Innherji

Gangverk kaupir Döðlur

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Atli Þorbjörnsson er einn eigenda Gangverks. Hörður Kristbjörnsson og Daníel Atlason eru eigendur Daðla.
Atli Þorbjörnsson er einn eigenda Gangverks. Hörður Kristbjörnsson og Daníel Atlason eru eigendur Daðla.

Hugbúnaðarhúsið Gangverk hefur gengið frá kaupum á hönnunarfyrirtækinu Döðlur Studio.

Gangverk hefur á undanförnum árum sinnt stórum hugbúnaðarþróunarverkefnum fyrir fyrirtæki á borð við Sotheby’s, sem er stærsta uppboðshús í heimi, fjölmiðlasamsteypuna CBS, lúxusferðaskrifstofuna Lindblad, Kviku banka og nú síðast Homecare, sem er bandarískt fyrirtæki sem fæst við heimahjúkrun. 

Döðlur hafa fengist við allt frá auglýsingaherferðum og mörkun yfir í ljósmyndun, sjónvarpsauglýsingar, hönnun á hótelum og veitingastöðum ásamt því að hafa verið í fjölbreyttri vöruþróun á eigin fatnaði, húsgögnum og nú síðast einingahúsinu Hedgehog. Einingahúsin verða áfram undir merkjum Daðla sem Döðlur Modular.

Kaupverðið er trúnaðarmál. Atli Þorbjörnsson, stofnandi Gangverks, segir að hönnun ráði í grundvallaratriðum hvernig stafrænar vörur Gangverks virka. Kaupin á Döðlum séu mikilvægt skref í áframhaldandi sókn Gangverks. 

„Frábær stefna og hugbúnaðarþróun getur aldrei bætt upp slæma hönnun. Þess vegna höfum við lagt mikið á okkur til að fá til okkar mjög hæfa hönnuði. Þeir eru órjúfanlegur hluti af okkar vöruþróun, frá upphafi til enda.”

Þróunin í stafrænni vöruþróun kallar á meiri samhæfingu

Hörður Kristbjörnsson, annar eigenda Daðla, segir kaupin rökrétt framhald af áralöngu samstarfi fyrirtækjanna tveggja. „Þróunin í þessum geira kallar á mun meiri samhæfingu í stefnumótun, hönnun og hugbúnaðarþróun. Við höfum alltaf verið lítið fyrirtæki með stórar hugmyndir. Þetta er rétta skrefið fyrir okkur í dag og til framtíðar”.

Gangverk hefur vaxið hratt undanfarin misseri og sprengdi húsnæði sitt í Borgartúni af sér fyrr á árinu. Um þessar mundir er fyrirtækið að koma sér fyrir í nýjum höfuðstöðvum í Ármúla. „Já, fyrirtækið er í örum vexti og það gengur vel. Starfsmenn eru orðnir um það bil 90 talsins og við stefnum á frekari vöxt,” segir Atli og bætir við, léttur í bragði.

„Þekkir þú kannski einhverja snillinga sem vantar vinnu?"


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.