af Michael Jordan sjálfum, voru boðnir upp þann 14. júlí síðastliðinn í New York. Uppboðið var rafrænt.GETTY

Óli Björn segist alltaf vera að leitast eftir því að bæta við sig kraftmiklu fólki jafnt í fram- og bakendaforritun, hugbúnaðarprófun, hönnun og ekki síst neytendaupplifun. 

„Gangverk hefur sérstöðu á íslenskum markaði. Við tökum ekki að okkur einstaka verkefni heldur myndum við langtímasamstarf með okkar kúnnum og sjáum um alla þróun frá a til ö og aðstoðum við alla mótun framtíðarsýnar.”

Hugmyndafræði Gangverks gengur út á að umbreyta fyrirtækjum með alhliða þróunarteymum.

„Við nýtum okkur rauntímagögn og gagnavinnslu til þess að leiða fyrirtækin á rétta braut og búa til framtíðarsýn. Við vinnum hugmyndavinnu, skipuleggjum, þróum, hönnum og skilum af okkur stafrænum lausnum sem virka fyrir kúnnann og svara kalli tímans - fyrir neytandann,” útskýrir Atli.

Regluverkið og stjórnmálin úti á túni

Óli Björn segir að þó gleðilegt sé að samningar hafi náðst við Sotheby’s hafi það reynst þrautin þyngri. Íslenskt umhverfi fyrir frumkvöðla á borð við Atla og Óla Björn og félaga sé ekki í lagi og til þess fallið að hamla íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum að standast erlendum keppinautum snúning. 

„Regluverkið er úti á túni sem hlýtur eiginlega að þýða að stjórnmálamennirnir sem búa það til séu það líka,” segir Atli, léttur í bragði.

Skúlptúrar eftir Pablo Picasso voru boðnir upp á rafrænu uppboði í Las Vegas í október.GETTY

„Frá okkar bæjardyrum séð er allt umhverfið litað að því að hlutir hafa ekki verið hugsaðir alla leið. Það er ekki verið að verðlauna fyrirtæki fyrir að búa til ný stöðugildi á Íslandi og þess vegna hefur oft verið freistandi að flytja fyrirtækið út, þar sem er ódýrara en líka einfaldara að reka fyrirtæki í okkar geira,” segir Óli Björn sem bjó lengst af í Bandaríkjunum.

„Það er mjög undarlegt að koma heim og upplifa að stofnun eins og Rannís, sem á að greiða götu frumkvöðla hér á landi, geri í raun hið gagnstæða,” lýsir hann.

„Ég hef unnið markvisst að því síðan ég kom heim fyrir rúmu ári að koma með stóra kúnna til okkar í Gangverks og það hefur gengið eftir,” segir Óli Björn og vísar í samninga við HomeCare og Lindblad Expeditions, auk Sotheby’s.

„Ég hef hins vegar upplifað það í samskiptum okkar við Rannís að það er enginn vilji til þess að þessi viðskipti verði að veruleika, að fá þessa stóru samninga til Íslands, þessa dýrmætu þekkingu og svo ekki sé minnst á þau verðmætu störf sem til verða - svona í miðjum heimsfaraldri,” heldur hann áfram. 

„Ég upplifi að Rannís þurfi að breyta úreltum reglum og aðlaga sig að nýju umhverfi, líkt og fyrirtækin sem stofnunin þjónustar þurfa að gera á hverjum einasta degi.”

Það er mjög undarlegt að koma heim og upplifa að stofnun eins og Rannís, sem á að greiða götu frumkvöðla hér á landi, geri í raun hið gagnstæða.

„Það yrði hálfgerð synd ef Gangverk þarf að færa sig á annan markað til að gera fyrirtækið samkeppnishæfara. Það er mikið af ótrúlega hæfileikaríku fólki á Íslandi og við viljum gera þetta út héðan. Spurningin er hvort stjórnvöld ætli að standa í vegi fyrir því að fyrirtæki á borð við Gangverk geti þrifist hér á landi,” segir Óli Björn að lokum.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Gangverk kaupir Döðlur

Hugbúnaðarhúsið Gangverk hefur gengið frá kaupum á hönnunarfyrirtækinu Döðlur Studio.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.